Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 14:43:41 (3736)


[14:43]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf við fyrirspurnum frá mér fyrr í umræðunni. Mig langar til að bæta örlitlu við þá umræðu sem hér hefur orðið sem hefur verið býsna fróðleg og yfirveguð að mínu mati.
    Ég vil fyrst segja um Kópavogshælið að það er augljóst mál að þær breytingar á búsetu vistmanna, sem menn vilja ná fram þar, sem hægt er að flytja úr því umhverfi sem þeir eru í dag og inn í annað, kosta verulega peninga. Þær hafa strandað fram til þessa á því að menn hafa ekki verið tilbúnir til að láta þá peninga af hendi sem þessi breyting kostar. Þarna er um að ræða að flytja fólk af einum bústað yfir á annan og það kostar stuðningsaðila, annaðhvort starfsmenn eða stuðningsfjölskyldu, og það kostar líka allmarga starfsmenn og ný stöðugildi sem þurfa að fylgja vistmönnunum yfir í ný búsetuúrræði.
    Krafan um breytingu á högum fólks á Kópavogshæli er ekki sett fram til þess að spara. Hún er sett fram með hagsmuni íbúanna eða vistamannanna í huga og sú krafa kostar verulegt fé ef það á að uppfylla hana. Ég vona að mönnum sé þetta alveg ljóst. Við höfum fengið í félmn. heimsókn frá skrifstofustjóra heilbrrn. og hann gaf okkur upp áætlun um það hversu mikið þetta mundi kosta. Það var greinilegt þó að sú áætlun væri ekki unnin þannig að hún ætti að vera hárnákvæm að hér er um ræða mjög háar tölur. Ég vona því að menn séu sammála um að standa að þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram um breytingar á Kópavogshæli en vitandi það að verið er að gera tillögur um útgjöld og menn eiga þá að standa að því að reyna að útvega fé til þess að uppfylla þessar tillögur, a.m.k. í áföngum á einhverju árabili.

    Þá vil ég í öðru lagi fjalla aðeins um yfirstjórnina á þessum málaflokki og þau áform ráðuneytisins að færa málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga. Ég drap lítillega á þetta undir lok ræðu minnar í síðustu viku og vil hnykkja á þeim sjónarmiðum mínum þar að mér er mjög til efs að það sé farsælt fyrir málaflokkinn að færa hann eins og hann stendur í dag frá ríki til sveitarfélaga. Þó að ég hafi verið hlynntur þeirri breytingu fram til þessa þá er mér mjög til efs í ljósi þeirrar uppbyggingar sem menn hafa staðið að á síðustu árum og þeim breytingum sem menn gerðu 1992 þegar menn lögðu af heildaryfirstjórn á heimavettvangi og tóku upp beina miðstýringu úr ráðuneytinu og hafa verið að byggja málaflokkinn þannig upp að það sé farsælt að svipta þessu til baka eins og ætlunin er. Ég held að sveitarfélögin séu bæði of mörg og nái hvert um sig yfir of lítið svæði til þess að þetta sé framkvæmanlegt. Jafnvel þó að um einhverja breytingu yrði að ræða þar, sameiningu sveitarfélaga í einhverjum umtalsverðum mæli, jafnvel í svo stórum mæli sem lagt var til haustið 1993, þá mundi það ekki duga til því að við værum með eftir sem áður mjög mörg sveitarfélög í hverju kjördæmi. En umdæmin sem menn hafa byggt upp eru grundvölluð á stærð kjördæma. Menn yrðu þá að brjóta niður þjónustu, uppbyggingu, sem er byggð upp á kjördæmavísu, á hvert og eitt sveitarfélag innan kjördæmisins. Hvort sem sveitarfélögin yrðu fjögur, eins og róttækustu hugmyndir gerðu ráð fyrir í einstaka tilvikum, eða sex eða tíu þá er það að mínu viti veruleg afturför. Menn væru þá að brjóta upp þær starfseiningar sem menn hafa verið að byggja upp á svæðisskrifstofunum og gera þannig faglega þróun málaflokksins torveldari. Mér er því mjög til efs að það væri farsælt eins og mál standa núna að fara með málefni fatlaðra yfir á sveitarfélögin þannig að hvert og eitt sveitarfélag ætti að sjá um framkvæmdina innan sinna bæjarmarka. Ég held að það væri farsælla að halda sig við svæðisuppbygginguna. Menn eigi að hafa það sem hornsteininn í uppbyggingunni og yfirstjórninni að hafa svæðið sem einingu. Síðan geta menn fundið einhverja leið, ef menn vilja, til þess að koma því fyrir hver eigi svo að stjórna yfir svæðinu, hvort það eigi að vera ríkið eitt eða sveitarfélögin ein eða samvinna þessara tveggja aðila eða þá menn eigi að byggja upp þriðja stjórnsýslustigið sem ég hef æ meira verið að hallast að að sé eina færa leiðin til að koma einhverri stjórnsýslu út úr Reykjavík og yfir á landssbyggðina. Þessu vildi ég bæta við, virðulegi forseti, varðandi hugleiðingar um þessa framtíðarsýn.
    Ég vildi svo að lokum nefna aftur málefni geðfatlaðra. Ég rakti í stuttu máli skýrslu sem unnin var vorið 1991 og gefin út í aprílmánuði það ár, skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar. Nefnd sú sem þáv. félmrh. skipaði hafði skilað af sér ítarlegri skýrslu um umfang vandans og tillögur til úrbóta. Ég tek undir með hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur að mér er það nokkurt undrunarefni að sá þingmaður sem gegndi stöðu félmrh. þá skuli ekki hafa tekið þátt í umræðum um þessa skýrslu um málefni fatlaðra og hafi gengið úr sal áðan þegar umræður hófust að nýju. Mér er það nokkurt undrunarefni að sá ágæti þingmaður skuli sýna þessari umræðu slíkt fálæti sem þessi hegðun lýsir.
    Það kom fram í svörum hæstv. ráðherra, svo ég víki að þessari skýrslu og tillögum sem þar eru lagðar fram, að tekist hefur að fá fé og setja í gang eitt sambýli og einn áfangastað og síðan hefur verið reynt að mæta þörfinni með því að byggja íbúðir og þá í samvinnu við Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta er allgott og blessað upp til hópa en hins vegar mjög fjarri því að uppfylla þær þarfir sem skýrslan leiddi í ljós að væru fyrir hendi og vantar mjög mikið á að tekist hafi að koma með viðunandi úrræði fyrir þá sem skipa flokk geðfatlaðra. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort á hans borði séu gögn um umfang vandans eins og hann stendur í dag og hvort ráðherrann er að smíða tillögur til þess að bæta þar úr frá því sem nú er.