Lúganósamningurinn um fullnustu dóma í einkamálum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:45:20 (3756)

[10:45]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Frv. til laga um Lúganó-samninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum, sem hér liggur fyrir á þskj. 497, felur í sér annars vegar að heimild verði veitt til að fullgilda samninginn og hins vegar að ákvæði hans fái að því búnu lagagildi á Íslandi þannig að ákvæðin hafi gildi sem lög hér á landi.
    Lúganó-samningurinn var gerður 16. sept. 1988 milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, sex að tölu og aðildarríkja Evrópubandalagsins sem þá voru 12 þannig að að samningnum standa alls 18 ríki í Evrópu.
    Aðdragandi Lúganó-samningsins verður rakinn til samnings sem stofnríki Evrópubandalagsins gerðu með sér árið 1968 og fjallar um sama efni. Smátt og smátt gerðust síðari aðildarríki Evrópubandalagsins

aðilar að samningnum sem almennt gengur undir heitinu Brussel-samningurinn. Sá samningur byggist hins vegar á Rómarsáttmálanum þannig að einungis aðildarríki Evrópubandalagsins geta orðið aðilar að honum. Áhugi kom snemma fram á því hjá aðildarríkjum Evrópubandalagsins og EFTA að gerður yrði fjölþjóðasamningur sem hefði að geyma samsvarandi reglur og Brussel-samningurinn með því meginmarkmiði að samræmdar reglur giltu um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum í öllum ríkjum Evrópubandalagsins og EFTA. Verður þetta m.a. rakið til sameiginlegs ráðherrafundar sem haldinn var í Lúxemborg 1984 þar sem hvatt var til aukins samstarfs ríkjanna. Leiddi þetta til samstarfs sem hófst með stofnun verkefnishóps árið 1985 en niðurstaða þess starfs leiddi svo til Lúganó-samningsins sem samþykktur var í september 1988.
    Efni Lúganó-samningsins má segja að sé tvíþætt. Annars vegar er um að ræða viðurkenningu á dómum sem kveðnir eru upp í öðrum aðildarríkjum og aðfararhæfi dómanna. Hins vegar er um að ræða samræmdar varnarþingsreglur þannig að varnarþing ræðst af tengslum aðila við tiltekið ríki eða sakarefni. Eru um þetta allt nánari ákvæði í samningnum sjálfum.
    Ekki verður efni Lúganó-samningsins rakið hér til hlítar en ítarlega er um það fjallað í athugasemdum með frv. og vísa ég til þeirra að öðru leyti. Þó vil ég nefna hér nokkur meginatriði.
    Samningurinn tekur einungis til mála sem flokkast undir einkamál, þar á meðal verslunarmál. Hann gildir því ekki um opinber mál og ekki um skattamál, tollamál eða stjórnsýslumál. Sérstaklega eru og undanskilin mál sem varða persónulega réttarstöðu manna, rétthæfi og gerhæfi, svo og fjárhagsleg réttindi sem eiga rætur að rekja til hjúskapar eða erfða. Hins vegar heyra mál er varða framfærsluskyldu, hvort heldur er með maka eða barni, undir samninginn.
    Meginreglan er sú að menn skal lögsækja fyrir dómstólum þess samningsríkis þar sem þeir eiga heimili, þ.e. á heimilisvarnarþingi. Sérstakar varnarþingsreglur gilda þó í vissum tilvikum og geta leitt til þess að lögsækja megi varnaraðila í öðru ríki en því sem hann á heimili í. Byggjast þær á því að sérstakt samband sé á milli sakarefnis og þess ríkis þar sem dómur er kveðinn upp sem réttlæti frávik frá meginreglunni. Þannig má lögsækja þann sem veldur skaðaverki fyrir dómstóli þess staðar þar sem tjónsatburður varð þótt hann eigi heima í öðru ríki. Sóknaraðili getur að jafnaði valið hvort hann notar sérstakt varnarþing eða heimilisvarnarþing.
    Sérreglur gilda um varnarþing í vátryggingarmálum og neytendamálum sem hafa einkum það hlutverk að vernda hagsmuni vátryggingartaka og neytenda. Þá eru ákvæði um svonefnd skylduvarnarþing og verður mál þá einungis höfðað á þeim stað sem tilgreindur er í samningum og hvergi annars staðar. Svo er t.d. um mál er varðar réttindi yfir fasteign sem einungis má dæma þar sem fasteignin er. Samningurinn leyfir yfirleitt að gerðir séu samningar um varnarþing og svipað gildir þegar mætt er á dómþingi og ekki eru gerðar athugasemdir við varnarþing.
    Ef krafa milli sömu aðila er til meðferðar fyrir dómstólum tveggja eða fleiri samningsríkja sem byggð er á sömu málsástæðum eða ef skyldar kröfur eru til meðferðar fyrir dómstólum tveggja eða fleiri samningsríkja gilda sérstakar reglur sem koma eiga í veg fyrir að tveir eða fleiri dómar gangi um efnið sem ekki fá samrýmst.
    Sérstakar reglur eru sem miða að því að vernda hagsmuni varnaraðila sem ekki hefur mætt í máli. Byggt er á þeirri meginreglu að dómar eins samningsríkis skuli viðurkenna í öðrum samningsríkjum. Taldar eru upp tæmandi ástæður sem geta leitt til þess að dóm skuli ekki viðurkenna og þeim varnarástæðum sniðinn þröngur stakkur.
    Dómar hljóta að jafnaði sjálfkrafa viðurkenningu þannig að ekki þarf að óska eftir viðurkenningu þeirra. Erlendur dómur sem þannig hlýtur viðurkenningu hefur því sömu réttarverkun og innlendur dómur og verður hann ekki endurskoðaður af öðrum dómstólum. Þó skal synja um viðurkenningu ef dómur fer gegn varnarþingsákvæðum sem gilda um vátryggingarmál og neytendamál eða ákvæðum um skylduvarnarþing.
    Þegar óskað er eftir því að dómsúrlausn verði gerð fullnustuhæf í öðru ríki þarf sérstaka umsókn sem verður að fullnægja tilteknum skilyrðum. Hins vegar eru varnir sem unnt er að hafa uppi takmarkaðar.
    Samningurinn kemur í staðinn fyrir almenna þjóðréttarsamninga um sama efni sem aðildarríkin hafa undirgengist. Þeir samningar halda þó gildi sínu á þeim sviðum sem Lúganó-samningurinn tekur ekki til. Hins vegar mun Lúganó-samningurinn víkja fyrir samningum um tiltekin svið sem samningsríkin hafa gert eða kunna að gera í framtíðinni. Slíkir samningar byggjast oft á sérsjónarmiðum og að þeim eru önnur ríki oft aðilar. Vegna tengsla Lúganó-samningsins og Brussel-samningsins sem í öllum meginatriðum hafa að geyma sama efni er leitast við að samræma túlkun beggja samninganna í aðildarríkjunum. Aðildarríki Evrópusambandsins standa þar öðruvísi að vígi þar sem dómstóll Evrópusambandsins getur við viss skilyrði túlkað Brussel-samninginn þannig að bindandi sé fyrir dómstóla aðildarríkjanna og stjórnvöld í þeim ríkjum. Með sérstakri bókun sem fylgir Lúganó-samningnum kemur fram að dómstólar samningsríkjanna skuli taka réttmætt tillit til dómsúrlausna hvers annars að því er varðar túlkun Lúganó-samningsins. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir sérstöku upplýsingakerfi.
    Lagaákvæði í innlendri löggjöf um það efni sem Lúganó-samningurinn tekur til, þ.e. um aðfararhæfi dómsúrlausna annarra ríkja, viðurkenningu dómsúrlausna annarra ríkja og um alþjóðlegt varnarþing eru

