Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:35:17 (3698)


[16:35]

     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en áður en ég kem að þeim vil ég rétt koma inn á það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði í lok sinnar síðustu ræðu þar sem hann staðhæfði að neftóbak væri notað sem munntóbak. Þetta held ég að sé rangt. Það er auðvitað aldrei hægt að koma í veg fyrir alls konar fikt hjá mönnum. En að neftóbak sé notað í munn hef ég aldrei nokkurn tíma heyrt og hef fylgst nokkuð vel með þeirri vöru sem kallast neftóbak þannig að ég vísa þessu á bug og ef menn ætla að vera með þessar staðhæfingar, þá held ég að þeir verði að færa máli sínu stað á einhvern betri hátt.
    Það liggur við að maður spyrji hæstv. ráðherra sem hér talaði um það að þetta mál yrði að fá afgreiðslu á þessu þingi þar sem þetta kemur nú fram í þriðja sinn hvers vegna í ósköpunum þetta mál kom ekki fyrr fram. Nú veit ég að það var lagt fram fyrir jólaleyfi en það er verið að mæla fyrir því hér núna þegar aðeins um fjórar vikur eru eftir af þingi. Ef mönnum hefur verið það svo mikið í mun að fá þetta afgreitt þá skil ég ekki af hverju málið kom ekki fyrr fram þar sem augljóst er að það hefur að meginstofni til verið tilbúið og það sem meira er að hæstv. ráðherra hefur ekkert síður mælt fyrir því frv. sem var áður flutt þannig að ég skil ekki þennan drátt á þessu mikilvæga máli.
    Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að reykingar barna og ungmenna hafi aukist á ný. Þetta er mjög alvarlegt og ég held að þær staðreyndir viðurkenni allir. En ég held að menn sjái það líka það sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu að kannski eru orsakirnar fyrst og fremst þær að fræðslu og áróðri hefur verið ábótavant núna seinni árin. Menn hafa fyrir sér dæmi núna fyrir örfáum árum síðan. Ég kann ekki að nefna hvað þau eru mörg, 7, 8 eða 10 ár síðan, þá var öflugur áróður í gangi í þjóðfélaginu og alveg sérstaklega í skólunum og það hafði alveg greinileg og merkjanleg áhrif. Síðan slaka menn á og við sjáum aftur greinileg og merkjanleg áhrif en þau eru bara öfug núna þannig að þetta segir okkur það að fyrst og fremst eigum við að beita okkur fyrir aukinni fræðslu og auknum áróðri. Það held ég að liggi alveg á borðinu.
    Það kom fram hjá hæstv. ráðherra, öfugt við það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði, að hann vissi ekki til þess að það lægju fyrir neinar skýrslur um neytendahópa í neftóbaki. En hv. þm. fullyrti það hér og bauðst til þess að afhenda þær skýrslur þannig að það er vafalaust mjög upplýsandi ekki síður fyrir ráðherrann en mig að fá þær skýrslur frá hv. þm.
    Við erum auðvitað sammála, ég og hæstv. ráðherra, um að það er ekki hægt að setja innflutningsbann en ég var að lýsa því að þeir sem sæju þetta í þeim aldekkstum litum, þeir menn sem hafa þær skoðanir hljóta auðvitað að koma með þá tillögu að slíkur innflutningur sé bannaður en að öðru leyti erum við ráðherrann fullkomlega sammála um þetta.
    Varðandi 9. gr. sem hæstv. ráðherra taldi sig ekki geta hugsanlega mælt með á þessari stundu þar sem talað er um reglugerð hver eru hæstu leyfileg mörk efna í tóbaksvarningi og reyk sem myndast við bruna o.s.frv. þá held ég að þetta sé ekkert vandamál vegna þess að þetta liggur allt fyrir hjá tóbaksframleiðanda. Allar þessar rannsóknir liggja fyrir þannig að þessi grein má mín vegna standa þarna og það er að mínu viti ekkert sem kemur í veg fyrir það að hún standi þarna því að eins og ég segi þessar upplýsingar liggja allar fyrir hjá framleiðandanum.
    Ég spurði hæstv. ráðherra hvort árið 1994 markaði einhver þáttaskil í neyslunni. Ég geri mér grein fyrir að hún hefur aukist eitthvað en það sem ég var að reyna að fiska eftir er það hvort við erum komin í einhvern ákveðinn topp í neyslunni. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað vita hvernig þetta ferli hefur verið yfir lengri tíma og nefndi ein 20 ár, það mætti verða skemmra. En það er auðvitað mjög alvarlegt ef við erum komin í einhvern topp og neyslan er að aukast svo gríðarlega mikið.
    Ég spurði fjölmargra spurninga. Ég ætla ekki að rifja þær allar hér upp en þó tvær eða þrjár. T.d. varðandi neftóbakið, svo að maður haldi aðeins áfram þar, þá skil ég ekki þetta afstöðuleysi gagnvart íslensku neftóbaki. Hér hefur komið fram í umræðu hjá hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur að fínmulið neftóbak væri um 11% af neyslu neftóbaks sem þýðir það þá að heildarneyslan er eitthvað yfir 13 tonn sýnist mér á þeim tölum. Og ef menn hafa engar áhyggjur af þeirri neyslu, 13 tonna neyslu á móti 1,5 tonnum, þá skil ég ekki alveg hvað menn eru að hugsa vegna þess að það er víðáttulangt frá því að hið íslenska neftóbak sé skaðlaust en það mætti ætla það samkvæmt þessu frv. hér vegna þess að það er eingöngu talað um þetta fínmulda snuff eða innflutta neftóbak. Menn bara gefa sér það að það sé svo skaðlegt að það leggist svo þungt á unga fólkið að það beri fyrst og fremst að banna. Ef menn eru að tala um skaðsemi neftóbaks þá banna menn neftóbak, punktur basta hvort sem það er íslenskt eða erlent. Og í framhaldi af því spyr ég: Með hvaða fyrirvörum var þeim aðilum sem keyptu íslensku neftóbaksframleiðsluna seldur sá framleiðsluréttur? Var þeim gert það ljóst að hugsanlega innan örfárra ára yrði þessu fyrirtæki þeirra lokað og það yrði bannað að framleiða íslenskt neftóbak?
    En í 12. gr. finnst mér skjóta svolítið skökku við þegar menn eru að tala um tóbaksvarnir og hugsanlega reyna að hjálpa fólki að draga úr neyslu á tóbaki að þá er bannað að selja sígarettupakka minni en með 20 stykkjum í. Nú eru framleiddir pakkar með 10 stykkjum í og víða seldir um heim og ef einhver ákveðinn aðili er að reyna að draga við sig, að minnka reykingar, þá hlýtur að vera betra fyrir hann að geta keypt sér sígarettupakka með 10 stykkjum í heldur en þurfa að vera með 20 stykkja pakkann í vasanum og vera þar af leiðandi með enn frekari freistingar til að halda áfram. Það nákvæmlega sama á við um vindlana. Hér er mönnum skylt að kaupa heilan pakka. Hvað eru ekki margir sem fara og kaupa sér einn London Docks eða tvo London Docks eða þrjá en núna verða þeir punktur basta að gera svo vel að kaupa

