Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:18:37 (3685)


[15:18]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get verið sammála því sem fram kemur í þessu ágæta frv. að það ber að gera allt sem hægt er til þess að draga úr tóbaksnotkun. Enginn deilir um að hún er óheppileg heilsu manna. Hins vegar held ég að þetta frv. leysi þann vanda ekki af þeirri einföldu ástæðu að allar lagabreytingar sem breyta háttum manna á svo áhrifamikinn hátt sem hér er ætlast til þar sem 25--30% þjóðarinnar eiga í hlut þá verður það ekki gert með lagasetningu sem þessari. Það getur auðvitað ekkert fengið Íslendinga fremur en annað fólk til að breyta háttum sínum til betri heilsu með því að hætta reykingum nema fræðsla og þegar lög eru sett sem varða daglegt líf fjórðungs þjóðarinnar ber að sýna þeim fjórðungi sem til stendur að breyta alla virðingu og það er ekki gert hér. Það væri ekkert vandamál að fá fólk til að hætta að nota tóbak ef það væri fólki auðvelt en svo er ekki. Þess vegna þýðir ekki að setja boð og bönn eins og hér liggja fyrir.

    Að öðru leyti finnst mér líka í þessu frv. ýmsar þversagnir. Ef menn eru fyrst og fremst að sinna því fólki sem kannski geldur þess að vera með reykingafólki og eins og hér er verið að tala um, að vernda fólk gegn loftmengun af völdum tóbaksreyks, þá finnst mér raunar að þessi lög eigi ekki að heyra undir hæstv. heilbr.- og trmrh. heldur umhvrh. Það er dálítið erfitt hins vegar að átta sig á hvernig menn geta orðið fyrir loftmengun af nef- og munntóbaki en hæstv. ráðherra kann sjálfsagt á því einhverja skýringu.
    Annað er það atriði sem auðvitað er fullt af tvískinnungshætti og það er sala tóbaksvöru. Það er kyndugt að þeir sem eru að selja þessa vöru megi ekki auglýsa hana. Í raun og veru er ég alveg sammála því. En hitt er annað mál að það er ekki réttlátt gagnvart þeim sem eru að selja vöruna og ég vil reyndar spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að ég bara hreinlega veit það ekki: Hvaða ráð hefur ráðuneytið til þess að skikka tóbaksframleiðendur til að standa straum af hinu og þessu sem þessi lög ákveða? Hafa framleiðendur engan rétt til þess að hreinlega mótmæla því? Ég átta mig ekki alveg á því hvers konar viðskiptahættir þar eru á ferðinni. Ég vil líka spyrja: Hvað með EES-samninginn? Nú sýnist mér að við séum að setja hér lög sem ekki eru endilega í takt við lög þeirra þjóða sem eru aðilar að EES-samningnum þannig að ég vil spyrja: Hefur verið gengið úr skugga um hvað af þessu er í raun og veru í valdi okkar? Ég satt að segja veit þetta ekki.
    Síðan komum við að því, sem er nú kannski vandræðalegast í þessu, að í 15. gr. frv. er upp talið hvar tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar og það eru ekki fáir launþegar sem þetta varðar því þarna er um að ræða í grunnskólum, dagvistun, á opinberum samkomum, heilsugæslustöðvum, læknastofum, sjúkrahúsum, framhaldsskólum o.s.frv. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Segjum nú að í Háskóla Íslands, þar sem búið er að banna notkun tóbaks í öllum stofnunum háskólans, séu menn á miðjum aldri, virtir lærdómsmenn sem þar hafa unnið alla sína tíð og enginn vildi missa. Nú hafa þeir gjarnan sínar eigin skrifstofur og sú spurning hefur auðvitað komið upp hvort þeir hafi ekki leyfi lengur til að reykja eða taka í nefið á skrifstofum sínum. Svarið er nei, það má ekki. Það er óheimilt. Og nú vil ég spyrja: Er svo komið að sæti menn þessu ekki, eigi þeir enga aðra kosti en að segja upp störfum eða hvaða viðurlögum er hægt að beita þá?
    Nú má vel vera að allir virðulegir prófessorar, lektorar og dósentar Háskóla Íslands séu tilbúnir til að hætta að reykja en gangi þeim það eitthvað erfiðlega, þá hlýtur maður að spyrja: Á hvort er lögð meiri áhersla að halda góðum starfskrafti eða fá einhvern annan sem ekki reykir? Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt og þetta sér hver maður. Ég býst við að flestir foreldrar hugsuðu sig um ef til stæði að skipta út góðum kennara barnanna sem kannski hefði kennt þeim um árabil en hann treysti sér ekki lengur til að vera í starfi vegna þess að hann mætti ekki reykja allan guðslangan daginn. Vildum við virkilega skipta um kennara? Ég held ekki. Auðvitað verður að fara þarna eitthvert bil beggja og sýna því fólki einhverja lágmarksvirðingu sem hefur nú einu sinni ánetjast þessum lesti. Sannleikurinn er sá að við höfum öll séð það allt í kringum okkur að menn hafa setið að störfum, ekki síst í hinum opinbera geira, stundum létt mjúkir og stundum dauðadrukknir. Það höfum við séð. Það er ekki bannað með lögum. Það stendur hvergi að læknum sé óheimilt að stunda lækningar svo að ég viti undir áhrifum áfengis. ( Heilbrrh.: Jú, heldur betur, þeir geta misst réttindin.) Já, já, þegar það uppgötvast en svona offors gengur auðvitað ekki. Ég vil enn og aftur taka það fram að ég mæli ekki reykingum bót eða tóbaksnotkun á nokkurn hátt. En að breyta háttum manna, fjórðungi þjóðarinnar, svo umtalsvert í einu vetfangi, er ekki hægt. Þetta vitum við öll. Þetta er einfaldlega ekki hægt. Sem betur fer hefur fólk reynt að hætta þessu en það hefur gengið á ýmsan hátt eins og við höfum séð í kringum okkur og ég geri ekki ráð fyrir að mönnum verði sagt upp störfum þó að þeir reyki. Verri lestir finnast nú þegar öllu er á botninn hvolft. Og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það stundum dálítið sérkennilegt að maður sér dag eftir dag auglýsingar í blöðum bæjarins þar sem verið er að auglýsa eftir svokölluðum au-pair stúlkum. Einhvern veginn finnst mér að ef ég hefði einhvern tíma auglýst eftir slíkum starfskrafti hefði ég óskað eftir vel menntaðri barngóðri stúlku til að gæta barnanna minna og sem þætti vænt um börn. Nei, þess þarf ekki. Það er ósköp venjulegt að sjá: Au-pair stúlka óskast til að gæta tveggja barna, þriggja barna eða fjögurra barna. Má ekki reykja. Það er eina krafan. Hún má vera hin versta manneskja að öllu leyti bara ef hún ekki reykir.
