Málefni fatlaðra

82. fundur
Miðvikudaginn 01. febrúar 1995, kl. 15:15:38 (3742)


[15:15]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að hafa leiðrétt mjög alvarlega missögn sem fram kom í mínu máli. Skýrslan kom fyrir kosningar 1991. Nefndin var skipuð 31. janúar 1991, skýrslan kom

snemma í apríl 1991, rétt fyrir kosningar. Það var greinilegt að það var ætlunin að láta fólk trúa því að í félmrn. væri vilji til þess að hafa málefni geðfatlaðra í fremstu forgangsröð. Hver var svo niðurstaðan? Það átti að byggja 16 sambýli fyrir geðfatlaða á fjórum árum. Hver er niðurstaðan? Það hefur verið byggt eitt sambýli og einn áfangastaður á þessum tíma. Það er bersýnilegt að hér var í raun og veru ekki tekið með þeim hætti á hlutunum sem eðlilegt hefði verið að gera kröfu um miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar voru fyrir kosningarnar 1991. Fólk á auðvitað að gæta sín á því þegar kemur að því að fólk stendur í kosningaslag hvort sem það eru ráðherrar eða aðrir frambjóðendur, að menn séu ekki að gefa gyllivonir sem ekki er hægt að standa við eða kannski er ekki einu sinni ætlunin að standa við.
    Þegar ég var að segja það áðan að við þyrftum að taka á þessu máli í þessari virðulegu stofnun var ég auðvitað ekki að veitast að núv. hæstv. félmrh. og ekki heldur að forverum hennar. Það sem ég var hins vegar að segja er það að auðvitað getur Alþingi tekið af skarið því að það er Alþingi sem ræður, hefur bæði löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið, þannig að það er auðvitað vilji Alþingis sem ræður úrslitum í þessum efnum. En ég vísa því á bug sem hæstv. ráðherra sagði að þessum málum hefði verið sinnt sérstaklega á undanförnum árum. Það er bersýnilegt að ekki hefur verið staðið við loforðin sem gefin voru nokkrum dögunum fyrir kosningarnar 1991 í málefnum geðfatlaðra.