Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:06:27 (3683)


[15:06]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta frv. til tóbaksvarnalaga er fram komið og taka heils hugar undir öll meginmarkmið þess um leið og ég lýsi áhyggjum yfir því að frv. hafi ekki verið lagt fram fyrr enda má reikna með því að sá stutti tími sem við höfum til stefnu geri það erfitt að ná málinu fram þó að ég lýsi því hér yfir að ég muni gera það sem ég get til þess að stuðla að því að málið nái fram að ganga.
    Eins og fram kemur í greinargerð með þessu frv. hefur verulegur árangur náðst í baráttunni við reykingar og tóbaksneyslu síðan lög um tóbaksvarnir voru samþykkt og tóku gildi á árinu 1985. Er raunar svo komið að við stöndum til þess að gera vel í þessum málum. Við stöndum framar fjölmörgum öðrum þjóðum og ef maður ber saman ástandið hér á Íslandi t.d. við Mið-Evrópu eða Suður-Evrópu þá er þar ólíku saman að jafna. Ég er að vísu ekki að segja að það sé neitt sérstakt afrek að standa framar en þessar þjóðir því að þær eru djúpt sokknar í þessa neyslu.
    Engu að síður eru ákveðnar blikur á lofti hér í sambandi við þann árangur sem náðst hefur. Það eru ákveðnar blikur á lofti sem benda til þess að ný sókn tóbaksneyslunnar geti verið að ríða yfir þjóðfélagið. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég geri fastlega ráð fyrir því að hann hafi upplýsingar um það þó að það séu ekki nákvæmar upplýsingar, þá almennar upplýsingar um það hvort menn hafi kannað þessa hluti og hvort þær kannanir bendi til þess að meðal ungs fólks séu reykingar og tóbaksneysla aftur að aukast.
    Það er mjög mikilsvert að við séum vakandi í þessu máli því að þau markmið sem sett eru fram í frv. tengjast mjög náið almennri heilsuvernd á Íslandi.
    Við 1. umr. hef ég hins vegar í huga að beina athyglinni að einu ákvæði frv. sem er í II. kafla þess sem fjallar um verslun með tóbak. Þar er, virðulegi forseti, í 8. gr. kveðið á um að bannað sé að flytja inn, framleiða og selja munntóbak. Ég hefði viljað spyrja hæstv. ráðherra að því hvort ekki hafi verið í fyrri gerðum frv. ákvæði um það að banna að flytja inn, framleiða og selja fínmalað neftóbak. Það hafa komið fram í máli ræðumanna áhyggjur af því að neysla á fínmöluðu neftóbaki fari vaxandi og það vekur athygli mína að í athugasemdum með 8. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Munntóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.``
    Nú er það svo að eftir upplýsingum sem ég hef þá hefur einmitt orðið mjög mikil aukning núna nýverið á innflutningi á fínmöluðu munn- og neftóbaki. Ég hygg að það sé rétt að árið 1994 hafi verið flutt inn mun meira af þessu fínkornaða munn- og neftóbaki en árið áður og að fram hafi komið um 50% aukning á munntóbaksneyslu og neftóbaksneyslu þegar um fínkorna tóbak er að ræða. Sérstaklega hef ég það fyrir satt að um 30% aukningu sé að ræða hjá unga fólkinu í þessum neysluflokki. Þess ber að geta að í þessu fínmalaða tóbaki er nikótínmagn meira en í íslensku framleiðslunni, sem stundum gengur undir nafninu ,,gamli ruddinn``. Í 2,5 g af fínkornuðu tóbaki eru um 31--62 mg af nikótíni en ef við berum þetta saman við íslensku framleiðsluna þá eru í 1 g um 10 mg þannig að í 2,5 g af þessu grófa tóbaki er mun minna

en í fínmalaða tóbakinu. Þarna er um að ræða áhyggjuefni sem tengist því að um mjög aukinn innflutning og neyslu á þessari tegund tóbaks er að ræða. Þessi aukna neysla ýtir undir að tekið sé á þessu í frv. og að fellt verði inn í 8. gr. frv. bann við að flytja inn, framleiða og selja fínmulið neftóbak. Ég hef því lagt áherslu á það að fá umfjöllun um þetta við 1. umr. um þingmálið og viðbrögð hæstv. ráðherra og þingmanna við þeirri hugmynd að fella inn í þetta frv. bann við því að flytja inn, framleiða og selja fínmulið neftóbak.
    Þetta eru þær ábendingar sem ég kem fram með við 1. umr. málsins en ég endurtek það í lok máls míns að ég fagna því að þetta mál er komið fram og mun styðja það heils hugar að það nái fram að ganga eins hratt og unnt er.