Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:11:31 (3661)


[14:11]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég lýsi stuðningi mínum við megininntak þess og vil í sjálfu sér ekki tengja inntak þessa frv. þeim umræðum sem hafa orðið og ég hef vissulega tekið þátt í um óheppileg vinnubrögð í kringum áframhaldandi starfsleyfi fyrir kísilnám úr Mývatni. Ég vil út af fyrir sig halda þessu hlutum aðskildum og ekki blanda því inn í þessa umræðu. Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, þá fór hún hér fram fyrr í vetur m.a. í formi utandagskrárumræðu sem sá sem hér stendur hafði frumkvæði að.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þessi atvinnurekstur var settur niður í mjög viðkvæmu umhverfi og hefur gert það að verkum að þarna er komin upp ákveðin þversögn. Annars vegar er þarna verksmiðjurekstur, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, í viðkvæmu umhverfi frá náttúrulegu tilliti en hins vegar er þessi framleiðsla í sjálfu sér mjög umhverfisvæn sem byggist á að nýta náttúrulegt hráefni og nýta til þess náttúrulegan og umhverfisvænan orkugjafa sem er til staðar á svæðinu. Það er mín skoðun og það kom fram í mínu máli þegar ég ræddi þetta fyrr í vetur að það beri að leita allra leiða til þess að ganga úr skugga um hvort ekki er hægt að samræma og sætta þessi sjónarmið og við getum haldið þessum rekstri áfram.
    Það er hins vegar svo að þetta svæði býður upp á ýmsa möguleika, m.a. í ferðamálum eins og hér hefur komið fram. Hv. þm., síðasti ræðumaður, talaði um að það setti sitt mark á stefnumótun í ferðamálum að menn hefðu ekki rannsóknaumhverfi og rannsóknastofnanir til að styðjast við, það er eflaust rétt. Og hv. þm. nefndi sem dæmi hvernig hefði nú farið ef menn hefðu farið af stað með stefnumótun í sjávarútvegi án þess að hafa á bak við þessa víðtæku rannsókna- og þróunarstarfsemi sem þar hefur verið. Kannski höfum við dæmi fyrir okkur núna þar sem eru tillögur sjálfstæðismanna á Vestfjörðum sem í orði í það minnasta hafa aldrei viljað taka mark nema mjög takmarkað á niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar og annarra þeirra sem við og alla vega ýmsir aðrir í einfeldni okkar höfum talið okkur skylt að taka tillit til.
    Ég vil að lokum í þessu sambandi nefna einn möguleika eða eitt atriði í möguleikum þessa svæðis og það tengist bættum samgöngum. Ég hef talið að þau svæði sem vegur númer eitt fer um í Þingeyjarsýslum á leið sinni austur um land og þegar þeirri vegatengingu lýkur, þá verður hann orðinn heilsársvegur, eigi þeir þéttbýliskjarnar sem eru á þessari leið verulega nýja möguleika, bæði Mývatnssveit og reyndar Laugar í Reykjadal líka sem væru komnir á miklar krossgötur umferðarlega séð og hef talið í þeirri umræðu að gefnu tilefni hvernig heimamenn hafa brugðist við slíkri umræðu, að slíkri uppbyggingu á þessum svæðum ætti ekki og væri ekki á nokkurn hátt beint gegn þéttbýlinu á Húsavík heldur mundi slíkt þvert á móti styrkja hvert annað. Ég hef reyndar í þessu samhengi oft nefnt að það mætti horfa til þeirrar uppbyggingar sem hefur átt sér stað við þéttbýliskjarna í uppsveitunum á Suðurlandsundirlendi.