Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:17:07 (3696)


[16:17]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir stuðning þeirra við meginefni þessa frv. þótt auðvitað hafi menn sitthvað að athuga við einstök atriði í frv. eins og ég átti satt að segja von á. En ég ætla að svara nokkrum spurningum sem hér hafa komið fram.
    Í fyrsta lagi vil ég víkja að fyrirspurn frá hv. 6. þm. Vestf. sem spurði: Hvað um reyklausa tóbakið? Er ekki fjallað um það í þessu frv.? Svarið við því er jú. Það kemur fram í 3. gr. frv., I. kafla, þar sem segir:
    ,,Með tóbaki er í lögum þessum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn úr þeim til neyslu, svo sem sígarettur, vindla, reyktóbak, neftóbak og munntóbak.``
    Allt það sem segir í ákvæðum bæði um I. kafla, markmið, gildissvið o.fl., um II. kafla, verslun með tóbak, nema þar sem sérstaklega er tekið fram að um reyktóbak sé að ræða og í IV. kafla um fræðslustarfsemi, svo að dæmi séu nefnd, þar er alls staðar verið að fjalla um reyktóbak og reyklaust tóbak svo að frv. tekur til beggja þessara tegunda.
    Hv. 2. þm. Vestf. spurði: Hvað um stuðning við þá sem vilja hætta að reykja? Er ekki fjallað um það sérstaklega í þessu frv.? Svarið er nei. Hins vegar er það Krabbameinsfélag Íslands sem er með fræðslunámskeið fyrir þá sem vilja hætta að reykja og gera það með stuðningi tóbaksvarnanefndar en það er e.t.v. full ástæða til þess og ég beini því til hv. nefndar sem fær þetta frv. til afgreiðslu hvort það væri ekki ástæða til að setja inn í 6. gr. frv., þ.e. um hlutverk tóbaksvarnanefndar, ákvæði um að eitt af hlutverkum nefndarinnar sé einmitt að styðja þá og hjálpa þeim sem vilja hætta að reykja eins og Krabbameinsfélagið og raunar tóbaksvarnanefnd gerir núna.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e. lagði fram nokkrar spurningar. Hann spurði í fyrsta lagi um hvaða breytingar eru að verða á reykingavenjum. Um það höfum við í fyrsta lagi sölutölur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbaki og í öðru lagi kannanir sem gerðar hafa verið á reykingavenjum hópa og það kemur í ljós að reykingar eru ekki lengur á undanhaldi eins og þær voru í samfélaginu. Það sést á sölutölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og síðan liggur það fyrir í könnun á neysluvenjum að reykingar eru farnar að aukast aftur meðal barna og unglinga þar sem þær höfðu verið á mikilli niðurleið og mikil aukning er í reykingum kvenna sem talið er standa í beinu sambandi við aukningu lungnakrabbatilfella meðal kvenna en eins og ég sagði hefur þar á fáum árum orðið sú breyting að lungnakrabbamein er orðin ein algengasta dánarorsök kvenna. Það er almennt talið sannað þannig að ekki verði um það villst að náið samband sé á milli tóbaksreykinga og lungnakrabbameins. Það er alveg ljóst að þessar auknu reykingar meðal kvenna eru orsökin fyrir því að lungnakrabbamein meðal kvenna skuli vera að aukast svo mjög sem verið hefur á undanförnum árum. Ég vil ítreka það að við Íslendingar fengum sérstaka viðvörun á heilsuþingi frá sérfræðingi frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um þessa þróun og hann hvatti okkur Íslendinga til að grípa til aðgerða til þess að snúa þessari þróun við.
    Þá spurði hv. þm. einnig: Var ekki í fyrri gerðum bann við sölu fínmalaðs neftóbaks og svarið er jú. Það var hins vegar ákvörðun fyrrv. heilbrrh. að fella það bann niður úr því frv. sem ég hafði lagt fram á sínum tíma og eins og ég sagði í upphafi máls míns þá geri ég ráð fyrir að leggja frv. fram eins og það var lagt fyrir Alþingi síðast en auðvitað getur þingnefndin sett það ákvæði inn aftur ef hún vill.
    Þá spurði hv. þm. hvort það væri ekki réttur skilningur að ég legði til að fremur en frv. strandaði í nefnd eins og það hefur nú gert tvívegis áður, þá reyndu menn að ná saman um að afgreiða einhverja hluta þess þó svo það næðist ekki samstaða um að afgreiða það í heilu lagi. Það er laukréttur skilningur hjá hv. þm. Ég tel að við getum ekki staðið að því þriðja árið í röð að afgreiða ekki frv. eða hluta frv., sem samstaða getur náðst um, þegar við horfumst í augu við að tóbaksreykingar færast nú í vöxt meðal barna og unglinga og meðal kvenna og að þau tíðindi merkja það eins og ég sagði áður að þarna er um að ræða stóralvarlega heilsufræðilega vá.
