Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:35:24 (3673)



[14:35]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér skilst að málið sem til umræðu er sé kísilgúrverksmiðja í Mývatnssveit og sjóður til atvinnuuppbyggingar þar. Samgöngur eru vissulega stór þáttur í því máli og ég vil undirstrika það varðandi samgöngur milli Norður- og Austurlands að það hefur í mínum huga alltaf legið ljóst fyrir að þær munu liggja í gegnum Mývatnssveit. Hins vegar hefur það verið álitamál hvar vegurinn frá Jökulsá á Fjöllum og austur ætti að liggja og það hillir undir lyktir í því máli fyrir samvinnu þingmanna Norðurl. e. og þingmanna Austurl. Það sem er gallinn við hæstv. samgrh. er að hann hefur ekki viljað hafa samráð í þessum málum eins og áður var gert og sú stefnubreyting sem mun kannski standa upp úr eftir hans feril er sú að breyta skiptingunni milli kjördæma í vegafénu og miða við höfðatölu í staðinn fyrir að miða við gömlu skiptinguna. Sú vegáætlun sem er til umræðu á Alþingi og til umræðu í samgn. núna stefnir inn í þá framtíð. Því hef ég áhyggjur af.