Neyðarsímsvörun

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:57:11 (3757)

[10:57]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samræmda neyðarsímsvörun. Frv. þessu var dreift til kynningar á 117. löggjafarþingi og það er nú lagt fram óbreytt frá þeirri útgáfu. Á undanförnum árum hefur oftlega verið bent á að fyrirkomulag neyðarsímsvörunar í landinu sé ófullnægjandi. T.d. eru a.m.k. um 150 neyðarsímanúmer í símaskrá og mjög mismunandi hvernig svörun er háttað. Á mörgum svæðum landsins er ekki um að ræða sólarhringsvöktun hjá neinum viðbragðsaðila. Fjölmargir aðilar hafa leitað lausna á þessu máli á undanförnum árum en niðurstaða hefur ekki orðið um ásættanlega lausn á landsvísu. Ljóst er þó að hér er um stórt öryggismál að ræða og því mikið hagsmunamál fyrir allan almenning auk þess sem Íslendingar hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar á þessu sviði.
    Hinn 28. apríl 1993 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að hafa forustu um að koma á samræmdu neyðarsímanúmeri fyrir allt landið. Skyldi haft samstarf við sveitarfélög á hverju svæðisnúmeri og þess gætt að þær leiðir sem farnar væru á hverju svæði væru samrýmanlegar.
    Í nefndina voru skipuð: Stefán P. Eggertsson verkfræðingur, sem jafnframt var skipaður formaður, Bergþór Halldórsson, verkfræðingur hjá Póst- og símamálastofnun, Esther Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, Guðjón Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, Hallgrímur Guðmundsson, bæjarstjóri í Hveragerði, og Hrólfur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík. Nefndin skilaði áfangaskýrslu 20. desember 1993. Var það niðurstaða nefndarinnar í þeirri skýrslu að setja yrði sérstök lög um neyðarsímsvörun. Sú niðurstaða var aðallega byggð á álitsgerð Tryggva Gunnarssonar hæstaréttarlögmans en hann gerði athugun á stjórnskipulegri stöðu málsins og skilaði um það álitsgerð.
    Nauðsyn lagasetningar helgast af því m.a. að málefni stofnana og aðila sem lögum samkvæmt ber að taka við neyðartilkynningum heyra undir alls fjögur ráðuneyti. Það er því ekki á færi eins af þeim að koma einhliða upp neyðarsímsvörun fyrir alla þessa aðila nema slíkt sé gert með lögum eða a.m.k. með víðtæku samkomulagi. Lagasetning er heppilegri til að taka af skarið um það hver fari með forræði málsins

