Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:32:36 (3686)


[15:32]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Nokkur orð um þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég vil fyrst taka undir þá spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni hvaða þættir þessa frv. það eru sem hæstv. ráðherra telur sig geta séð af við þennan umgang því að það kom fram í máli ráðherra að hann hvatti til þess að ákveðnir þættir frv. yrðu samþykktir en hann gat þess ekki sérstaklega hvað hann hefði þar í huga. Ég tel að það sé afar mikilvægt fyrir þá nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að hún viti svona gróft tiltekið hvaða hugmyndir ráðherrann er með í þessu efni.
    Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað og talað fyrir því að auðvitað á að herða áróður og það þarf að herða fræðslu gegn notkun tóbaks og vegna skaðsemi tóbaks og tel reyndar að þar höfum við slakað illilega á seinni árin. Ég held að menn muni það mjög vel að fyrir ekki mjög mörgum árum var farið í mikla fræðslu- og áróðursherferð í skólum landsins og þess bar glöggt vitni í neyslutölum sem birtust á árunum þar á eftir. Síðan var slakað á þessum áróðri og þessri fræðslu og við erum að sjá árangurinn af því núna í að því er virðist aukinni neyslu, alla vega ungmenna. Ég veit hins vegar ekki hvort neysla hefur aukist í það heila tekið og óska eftir upplýsingum um það hvort neyslu á tóbaki árið 1994 hafi verið meiri en árið 1993 og óska einnig eftir upplýsingum um það hvernig það hefur verið t.d. síðustu 20 árin, hvort neysla á einstakling er meiri núna eða í einhverju hámarki eða hvar hún er í þessu ferli miðað við gefin tímabil og þá t.d. 20 ár. Ég held að menn mikli þetta stundum fyrir sér í áróðursræðum sínum gegn tóbaki og noti kannski fullsterkar lýsingar en það kemur þá í ljós í máli ráðherra ef hann hefur þessar upplýsingar.
    Hér tala menn mikið um skaðsemi tóbaks sem allir eru sammála um og það verði að draga úr neyslunni eins og kostur er og ég spyr einfaldlega: Hvers vegna er ekki skrefið stigið til fulls, hvers vegna er ekki innflutningur á tóbaki hreinlega bannaður? Menn eru sér mjög meðvitaðir um skaðsemina. Menn eru sér meðvitaðir um kostnaðinn sem þessu fylgir. Það er ekkert gott við þetta, ekki nokkur skapaður hlutur. Hvers vegna koma þeir sem hafa þessar skoðanir ekki hreint fram og segja bara í einu orði eða tveim að innflutningur sé bannaður á tóbaksvörum? Það væri aðferð til að draga úr neyslunni, það væri raunveruleg aðferð. En hér hrista menn hausinn. Vegna hvers? Gæti það verið vegna þess að þetta er verulegur tekjustofn fyrir ríkið? Ætli það sé kannski ekki aðalmálið í þessu öllu að þetta er stór tekjupóstur fyrir ríkið. Ég skil ekki þann málflutning þegar menn tala sig hása um skaðsemina af slíkum varningi að menn skuli á sömu stundinni geta mælt með því að haldið sé áfram að selja slíkan varning svo að ég held að menn ættu að stíga skrefið til fulls og bara banna þetta.
    Ég vil hins vegar fá að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður því stjfrv. sem var lagt fram á síðasta

þingi um afnám einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbaki? Nú kemur hér frv. til tóbaksvarnalaga þar sem vitnað er til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af og til í nokkrum greinum þannig að það er auðséð á þessu frv. sem hér liggur fyrir að það hlýtur að vera fallið frá stjfrv. um afnám tóbakseinkasölu ÁTVR sem lagt var fram á síðasta þingi. Eða hvort á þá að gilda? Og í framhaldi af því: Stenst þetta til einhvers tíma gagnvart EES? Stenst það hreinlega? Ég hef mínar efasemdir um það og ég óska eftir upplýsingum um það hvort svo sé.
    Um einstakar greinar er auðvitað hægt að hafa mörg orð. Ég ætla ekki að gera það. T.d. segir í 2. gr., með leyfi forseta:
    ,,Það er réttur hvers manns að þurfa ekki að anda að sér lofti sem mengað er tóbaksreyk af völdum annarra.``
    Þetta er svo víðtækt hugtak að það nánast yrði bannað að reykja úti á götu. Það er spurning hvort þú ert undan vindi eða á móti vindi. Það er svo vítt, þetta hugtak. Mætti t.d. reykja í stúkunni inni á Laugardalsvelli ef við erum að horfa á knattspyrnuleik þar? Samkvæmt þessu mætti það ekki því að hugtakið er svo vítt eins og það er sett fram hér.