    Þá spurði hv. 14. þm. Reykv. nokkurra spurninga. Hvaða rétt hefur ráðherra, spurði hún, til að leggja kvaðir á tóbaksframleiðendur svo sem eins og í 9. og 10. gr. Svarið við því er að þetta er gert í dag. Það eru lagðar þær kvaðir á tóbaksframleiðendur að til þess að geta selt afurðir sínar hér á Íslandi verði þeir á sinn kostnað að merkja sígarettupakka með viðvörunum. Því aðeins að þeir geri það og á sinn kostnað fá þeir að selja tóbaksvörur hér á Íslandi. Það eru til tóbaksframleiðendur sem vilja ekki hlíta þessum reglum eins og tóbaksframleiðslufyrirtækið Phillip Morris og hefur það dregið sig út af íslenska markaðnum. Þetta sama gildir í öllum löndum sem eru með skyldu um viðvörunarmerkingar þannig að þær kvaðir eru lagðar á tóbaksframleiðendur að vilji þeir selja sína vöru á viðkomandi markaði þá er þeim skylt að greiða kostnaðinn við vörumerkinguna. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hvort það sama getur gilt um ákvæði í 9. gr. þar sem segir að tóbaksframleiðendur skuli standa straum af kostnaði við nauðsynlegar mælingar til staðfestingar og eftirlits.
    Þá er spurt um EES. Það er ekkert í EES-samningnum sem kemur í veg fyrir það að við getum gripið til þeirra ráðstafana sem í þessu frv. standa að öðru leyti en því að ég reikna með að við verðum að samræma merkingar, tóbaksviðvaranir, á íslenskum tóbaksvörum þeim reglum sem gilda á EES-svæðinu.
    Þá spurði hv. þm. hversu langt bann við reykingum ætti að ná í opinberum stofnunum. Ég tel að það ætti að ná til þeirra svæða sem eru opin almenningi eða almenningur hefur aðgang að. Það er mín skoðun þó að ég sé ekki reykingamaður sjálfur að það sé ekki hægt að ganga svo langt í slíkum reglum að á einkavinnustað starfsmanna eins og t.d. á skrifstofu kennara þar sem nemendur koma ekki að jafnaði, þar sem kennari er einn á sinni skrifstofu, þá sé hann neyddur til þess að hætta að reykja, verði að fara út undir vegg eða eitthvað slíkt til þess, ég lít ekki svo á. En ég tel að almenna reglan eigi að vera sú með þeim undantekningum sem eru í þessu frv., þ.e. þar sem um er að ræða veitingahús þar sem er séraðstaða fyrir þá sem vilja reykja, en almenna reglan sé sú að þar sem gert er ráð fyrir því að almenningur hafi aðgang, þar sé ekki reykt. Þannig er það framkvæmt í dag. Og ég skal alveg taka undir með hv. þm. að framkvæmdin er víða mjög erfið eða með mikilli brotalöm. Ég segi fyrir mig að mér þykir t.d. ekki hægt eins og þó tíðkast í dag að senda það fólk sem reykir út úr húsi og út undir vegg yfir hávetur til þess að geta þar stundað sína iðju. Mér finnst að stofnanir verði að gera ráð fyrir því að hægt sé að hafa eitthvert skýli fyrir reykingamenn þó að það sé kannski ekki merkilegt. Það er bannað að reykja í dag á öllum sjúkrahúsum en þar er gert ráð fyrir því að starfsfólk sem reykir geti þó haft aðgang að herbergi þar sem reykja má. Ég hef komið í nokkur slík herbergi og ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að það er ekki mest aðlaðandi vinnustaður sem ég hef séð og þar þurfa þeir sem vilja halda þessum ósið áfram mikið á sig að leggja, bæði andlega og líkamlega, til þess að geta staðið áfram að iðju sinni en það er önnur saga.
    Hv. 5. þm. Reykv. spurði hvort neysla á tóbaki væri nú að aukast. Já, því miður er það svo og neysla á fínmuldu neftóbaki er í verulegum vexti ef miða á við sölutölur. Hins vegar er ekki ljóst hvaða neytendahópar það eru sem einkum og sér í lagi stunda neyslu á þeim efnum. Það liggja ekki að mínu viti fyrir neinar upplýsingar um það. Þó má það vera. Þá spurði hann að því líka hvers vegna innflutningur er þá ekki einfaldlega bannaður á tóbaki. Mitt svar við því er að ég hef ekki trú á að það sé hægt að takast á við vandamál tóbaksreykinga og tóbaksnautnar með innflutningsbanni. Það er aðeins hægt að takast á við það vandamál með því að draga úr áhuga Íslendinga á því að nýta sér tóbak með því að fræða þá um hættuna sem því er samfara og ekki síst hættuna sem þeir geta valdið öðrum og þá einkum og sér í lagi með mengun andrúmslofts. Ég tel að það sé ekki hægt að ná tökum á þessu vandamáli með því að banna innflutning heldur með því að ná árangri með fræðslustarfsemi og með því að gera fólk, ég veit að hv. þm. Guðrún Helgadóttir mun ekkert mótmæla því þó ég noti það orðalagið að gera fólk ,,samfélagslega meðvitað``.
