Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 14:40:01 (3734)


[14:40]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er ég svolítið upptekin af ákveðinni tillögu sem félmn. setti fram í nál. með lögunum um málefni fatlaðra um að tryggja íbúunum á Kópavogshæli þjónustu sem þeir eiga ekki rétt á samkvæmt lögunum. Við gátum ekki aðlagað lögin að Kópavogshæli, við vildum að Kópavogshæli yrði tryggð þessi þjónusta. Sú vinna fór ekki í gang en nokkrir fundir voru haldnir um hvernig skyldi staðið að útskrift og breytingum á Kópavogshæli. Ég hef farið á fund starfsfólks og yfirmanna á Kópavogshæli fyrir tveimur vikum. Þar eru mjög góð áform í gangi á vegum heilbrrn. Það er búið að vinna tillögur um að Kópavogshælið verði hæfingar- og endurhæfingarstöð fyrir Ríkisspítalana. Það eru nokkuð mótaðar hugmyndir um hversu hratt og hve margir gætu flutt út af Kópavogshæli. Það þarf samvinnu við félmrn. og stjórnarnefnd um málefni fatlaðra til að búa til áætlun um þetta. Þau mál eru núna að fara í fullan gang.
    Það hefur verið fundað um aðra þætti um Kópavogshæli, bara ekki nákvæmlega það sem spurt var um í umræðunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að héðan í frá vinnum við að útskriftunum, hvernig þær skuli fara fram og hvernig þjónustu þeir fái sem bíða eftir útskrift og hvernig svo verði gengið frá málum þeirra sem eru fatlaðir sjúkir og verða áfram á Kópavogshælinu.
    Skýrslan er ekki unnin í tíð fyrirrennara míns vegna þess að því miður dróst mjög að skýrslan yrði unnin þrátt fyrir áhuga okkar í félmn. Hún var því að mestu leyti unnin eftir að ég kom í ráðuneytið en á miklum annatíma og á of skömmum tíma og það var það sem ég átti við þegar ég nefndi í upphafi máls míns í upphafi umræðunnar að ég hefði kosið að hún hefði verið sett fram með öðrum hætti vegna þess að það er mál sem hefði þá þurft lengri aðdraganda og betri yfirferð.