    Með þessu er einnig verið að banna reykingar inni á heimilum landsins og ég skil ekki hvernig menn ætla að framfylgja slíkum lögum. Hugurinn er góður í þessu máli og ég tek undir hann. En það þýðir ekkert að vera setja lög sem er ekki nokkur einasta leið að framfylgja. Og maður spyr þá: Hvernig á að taka á slíkum hlutum? Ef börnin fara til umboðsmanns barna og kæra foreldrana fyrir að reykja inni á heimilunum, að réttur þeirra til að vera í ómenguðu lofti sé brotinn. Þetta er bara ákvæði sem stenst ekki, það er ekki hægt að bera þetta fram.
    Hér hefur töluvert verið rætt um 8. gr. og svo virðist sem snuff, það erlenda neftóbak sem hér er flutt inn, fari óskaplega í taugarnar á mörgum, alveg óskaplega. Það er bent á tölur að það hafi vaxið úr örfáum kílóum upp í 1.475 held ég að það hafi verið, alla vega yfir 1.400 kg sem það var á sl. ári. Ég heyri engan tala um það hver skaðsemin af íslenska neftóbakinu sé. Ætla menn að horfa fram hjá því bara vegna þess að hér er slagorð í gangi sem heitir Íslenskt, já takk? Það er skaðvænt líka, íslenska tóbakið, kannski ekki eins mikið en það veldur skaðsemi engu að síður. Hér talar enginn um það, hugsanlega af því að það er íslenskt. Hér biður enginn um neyslutölur á íslensku neftóbaki. Hverjar skyldu þær vera? Það kemur ekki fram í greinargerð með þessu frv. Það er reyndar ekki minnst einu orði á íslenska neftóbakið, ekki einu einasta orði og menn ætla bara að horfa bláeygir fram hjá því vitandi samt að það veldur skaða. Ég spyr: Hver var neysla á íslensku neftóbaki á sl. ári eða sl. tveim, þrem, fjórum, fimm árum? Hvar var hún? Og hvort ætli sé í raun og veru skaðlegra, íslenska tóbakið eða þetta innflutta? Bæði eru þau slæm. En ég held að íslenska tóbakið sé ekkert betra vegna þess að þetta erlenda tóbak fer að meginstofni til beint í klútinn á meðan hið íslenska fer ofan í maga og það held ég að læknar geti vel komið til og staðfest.
    Hvaða skilaboð eru þetta þá til þeirra sem keyptu þessa íslensku framleiðslu af ríkinu, framleiðsluna á íslensku neftóbaki? Keyptu þeir það á fölskum forsendum að þessi framleiðsla verði þá bönnuð innan tveggja, þriggja ára? Það þarf að fá svör við slíkum hlutum.
    Í 11. gr., síðustu setningu þeirrar greinar er talað um að tóbak skuli koma þannig fyrir á útsölustöðum þannig að það beri ekki fyrir augu viðskiptavina. Ég sé ekki tilganginn með þessum feluleik, ég sé það ekki. Ég held að menn séu hreinlega að reyna að búa til eitthvað til að friða sjálfa sig. Það á að fara að meðhöndla þetta eins og klámspólur á vídeóleigu og það á að þurfa að fara einhvers staðar undir borð til að finna tóbak. Þetta er eitt af þessum ákvæðum sem ég hreinlega skil ekki og sé ekki neinn árangur í, ekki nokkurn einasta árangur í.
    Sama verð ég að segja um 12. gr., að bannað skuli að selja tóbak úr sjálfsölum. Hvers vegna í ósköpunum? Hvers vegna mega leikhús eða skemmtistaðir og kannski sérstaklega skemmtistaðir þar sem má ekki hleypa inn fólki nema það sé orðið 18 ára og eldra, sem má neyta tóbaks, af hverju mega skemmtistaðir ekki veita þessa einföldu þjónustu til að taka af álagið af öðrum stöðum innan veitingahússins? Hvers vegna má slíkt ekki vera þar inni?
    Síðan segir í næstu málsgrein, með leyfi forseta: ,,Ekki er heimilt að selja sígarettur í minna en heilum 20 stykkja pökkum og vindla má aðeins selja í heilum pökkum eða kössum.`` --- Ef menn meina eitthvað með því að reyna að hjálpa fólki við að draga úr neyslu á tóbaki, þá held ég að þeir ættu einmitt að heimila það að selja sígarettur í minni einingum, í 10 stykkja pökkum, vegna þess að það hlýtur að vera freisting fyrir þá sem eru að reyna að draga við sig og minnka neysluna að þurfa alltaf að kaupa 20 stykkja pakka, það hlýtur að hjálpa þeim að vera heimilt að kaupa þetta í minni einingum. Það hlýtur að vera meiri freisting til að fá sér meira tóbak ef menn þurfa að burðast með of mikið magn á sér þannig að þetta ákvæði skil ég ekki. Og sama á við um vindlana. Nú á ekki lengur að vera heimilt að kaupa sér einn vindil, nei takk, nú þarft þú að kaupa þér heilan pakka, vinurinn, og þú skalt freistast til að fá þeir fleiri vinda heldur en þú hefðir kannski fengið þér. Þetta virkar bera öfugt ef eitthvað er svo að ég held að menn ættu að hugsa þetta aðeins betur.
