Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 13:53:09 (3656)


[13:53]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78/1993, um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum, og tengist EES-samningi og GATT-samningnum. Í lögum nr. 78/1993 kemur fram í 2. gr. að vernd laganna nái aðeins til íslenskra ríkisborgara og lögaðila. Hins vegar kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að ráðherra geti með reglugerð veitt sama rétt ríkisborgurum þeirra ríkja sem veita íslenskum ríkisborgurum sams konar rétt. Þetta skilyrði um gagnkvæmni sem forsendu verndar er undantekning í hugverkarétti. Ástæða þessa fyrirkomulags er sú að flest önnur ríki sem höfðu löggjöf um vernd smárása byggðu á gagnkvæmni og var hugmyndin sú að slíkt myndi knýja á um að sem flest ríki settu lög sem tryggðu vernd svæðislýsinga smárása.
    Samkvæmt samningi um hugverkaréttindi í viðskiptum sem er hluti af samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar ber Íslandi að veita vernd á sviði allra hugverkaréttinda þar með talið svæðislýsingar smárása á grundvelli jafnréttiskjarareglunnar. Það þýðir að veita verður þegnum erlendra ríkja sama

rétt og þegnum þess ríkis sem löggjöfina setur. Í ljósi nefndra skuldbindinga gerir frv. þetta ráð fyrir að vernd samkvæmt lögum um svæðislýsingar smárása nái til allra sem hannað hafa slíka svæðislýsingu eða þeirra aðila sem öðlast hafa rétt til hönnunar án tillits til ríkisfangs.
    EES-samningurinn leggur þær skuldbindingar okkur á herðar að veita þarf ríkisborgurum ýmissa ríkja sem ESB hefur komist að samkomulagi við um að veita vernd á gagnkvæmnisgrundvelli sams konar vernd. Eins og löggjöf okkar er háttað verður slíkt aðeins gert eftir tímafrekum og flóknum leiðum. Rita þarf bréf til að fá formlega staðfestingu á gagnkvæmni og síðan þarf að setja reglugerð. Sú lagabreyting sem hér er lögð til er því til einföldunar og hagræðis.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og það verði afgreitt á þessu þingi.