Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:15:25 (3695)


[16:15]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Sú athugasemd mín í ræðu áðan sem laut að því að munntóbaks- og neftóbaksneysla tengdist ákveðnum íþróttagreinum er byggð á því að ákveðnar íþróttagreinar, kannski fyrst og fremst skíðagreinar, hafa tengst neyslu á munntóbaki en það vill svo til að þetta fínmalaða neftóbak er einnig tekið í munn þannig að skilin á milli munntóbaks og neftóbaks í þessum greinum eru ekki ljós. Um þetta hafa komið upplýsingar m.a. inni á heilsugæslustöðvum. Það eru dæmi um það nú að við höfum tilfelli um verulegar skemmdir í munnholi sem má rekja til bæði munntóbaksneyslu og einnig fínmalaðs neftóbaks sem tekið er í munn. Það er kannski fyrst og fremst byggt á þessu atriði sem margir sakna þess að sjá ekki í 8. gr. frv., rætt um neftóbakið með sömu formerkjum og munntóbakið þannig að þessi athugasemd mín stendur eftir sem áður.