    Í 13. gr. segir með leyfi forseta:
    ,,Smásala á tóbaki er ekki heimil nema í matvöruverslunum, í sælgætisverslunum og á veitinga- og gististöðum.``

    Ég þekki til t.d. í Frakklandi og þar er bannað að selja þetta í matvöruverslunum. Ég hefði vel getað ímyndað mér að sjá slíka tillögu koma fram. Ég efast um að tóbak eigi heima innan um matvöruna en látum það liggja á milli hluta. En það sem mér finnst einkennilegt við þessa upptalningu er t.d. það að á Íslandi er aðeins ein starfandi tóbaksverslun. Hún er hér uppi í Bankastræti og hún selur þetta snuff, þetta fínmalaða neftóbak sem menn tala mikið hér um. Samkvæmt þessum lagatexta mætti tóbaksverslunin ekki selja tóbak. Hún má ekki selja tóbak því að hún er ekki matvöruverslun, hún er ekki sælgætisverslun og hún er ekki veitinga- eða gististaður þannig að frv. bannar einu tóbaksversluninni á Íslandi að selja tóbak. Skynsemi? Ekki mjög mikil.
    Hvað með bensínstöðvar t.d.? Á að banna þeim að selja þetta? Þær eru auðvitað fyrst og fremst bensínstöðvar, þær eru ekki sælgætisverslanir þó að sælgæti fáist þar og svona er hægt að tína til ýmsa hluti í þessu frv. sem orkar í það minnsta tvímælis.
    Í 16. gr. segir í 1. mgr., með leyfi forseta:
    ,,Sá sem ræður mann til vinnu skal sjá til þess að hann njóti á vinnustaðnum réttar samkvæmt 1. mgr. 2. gr.`` --- þ.e. um að starfa í ómenguðu lofti vegna tóbaksreyks. Ég held að þetta virki líka öfugt. Það er fjöldinn allur af fyrirtækjum þar sem starfa einn, tveir eða þrír menn, eigandi og kannski einn til tveir. Ef eigandinn reykir, hvers lags starfsmann myndi hann þá ráða til sín í vinnu? Hann mundi ráða til sín reykingamann af því að hann vill ekki eiga yfir höfði sér ákæru fyrir það að starfsmaðurinn fái ekki að starfa í ómenguðu lofti. Og þá er frv. orðið hvati til þess að reykingamenn fái vinnu í smærri fyrirtækjum. Skynsemi? Ekki að mínu viti.
    Í IV. kafla er talað um fræðslustarfsemi og ég tek undir að það er áríðandi að menn beiti fræðsluáróðri sem allra mest. Sjálfur man ég að þegar ég var í barnaskóla þá voru sýndar myndir frá uppskurði annaðhvort á magakrabbameini eða lungum, ég veit ekki hvort það var, en ég man eftir áhrifum þess. Ég man það mjög skýrt. Þetta er það sem virkar. Það er áróðurinn og fræðslan. Ég tek undir þann kafla þar sem talað er um fræðslustarfsemi og henni á að beita á sem allra virkastan hátt.
    Síðan kemur í 21. gr. að skylt sé að verja 0,3% af brúttósölu tóbaks til tóbaksvarnastarfs. Það þýðir það að starf tóbaksvarnaráðs verður þeim mun öflugra sem meiri neysla á tóbaki er. Eftir því sem meira er selt af tóbaki fá þeir meira fé til tóbaksvarnastarfsins. Þetta tel ég rangt. Það á að láta þessa aðila fá peninga annars staðar frá, ekki út af neyslunni. Sama á reyndar við í sambandi við áfengisvarnastarfið.
    Síðan tek ég undir að það á auðvitað að refsa mönnum sem selja þetta börnum undir lögaldri og þeir eiga að geta misst sín leyfi og þar fram eftir götum.
    Að lokum mæli ég gegn ákvæði til bráðabirgða V í VII. kafla þar sem það er bundið í lög að á árinu 1995--1999 skuli tóbak hækka um a.m.k. 10% árlega umfram almennt vöruverð. Ég vil spyrja, ég man það ekki alveg, er það ekki rétt hjá mér að tóbak sé inni í vísitölu? ( Gripið fram í: Jú.) Það hygg ég vera, já. Hvað eru menn þá að gera með þessu? Þetta er liður sem ég held að menn ættu aðeins að líta á. Menn verða að gæta sín örlítið í offorsinu. En þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við öll sammála um að það á að reyna að draga úr neyslu á tóbaki. Við erum ekki sammála um þær leiðir sem á að fara samkvæmt þessu frv. Leiðirnar eru fyrst og fremst fræðsla og áróður. Fræðsla og áróður. Það er það sem skilar árangri, það hefur sýnt sig í gegnum tíðina, en því miður höfum við slakað á því og þann þráð þurfum við að taka upp aftur.