Almenn hegningarlög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:38:21 (3753)


[10:38]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hefur oft komið hér til umræðu hið mikla vandamál sem er skattsvik og hversu stór hluti af fjármagni fer fram hjá skattkerfinu. Því hljóta hv. alþm. að vera sammála um að vilja gera eitthvað til úrbóta í þeim efnum og skoða með jákvæðum huga þau frv. sem lögð eru fram í því skyni. Hins vegar hlýtur það að vekja vonbrigði að þetta frv. skuli vera svo seint fram komið. Í athugasemdum kemur fram að þetta er byggt á skýrslu fjmrh. eða skýrslu nefndar frá árinu 1986 og annarrar sem skipuð var árið 1992 og skilaði áliti í september 1993 þannig að aðdragandinn að því að koma þeim ábendingum frá því í september 1993, í frv. hér inn á Alþingi er býsna langur.

    Ég á sæti í þeirri nefnd sem fjalla mun um frv. og ég vil lýsa því yfir að að sjálfsögðu vil ég stuðla að því að þau ákvæði sem til bóta horfa geti náð fram að ganga og verið lögfest. Tíminn er þó orðinn býsna stuttur þar til þingi lýkur, ekki síst fyrir mál sem snerta jafnviðkvæm atriði og þessi og gjarnan þurfa þá ítarlegar skoðunar við til þess að ekki fari fram hjá eitthvert atriði sem betur þyrfti að fara.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég veit að allshn. mun skoða málið með jákvæðum huga og vonandi tekst að afgreiða hér fyrir þinglok einhver þau atriði sem gætu leitt til bættrar stöðu þessara erfiðu mála.