sér heilan pakka og hvað halda menn að muni þá ske? Menn freistast auðvitað til þess að reykja meira. Þetta finnst mér skjóta skökku við í tóbaksvarnafrv. að menn eru nánast knúðir til að kaupa hámarksmagn í staðinn fyrir að mega kaupa lágmarksmagn sem ætti þó að hjálpa þeim við að draga úr neyslunni. Þetta er það sama og hætt yrði að selja pelana í ríkinu, menn yrðu að gera svo vel að kaupa sér heila flösku. Ég efast um að það mundi hjálpa mikið til.
    Í 13. gr. er upptalning á þeim verslunum sem mega selja tóbak. Ég kom inn á það hér áðan hvort mönnum fyndist það ekki skjóta skökku við að á Íslandi er ein tóbaksverslun til, hún er hér uppi í Bankastræti og selur þetta margnefnda neftóbak. Samkvæmt frv. má hún ekki selja tóbak. Þetta er eina tóbaksverslunin á landinu og samkvæmt þessum lögum hér má hún ekki selja tóbak. Vegna hvers? Vegna þess að hún er ekki matvöruverslun, hún er ekki sælgætisverslun og hún er ekki veitinga- eða gististaður þannig að samkvæmt laganna bókstaf er bannað að selja tóbak í tóbaksverslun. Og ég verð að segja að mér þykir lítil skynsemi á bak við það.
    Þá kom ég aðeins inn á 16. gr. þar sem segir, hæstv. forseti, í 1. mgr.:
    ,,Sá sem ræður mann til vinnu skal sjá til þess að hann njóti á vinnustaðnum réttar samkvæmt 1. mgr. 2. gr.`` sem er það að mega starfa í ómenguðu starfslofti, þ.e. ómenguðu af tóbaksreyk. Og ég benti á það að það er fjöldinn allur af eins til tveggja, þriggja manna fyrirtækjum. Það er eigandinn og einn eða tveir starfsmenn. Ef eigandinn reykir, þá dettur honum ekki í hug að ráða til sín starfsmann sem ekki reykir vegna þess að hann vill ekki hafa það yfir höfði sér að vera kærður fyrir það að viðkomandi aðili fái ekki starf í því andrúmslofti sem lögin segja, sem segir manni það að það er hvati hér til þess að ráða sérstaklega reykingamenn í vinnu. Sjálfur á ég slíkt lítið fyrirtæki og ég mundi hafa þetta svona. Það segi ég alveg hér. Ég mundi hafa þetta svona. Ég vil ekki hafa þessar kvaðir yfir mér þannig að mér finnst þetta skjóta skökku við að frv. segi nánast: Litlu fyrirtækin, þar sem eigandinn eða yfirvaldið reykir, það er hvati til þess að ráða reykingamenn í vinnu. Og er þetta nú það sem frv. á að snúast um?
    Einnig varðandi 21. gr., þar finnst mér það ekki við hæfi að tóbaksvarnaráð skuli reka sig á brúttósölu af tóbaki. Það skuli ráðast af því hve mikið er selt af tóbaki úr hve miklum fjármunum þeir hafa að spila. Mér finnst þetta röng leið. Mér finnst rétt auðvitað að tóbaksvarnaráð fái þá fjármuni sem það telur sig þurfa á að halda en það á að fá það með beinu framlagi úr ríkissjóði eða fjárlögum. Það á ekki að haldast í hendur neysla og það úr hvaða fjármagni þeir hafa að spila.
    Aðeins í lokin, hæstv. forseti, í V ákv. til brb. þar sem gert er ráð fyrir að tóbak hækki umfram verðlag um 10% á hverju ári til ársins 1999 þá vil ég mótmæla því vegna þess fyrst og fremst að tóbakið er inni í vísitölunni. Það þýðir það að skuldir heimilanna hækka og þetta dregur úr kaupmætti og þetta er röng aðferð.