fábrotin og almennt er talið að erlendir dómar hafi ekki réttaráhrif hér á landi eða mjög takmörkuð réttaráhrif. Þess er þó að geta að í 1. gr. aðfararlaganna frá 1991 segir að aðför megi gera samkvæmt úrlausn eða ákvörðunum erlendra dómstóla eða yfirvalda eða sáttum gerðum fyrir þeim ef íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti og með lögum til að viðurkenna slíkar aðfararheimildir enda verði fullnusta kröfunnar teljast samrýmast íslensku réttarskipulagi.
    Réttarfarsreglur gera þannig ráð fyrir slíkum samningum. Sem dæmi um samninga af þessu tagi er að nefna samning Norðurlandanna frá 1932 um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra sem veitt var lagagildi hér á landi. Eru aðfararhæfir dómar frá einhverju Norðurlandanna bindandi aðfarargrundvöllur í hinum Norðurlöndunum að fullnægðum tilteknum skilyrðum.
    Nokkrir fleiri Norðurlandasamningar svipaðs eðlis hafa verið lögfestir, svo sem um hjúskap, ættleiðingu og lögráð, um gjaldþrotaskipti, um erfðir og um skipti á dánarbúum og um innheimtu meðlaga, en ákvæði samninga þessara geta leitt til þess að dómsúrlausnir um viðkomandi málefni í einu aðildarríki séu bindandi og eftir atvikum aðfararhæfir í öðrum aðildarríkjum.
    Um efni Lúganó-samningsins er fjallað ítarlega í hinni prentuðu greinargerð og athugasemdum með frv. og vísa ég til þeirra að öðru leyti. Það er eðli samninga eins og Lúganó-samningsins að hann byggist á því að aðildarríki viðurkenni réttarkerfi hvers annars. Í því sambandi skal á það bent að sérstaklega er tekið fram í samningnum að meðal ástæðna sem leitt geta til þess að dómur verði ekki viðurkenndur eða honum fullnægt er sú ef viðurkenningin væri andstæð allsherjarreglu í því ríki þar sem hennar er krafist.
    Lúganó-samningurinn varð til áður en samningsumleitanir um Evrópska efnahagssvæðið hófust og hann er í sjálfu sér óháður þeirri samningsgerð. Þó verður að telja víst að íslenskir viðskiptahagsmunir erlendis gætu farið forgörðum ef erlendir dómar frá EFTA-ríkjum og Evrópusambandsríkjum fá ekki sömu meðferð hér á landi og í viðskiptum einstaklinga og lögpersóna í þessum ríkjum. Þar fyrir utan verndar Lúganó-samningurinn íslenska viðskiptaaðila gegn notkun varnarþingsákvæða sem styðjast við ákvæði innlendra laga um alþjóðleg varnarþing. Það er ekki forsenda fyrir aðild að EES-samningnum að ríki fullgildi jafnframt Lúganó-samninginn. Hins vegar eru viss tengsl á milli samninganna.
    Um leið og ég lýk að gera hér með almennum orðum grein fyrir meginefni samningsins er það von mín að samstaða geti tekist um að samningurinn verði lögfestur hér á landi.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.