Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:13:25 (3684)


[15:13]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. við 1. umr. málsins. Það er svo að þetta er orðinn nokkuð góður kunningi okkar í þinginu, frv. til laga um tóbaksvarnir. Það hefur áður verið lagt fram eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er ágreiningur um þetta mál og hefur verið nokkuð lengi. Ég man eftir því þegar tóbaksvarnanefnd var að reyna að koma frumvarpsdrögum á blað strax í upphafi.
    Það efast hins vegar enginn um þann árangur sem varð af lögunum frá 1984. Það er árangur sem í raun hefur skilað sér með því að verulega hefur dregið úr tóbaksreykingum hér á undanförnum árum. Eins og fram hefur komið við umræðuna er margt sem bendir til þess að tóbaksreykingar séu aftur að aukast og ekki síst hjá ungu fólki og við því þarf að bregðast því að það efast enginn um það hversu skaðlegar tóbaksreykingarnar eru. Ég er því í sjálfu sér sammála þeim anda sem fram kemur í þessu frv., að leitað sé leiða til þess að draga úr reykingum. Mér finnst hins vegar þær leiðir sem er bent á og þær leiðir sem á að fara samkvæmt frv. séu að mörgu leyti mjög róttækar. Það er um miklar takmarkanir á sölu að ræða. Það er algert bann við auglýsingum eins og verið hefur. Það eru takmarkanir á því hvar menn mega reykja og þar fram eftir götunum. Þá hlýtur maður að spyrja sig þegar maður veltir öllum þessum takmörkunum fyrir sér: Hvernig erum við í stakk búin til þess að framfylgja öllum þeim takmörkunum sem frv. gerir ráð fyrir verði það að lögum? Því miður held ég að við séum ekki í stakk búin til þess að fylgja þessu eftir verði frv. gert að lögum. Það að banna hluti sem ekki er hægt að fylgja eftir held ég að menn þurfi aðeins að staldra við og spyrja sig þeirrar spurningar hvort það sé skynsamlegt. Mín niðurstaða er því sú að þarna sé verið að stíga fullstórt skref. Það ætti að taka smærri og hafa þau smærri og það fannst mér að hæstv. heilbr.- og trmrh. væri að ýja að hér áðan þegar hann taldi að það væri verðugt verkefni fyrir hv. heilbr.- og trn. að kanna hvort rétt væri að taka einstaka þætti frv. og lögfesta. Því vil ég spyrja: Er þetta réttur skilningur og hvað væri það þá í þessu frv. sem hæstv. heilbr.- og trmrh. vildi leggja sérstaka áherslu á að tekið væri út og lögfest? Ég get tekið undir þetta að ég held að það sé með þeim hætti sem við ættum að vinna málið. Kannski er tíminn of knappur til þess að við komum því öllu í kring á þeim þremur vikum sem eftir eru af þingtímanum en við verðum að bregðast við þeirri vá sem er fyrir dyrum ef sú staðreynd á við rök að styðjast sem haldið er fram að tóbaksreykingar séu aftur að aukast því að allir vita hversu skaðleg áhrifin af slíku eru. Það skiptir því máli að menn séu tilbúnir nú þegar að bregðast við.
    Ég vil ítreka spurninguna: Hvað er það þá sem hæstv. heilbr.- og trmrh. telur að ætti að vera fyrsta skref í þessu sem nefndin gæti komið aftur með inn í þingið því að ég sé það fyrir mér að það er útilokað á þeim skamma tíma sem eftir er að fá þetta frv. samþykkt í heild sinni vegna þess að hvort sem maður er sammála anda frv. eða ekki þá er þarna um mjög veigamiklar breytingar að ræða og breytingar sem ég held að við séum alls ekki í stakk búin að öllu leyti að fylgja eftir. Því skiptir það máli hver eiga að vera forgangsverkefnin sem menn tækju út og mundu þá reyna að lögfesta strax á þessu þingi.