og hvernig eigi að fara með kostnað af starfseminni. Enn fremur til hvaða tilvika svörun eigi að taka og eftir atvikum hvort semja eigi við aðra aðila um fyrirkomulag á starfseminni, t.d. hvort ríkið eigi að semja við einhvern annan aðila um að annast símsvörunina og flutning símtala til viðeigandi aðila. Það ýtir einnig undir nauðsyn lagasetningar að með EES-samningnum skuldbindur íslenska ríkið sig til að taka upp sameiginlegt evrópskt neyðarnúmer, þ.e. símanúmerið 112, þannig að unnt sé að hringja í það hvar sem er á landinu og koma til skila tilkynningum um neyð. Tryggja þarf samkvæmt samningnum að svörun og úrvinnsla tilkynningar sé viðunandi og íslenska ríkið beri ábyrgð á að það sé gert. Því er eðlilegra að bein lagasetning komi til heldur en að látið verði við það sitja að fjárveitingar í fjárlögum einar ráði ráðstöfun málsins.
    Í framhaldi af því að þessi áfangaskýrsla var kynnt í ríkisstjórn var ákveðið að semja það lagafrv. sem hér liggur fyrir og vann Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður það verk í samráði við nefndina. Í frv. er kveðið á um það að ríkisstjórnin skuli eigi síðar en 31. des. 1995 koma upp samræmdari neyðarsímsvörun fyrir Ísland til að sinna viðtöku tilkynninga um fólk og eignir í neyð og beiðnum um aðstoð lögreglu, slökkviliðs, björgunarsveita og um sjúkraflutninga og aðra neyðaraðstoð. Neyðarsímsvörun þessi skuli jafnframt fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Í gildandi lögum er að jafnaði ekki fjallað sérstaklega um það hvaða hátt hlutaðeigandi stjórnvöld skulu hafa á viðtöku tilkynninga um neyðartilvik eða hvaða starfsemi þau skuli halda uppi í því skyni. Þessu hafa hinar einstöku stofnanir og stjórnvöld almennt sinnt hvert fyrir sig. Það að taka upp samræmda neyðarsímsvörun felur því í raun ekki í sér nýja starfsemi af hálfu þeirra opinberra aðila sem sinna viðtöku tilkynninga um neyðartilvik heldur er þessi starfsemi samræmd. Slíkt ætti að leiða til öruggari og betri þjónustu auk þess sem möguleiki er á því til lengri tíma litið að draga úr kostnaði við þessa þjónustu. Allt að einu krefst samræming neyðarsímsvörunar ákveðinna útgjalda til sameiginlegrar vaktstöðvar. Nefndin sem vann að málinu taldi að nægjanlegt mundi verða að koma á fót einni vaktstöð en lagaákvæðin setja í sjálfu sér ekki skorður við fjölda þeirra.
    Sú þjónusta sem vaktstöð veitir getur verið af þrennum toga. Svörun og símtalsflutningur, svörun og boðun viðbragðsaðila, svörun, boðun viðbragðsaðila og þjónusta við hana í útkalli. Aðili eins og lögreglan í Reykjavík, svo að dæmi sé tekið, sem hefur eigin vaktstöð mundi væntanlega aðeins notfæra sér flutning símtala til sín en það er áætlað að það væru mun færri símtöl en þeim berast nú af ýmsum ástæðum. En aðrir viðbragðsaðilar gætu lagt niður eigin vaktstöðvar. Vaktstöð fyrir neyðarsímsvörun mundi einkum þjóna eins og verkefnum er nú skipað viðbragðsaðilum á vegum ríkisins, lögreglu, sjúkraflutningaliði og sveitarfélögum, einkum slökkviliðum. Auk þess gegndi vaktstöðin því hlutverki að uppfylla skyldur stjórnvalda gagnvart EES-samningnum. Með hliðsjón af þessu er lagt til að vaktstöðin hafi tekjur bæði frá ríki og sveitarfélögum og kostnaði verði skipt að jöfnu. Til að einfalda greiðslustreymi er talið heppilegast að hlutur sveitarfélaga verði greiddur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
    Nefndin benti einnig á þá leið að vaktstöðin fengi tekjur af hverju skráðu símanúmeri. Um yrði að ræða sérstakt árlegt gjald sem tiltekið væri á símareikningum. Miðað við áætlaðan rekstrarkostnað, 50 millj. kr. og 140 þúsund símanúmer yrði gjaldið um 360 kr. á ári.
    Í frv. er hins vegar lagt til að fyrri leiðin verði farin. Kostnaður við þá grunnþjónustu sem vaktstöðin veitir verði greiddur að jöfnu annars vegar af ríkissjóði og hins vegar af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er sem sagt miðað við að þessar tekjur, 50 millj. kr., gangi til að mæta stofnkostnaði vaktstöðvar og kostnaður við rekstur símsvörunar, úrvinnslu tilkynningar og það að koma henni til hlutaðeigandi neyðarþjónustuaðila. Óski neyðarþjónustuaðili hins vegar eftir því að vaktstöð sinni boðum þeirra sem veita eiga aðstoðina, svo sem útkalli slökkviliðsmanna eða björgunarsveitarmanna eða annarri þjónustu í hans þágu, er miðað við að greitt verði sérstaklega fyrir þá þjónustu samkvæmt samningi þar um. Varðandi rekstrarform skal það nefnt að í 3. gr. er lagt til að dómsmrh. fái heimild til að semja við opinberar stofnanir, sveitarfélög og einkaaðila um fyrirkomulag, fjármögnun og þátttöku í rekstri vaktstöðva eða stofnun hlutafélags um hana.
    Í skýrslu nefndarinnar kemur fram það álit að ekki sé ástæða til eða þörf á að koma upp sérstakri stofnun eða fyrirtæki til að annast þá starfsemi sem felst í neyðarsímsvörun. Bent er á að ýmsir aðilar, bæði opinberir og einkaaðilar, annist nú skyldan rekstur og þessir aðilar hafi látið í ljós vilja til að annast rekstur vaktstöðvar vegna neyðarsímsvörunar. Fram kemur að á síðustu árum hafi það færst í vöxt erlendis að hið opinbera bjóði rekstrar- og þjónustuverkefni út. Algengt sé að opinber fyrirtæki bjóði í verkefnin líka og þannig sé látið á það reyna hvar hagstæðast sé að vinna verkefnin. Þessarar þróunar hafi einnig gætt hér á landi. Nefndin telur að neyðarsímsvörun sé eitt af þeim verkefnum sem til álita komi að bjóða út.
    Eins og fram kom, þá heyra málefni þeirra sem koma að neyðarþjónustu og þar með neyðarsímsvörun undir fleiri en eitt ráðuneyti. Stærsti hluti þessara mála kemur þó undir dómsmrn., svo sem lögregla, almannavarnir og landhelgisgæsla. Í 8. gr. frv. er því lagt til að það verði verkefni dómsmrh. að annast framkvæmd þessara laga og hafa forgöngu um þá nauðsynlegu samvinnu sem þarf að koma á milli ráðuneyta, stofnana, frjálsra félagasamtaka og hugsanlega einkaaðila. Lagt er til að komið verði á fót sérstakri samstarfsnefnd sem í eigi sæti fulltrúar sveitarfélaga, ráðuneyta og stofnana sem sinna málum sem lögin taka til, landssamtökum björgunarsveita og annarra aðila sem sinna verkefnum á sviði laganna. Ekki er talið rétt að afmarka það nákvæmlega í lögum hvaða aðilar eigi sæti í slíkri nefnd, en ráðherra ætti einmitt með

þessu fyrirkomulagi að geta tekið inn þá aðila sem á hverjum tíma sinna mikilvægum verkefnum á þessu sviði.
    Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þessa frv. og tilgangi þess og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umræðu til 2. umr. og hv. allshn.