Almenn hegningarlög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:37:10 (3752)


[10:37]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Að gefinni þessari fyrirspurn vil ég ítreka það sem hefur áður komið fram af minni hálfu að ég hef ekki séð að það séu gildar ástæður lengur fyrir hinni sérstöku vernd opinberra starfsmanna varðandi þau refsiákvæði sem hv. 9. þm. Reykv. minntist hér á. Þessi mál hafa verið í nokkurri skoðun í ráðuneytingu og sérstök nefnd sem fjallaði um það kom fram með hugmyndir sem unnt væri að styðjast við varðandi breytingar á þeim. Ég geri síður ráð fyrir því að það vinnist tími til þess að koma fram með breytingar á þeim stutta tíma sem eftir lifir af þessu þingi en efnislega er ég þeirrar skoðunar að breyttar aðstæður og breyttir tímar geri það að verkum að það sé eðlilegt að gera breytingar á þeirri sérstöku vernd sem opinberir starfsmenn hafa notið að þessu leyti.