    Hvað líður frv. um afnám einkasölu á tóbaki spurði hv. 5. þm. Reykv. einnig. Því get ég ekki svarað af því að það er á verksviði fjmrh. svo að ég veit ekki hvað því máli líður.
    Þá var ég spurður hvaða þætti í þessu frv. ég gæti hugsað mér að yrðu afgreiddir. Nú ætla ég ekki

að hafa vit fyrir hv. nefnd, hún getur mætavel leyst þetta verkefni sjálf, en mér sýnist ef ég ætti að fara fljótt yfir sögu án allrar ábyrgðar að það væri hægt að afgreiða I. kaflann að mestu. Það væri e.t.v. spurning um 2. mgr. 2. gr. og eins og ýmsir þingmenn hafa komið hér að, hvort það sé framkvæmanlegt, að þeir sem beri ábyrgð á barni skuli stuðla að því að það njóti réttar samkvæmt 1. mgr. einnig þar sem reykingar eru ekki bannaðar. Þar geta komið upp ýmsir erfiðleikar, t.d. þegar sá sem vill reykja í húsnæði þar sem reykingar eru ekki bannaðar heldur fram sínum rétti, hvað á þá foreldrið að gera? Á þá foreldrið að fara með barnið út eða á foreldrið að henda út þeim sem ætlar að kveikja sér í sígarettu? Það er umhugsunarmál. Það virðist vera að honum séu báðir vegir færir samkvæmt þessari lagagrein en ég er sammála mönnum um að það sé kannski ástæða til þess að staldra þarna við.
    Ég tel að hægt sé að afgreiða 6. gr. eins og hún stendur með þeirri viðbót að tóbaksvarnanefnd eigi að starfa að því líka að aðstoða þá sem vilja hætta reykingum. Og ef við lítum á verslun með tóbak, þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu t.d. að afgreiða 7. gr., 8. gr. og 10. gr. Það eru ekki mjög miklar breytingar frá því sem gildir í dag. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða meginatriði 11. gr. nema e.t.v. síðustu setninguna: ,,Tóbaki skal þannig komið fyrir á útsölustöðum að það beri ekki fyrir augu viðskiptavina.`` Það getur orðið harla erfitt, einkanlega í matvöruverslunum þar sem er um að ræða sjálfsafgreiðslu að hafa tóbaksvörum þannig fyrir komið að þær beri ekki fyrir augu viðskiptavinanna, enda er erfitt líka fyrir viðskiptavinina að ná sér í tóbak ef þeir mættu ekki sjá það sem þeir væru að sækja og væri þá undir hendingu komið hvað þeir tækju, hvort það væri sígarettupakkinn, vindlapakkinn, neftóbakið eða hvað ef þeir velja þetta blindandi svo að þetta getur verið svolítið erfitt að koma þessu ákvæði í framkvæmd.
    Eins held ég að meginatriði 12. gr. gæti vel staðið. En meginmálið finnst mér þó vera það sem kemur fram í III. kafla, Verndun gegn tóbaksmengun andrúmslofts. Það má segja að samfélagið geti ekki mikið sagt við því þó að einstaklingur neyti tóbaks svo lengi sem hann skaðar ekki aðra. En hættan á tóbaksmengun andrúmslofts er einmitt sú að þar er tóbaksneytandinn að skaða aðra, þ.e. þá sem í kringum hann eru. Ég veit að það er ekki rétt að vera með einhver dæmi um það en nýlega lést af völdum lungnakrabbameins maður sem var Íslendingum mikils virði og í miklum metum hjá flestu fólki, maður sem aldrei hafði látið sígarettureyk inn fyrir sínar varir. Það var Haukur heitinn Morthens söngvari. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að sá alvarlegi sjúkdómur sem hann fékk var vinnusjúkdómur sem stafaði af því í hvers konar umhverfi hann vann, þ.e. í reykmettuðu andrúmslofti árum saman. Þess vegna held ég að meginatriði málsins í þessum efnum sem ætti að lögfesta í þessum kafla væri að þeir sem nota reyktóbak hegðuðu notkun sinni þannig að þeir sköðuðu ekki þá sem þeir vinna með, starfa fyrir eða umgangast. Og enn fremur held ég, virðulegi forseti, að það ætti að vera hægt að afgreiða IV. kaflann skulum við segja og VI. kaflann um eftirlit og viðurlög nokkurn veginn óbreytta. Þetta er nú bara mín prívatskoðun ef svo má segja sem má ekki skoða sem tillögu til nefndarinnar heldur einfaldlega hitt að mér sýnist ekki miklum vanda undirorpið ef menn vilja að afgreiða meginatriði frv. sem auðvitað er meginmálið en sleppa svo þeim atriðum sem kannski eru áhöld um hvort skynsamlegt sé að setja í lög eða nokkurn veginn ljóst að verður erfitt að framkvæma.