    Hæstv. forseti. Ég held ekki að það sé vit í svona áróðri. Og þetta verkar ekki. Og hvað hefur enda komið í ljós? Á tímabili sá maður það sér til mikillar ánægju og gleði að ungt fólk byrjaði ekki að reykja og stórir hópar ungmenna reyktu ekki og reykja ekki enn þann dag í dag. En nú ber svo við að þetta virðist vera að skjóta upp kollinum aftur. Það er ekki lengur eins óaðlaðandi að reykja eins og var og það skyldi nú aldrei vera að þessi áróður okkar hafi reynst ótrúverðugur. Það er nefnilega þannig að svona herferð verður að vera trúverðug umfram allt til þess að hún hafi einhver áhrif.
    Um þetta er svo sem ekki mikið annað að segja. Ég vil ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. heilbr.- og trmrh. Hver eru viðurlög við því að brjóta bann stofnana við reykingum? Nú vitum við að í öllum mannmörgum stofnunum er hópur af fólki sem notar tóbak og við höfum séð þessa raunalegu sjón þar sem starfsfólk sem er búið að vinna áratugum saman, vinsælt og vel látið á sínum vinnustað, hímir úti undir húsveggjum til að fá sér tóbak. Ég vil spyrja: Eru einhver viðurlög við því að nota tóbak t.d. inni á eigin skrifstofum sem ekki geta talist húsnæði fyrir almenning? Ég held að þetta verði að vera alveg skýrt. Og einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig það sé hvort sala á tóbaki sé í samræmi við það sem gerist í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég held t.d. að Danir hljóti að vera með allt aðrar reglur inni. Mér sýnist það á öllu. Það þarf ekki annað en koma til þess lands til að sjá það. Þess vegna vil ég vita hvar sá samningur kemur inn í þetta mál. ( PBj: Viðurlög eru í 27. gr.) Og í þriðja lagi, það er nú rétt að ég trúi því, hv. 2. þm. Vestf., að virtir starfsmenn verði sektaðir fyrir að neyta tóbaks á skrifstofum sínum. Ég á nú aðeins eftir að sjá það í framkvæmd. En maður getur kannski búist við ýmsu. Þá vil ég spyrja varðandi 9. gr. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra ákveður í reglugerð hver séu hæstu leyfileg mörk skaðlegra efna í tóbaksvarningi og reyk sem myndast við bruna hans, hvernig skuli sýna fram á að þau mörk séu virt og hvernig eftirliti skuli háttað.
    Tóbaksframleiðendur standa straum af kostnaði við nauðsynlegar mælingar til staðfestingar og eftirlits samkvæmt 1. mgr.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver á að annast þessar mælingar? Og þar kem ég aftur að hugsanlegu hlutverk umhvrn. Hefur virðulegt heilbrrn. vald á slíkum mælingum og er hægt að treysta því að tóbaksframleiðendur kosti þær mælingar? Það er ekki óeðlilegt að um þetta sé spurt.
    Að lokum þetta: Ég býst við að ýmislegt kosti þjóðina ómældar milljónir og milljarða, t.d. sælgætisát þjóðarinnar, síaukin efni sem sett eru í matvæli til þess að auka geymsluþol og annað, margt af því er gersamlega órannsakað og eflaust stórhættulegt. Ýmislegt af þessu tagi veldur fólki heilsutjóni og ekki minnst vondar ríkisstjórnir sem gera þjóðinni ólíft í sínu eigin landi, valda hugarangri sem einnig veldur heilsutjóni og svo ótal margt annað sem kemur inn í það þannig að það er erfitt að banna þjóðinni að gera nokkuð það sem valda kynni heilsutjóni. Það má vel vera að tóbaksnotkun sé þar augljósara atriði en ýmislegt annað en að hinumætti einnig huga.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að til þess að við náum einhverjum árangri í baráttunni gegn tóbaksnotkun hefði verið betra að koma með allt öðruvísi frv., fyrst og fremst frv. um fræðslu sem væri innt af hendi á rólega og fordómalaust. Ég hef ekki trú á því og mér finnst það ekki einu sinni rétt að ætla að kvelja fjórðung þjóðarinnar til að gerbreyta svo háttum sínum sem það er að hætta að nota tóbak að mér er til efs um að það sé verjandi. Hver einasta fullorðin manneskja veit það núna að hún er að skaða heilsu sína með notkun tóbaks. En það er stundum illt að kenna gömlum hundi að sitja eins og við öll vitum en það ætti að leggja áherslu á börn og unglinga með góðri, fordómalausri fræðslu sem börnin sjálf trúa á.