Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:22:04 (3667)


[14:22]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem er til umræðu kemur inn á ýmislegt sem snertir fleira en kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn. Allmiklar deilur hafa verið um verksmiðjuna. Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur hvort hægt sé að halda áfram að taka kísilgúr þarna úr Mývatni eða ekki. Hitt er aftur á móti staðreynd að þetta atvinnufyrirtæki býr við óöryggi. Ég veit ekki hversu langt leyfi það muni raunverulega hafa. Enda þótt gefið hafi verið út leyfi til þessa rekstrar árið 1993 stendur það tímabundið og það háir verksmiðjunni nokkuð. Það er því ágætt til þess að vita að hér skuli vera komið með lagabreytingu þar sem fyrirhugað er að setja á stofn þennan sérstaka sjóð eða kannski hefur hann verið til. Það er alla vega verið að leggja til meira fjármagn í hann núna til þess að kosta undirbúning aðgerða til að efla atvinnulíf í þessum sveitarfélögum sem hér eiga hagsmuna að gæta.
    Ég er komin til að taka undir þær hugmyndir sem hér komu fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich um að að sjóðurinn skoðaði sérstaklega ferðaþjónustumál. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægur atvinnuvegur í Mývatnssveit og nágrenni og þurfi að efla hann. Hann hefur auðvitað verið talsverður. Sú atvinnugrein hefur blómstrað í Mývatnssveit en það eru líka uppi ýmsar skoðanir á því og áhyggjur af því að jafnvel sé verið að ofnýta staðinn á tiltölulega stuttum tíma úr árinu og það þurfi að skoða það sérstaklega hvort ekki sé hægt að dreifa þeirri atvinnu meira yfir árið og huga betur að því að vernda þá sérstæðu náttúru sem þar er að finna.
    Ég vil taka undir þær ábendingar sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich kom hér með um að það þyrfti að vera til einhver rannsóknasjóður fyrir ferðaþjónustuna rétt eins og fyrir aðrar atvinnugreinar.
    Að öðru leyti vil ég aðeins benda hæstv. iðnrh., sem fer með þetta mál, á að hér er sagt í 2. gr. að stjórn sjóðsins skuli skipuð o.s.frv., talið upp hvaða fulltrúum hún skuli skipuð, frá hvaða aðilum. Ég vildi aðeins beina því til hæstv. ráðherra að hann hlutist til um það að framfylgja jafnréttisáætlun, sem einu sinni var samþykkt og skorað á ríkisstjórn að beita sér fyrir ýmsum þeim aðgerðum í jafnréttisátt til þess að jafna vægi kynja í nefndum, ráðum og stöðum á vegum ráðuneyta, að sú stjórn sem hann trúlega á þátt í að koma á laggirnar verði skipuð konum líka. Ég horfi til þess að konur í Mývatnsveit og nágrenni hafa mikið verið að leita nýrra leiða í atvinnumálum og ég held að þær hafi margar góðar hugmyndir og ég beini því til hæstv. ráðherra að þessi stjórn verði skipuð með jafnréttissjónarmið í huga.