Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 14:52:20 (3737)


[14:52]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi áhyggjur þingmannsins um að flytja málaflokkinn heim í hérað. Um það ætla ég ekki að ræða nánar vegna þess að það eru mismunandi sjónarmið um hvar þessum málum sé best borgið og gagnlegt að skiptast á skoðunum um það en ég hef greinilega á því örlítið aðra skoðun en þingmaðurinn. Ég bendi hins vegar á varðandi ýmislegt sem hann minntist á um bæði stjórnun og þetta að það á að endurskoða lögin 1996 og ég geng út frá því að það verði eitt af fyrstu verkum þess ráðherra sem tekur við á þessu vori að setja slíka vinnu í gang. Verði ég áfram í félmrn. þá mun ég setja slíka vinnu af stað.
    Mér sýnist að niðurstaðan hafi orðið sú að þeim tillögum sem voru í skýrslu um geðfatlaðra verður ekki hrint í framkvæmd. Mér sýnist að niðurstaðan hafi orðið að taka þau ákvæði sem komu inn í lögin og snúa að geðfötluðum en fylgja henni að öðru leyti ekki mikið eftir.
    Ég hef ekki tölur um þennan hóp núna á takteinum og ég hef ekki beinlínis verið að vinna með þennan hóp fatlaðra svo ég segi það beint út. En ég mun koma þessum ábendingum áfram.
    Ég ætla að nefna varðandi útskrift af Kópavogshæli. Það er rétt að ég tel að það hafi hamlað útskriftum af Kópavogshæli að menn hafa starað á kostnaðinn. Það er ljóst að það sem talað er um núna er að stöðugildi munu fylgja. Hins vegar óttast menn að það sé ekki nægilegt og því var opnað á að það væri heimilað að Framkvæmdasjóður fatlaðra gæti bætt við eða kostað stöðugildi, t.d. eitt eða tvö í viðbót varðandi sambýli sem kæmi, en það stöðvaði ekki á slíku. Við getum ekki gleymt því heldur að áherslurnar hafa verið að breytast þannig að búsetuúrræði sem fyrst og fremst voru kostuð af Framkvæmdasjóði fatlaðra fram

að þessu hafa nú að hluta til færst yfir á Byggingarsjóð verkamanna að því leyti sem samtök hafa verið að sækja um og byggja íbúðir sem fatlaðir hafa haft aðgang að og þetta spilar allt saman.