Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:11:58 (3693)


[16:11]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ég geti upplýst hv. 5. þm. Reykv., Inga Björn Albertsson, um að það eru til nýlegar kannanir um þetta atriði sem hann orðaði hér, þ.e. um neyslumunstrið og jafnvel um aldursflokkana. Þannig að ég held að þessar upplýsingar liggi fyrir. Ef þetta er ekki rangt hjá mér þá held ég jafnvel að ég gæti útvegað þingmanninum þessar upplýsingar og skal verða við því að útvega honum þær.
    Annars vegar vil ég taka það fram að ég hef skilið það svo að þær athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá nokkrum þingmönnum og varða það á hvern hátt er raunsætt að líta svo á að hægt sé að koma þessu frv. í gegn, á hvern hátt frv. verði að teljast raunsætt plagg, þá hef ég litið svo á að það væri kannski fyrst og fremst vegna þess hvað lítill tími er til stefnu og það væri ástæða til þess að skoða málið í því ljósi og líta á helstu áhersluatriðin sem hugsanlega væri hægt að tryggja að næðu fram að ganga, jafnvel þó að menn hefðu efasemdir um það að frv. í heild gæti náð fram.