Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:07:03 (3758)


[11:07]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Frv. það til nýrra mannanafnalaga sem ég mæli fyrir er á þskj. 533 og er samið af nefnd sem ég skipaði í ágústmánuði 1993. Í nefndinni áttu sæti Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmrn. sem var formaður nefndarinnar, Halldór Ármann Sigurðsson prófessor og Hjálmar Jónsson prófastur. Við samningu frv. var tekið mið af lögum um mannanöfn, nr. 37/1991, en jafnframt litið til eldri laga um mannanöfn frá 1913 og 1925 og frumvarpa til laga um mannanöfn sem lögð voru fyrir 75. löggjafarþing 1955 og 92. löggjafarþing 1971. Enn fremur kynntu nefndarmenn sér sögu íslenskrar nafnalöggjafar að öðru leyti og athuguðu nafnalöggjöf annars staðar á Norðurlöndum eftir því sem ástæða reyndist til. Einkum var þó stuðst við þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga nr. 37/1991 og tekið tillit til þeirrar gagnrýni á lögin sem fram hefur komið. Margt í lögum nr. 37/1991, um mannanöfn, var til verulegra bóta. Reynslan hefur þó leitt í ljós ýmsa vankanta á lögunum sem nauðsynlegt er að lagfæra. Einkum hafa ákvæði þeirra um eiginnöfn reynst of ósveigjanleg og ekki í samræmi við ríkjandi hugmyndir um persónufrelsi. Í lögunum er t.d. ekki gert ráð fyrir svokölluðum millinöfnum, þ.e. nöfnum sem eru kynlaus í þeim skilningi að þau eru gefin báðum kynjum eins og t.d. nöfn sem dregin eru af örnefnum og enda á -dal eða -fjörð. Sá siður að gefa slík nöfn hafði þó fengið að þróast að mestu afskiptalaust um langa hríð áður en lög nr. 37/1991 voru sett enda hefur komið í ljós allmikil ásókn almennings í að fá að gefa nöfn af þessu tagi. Með ákvæðum laganna um uppruna og hefð eiginnafna er enn fremur tekið fyrir það að ný tökunöfn skjóti rótum hér á landi og hefur það ekki gerst áður í sögu íslenskrar tungu.
    Það er að sjálfsögðu brýnt að unnið sé að varðveislu íslenskra mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða en hins vegar er yfirleitt farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og upplýsingu en með beinu lagaboði. Nafn manns er einn mikilvægasti þáttur sjálfsímyndar hans og varðar fyrst og fremst einkahagi hans en síður almannahag. Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns hlýtur að vera ríkari en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum að sama skapi takmarkaður. Sumir nafnsiðir eru þó þess eðlis að þeir snerta ekki síður veigamikla hagsmuni samfélagsins en einkahagi manna og er réttur löggjafans til afskipta af þeim þá meiri en ella. Þetta á ekki síst við um íslenska kenninafnasiði eins og gerð er rækilega grein fyrir í athugasemdum með frv.
    Markmið frv. eru einkum þrjú:
    1. Að auka frelsi í nafngiftum frá því sem nú er, einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli og með því að heimila millinöfn.
    2. Að jafna nafnrétt manna eftir því sem kostur er, m.a. með því að auka rétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
    3. Að stuðla að því að ættarnöfn verði fremur notuð sem millinöfn en sem kenninöfn.
    Enn fremur var lögð áhersla á að gera uppbyggingu frv. sem rökréttasta og gæta samræmis en á það skorti nokkuð í framkvæmd laganna nr. 37/1991.
    Frv. skiptist í níu kafla auk ákvæða til bráðabirgða. I. kafli er um fullt nafn og nafngjöf, II. kaflinn um eiginnöfn, III. kaflinn um millinöfn, IV. kaflinn um kenninöfn, V. kaflinn um nafnrétt manna af erlendum uppruna, VI. um nafnbreytingar og sá VII. um skráningu og notkun nafns, sá VIII. um mannanafnanefnd og loks er kafli með ýmsum ákvæðum. Helstu nýmæli frv. eru þessi:
    1. Lagt er til að heimilt verði að gefa erlend nöfn að því tilskildu að þau geti tekið íslenska eignarfallsendingu. Með þessu móti er frjálsræði í nafngiftum aukið umtalsvert en um leið tryggt að erlend nöfn lagist að íslenskum beygingareglum a.m.k. að nokkru leyti.
    2. Lagt er til að millinöfn verði leyfð með ákveðnum takmörkunum þó. Hér er um að ræða grundvallarbreytingu því að með henni er tekinn upp nýr flokkur nafna sem hefur aðra stöðu í nafnakerfinu en bæði eiginnöfn og kenninöfn. Þessi breyting er óhjákvæmileg ef frv. á að svara kröfum tímans eins og rakið er í athugasemdum með því.
    3. Gert er ráð fyrir að þeir sem bera ættarnöfn geti eftirleiðis borið þau sem millinöfn ásamt föður- eða móðurnafni. Ættarnöfn hafa breiðist svo hratt út hér á landi á undanförnum áratugum að íslenska kenninafnasiðnum stendur nokkur ógn af. Breytingunni er ætlað að styrkja þennan æviforna kenninafnasið Íslendinga. Ekki er þó um neina þvingun að ræða því að þeir sem bera ættarnöfn mega gera það áfram kjósi þeir svo. Þó er gert ráð fyrir að menn taki ekki upp ættarnöfn maka sinna sem kenninöfn eftirleiðis en megi taka þau upp sem millinöfn. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu eru raktar ítarlega í athugasemdum með frv.
    4. Frv. stefnir að því að auka mjög nafnrétt hérlendra manna með erlendum uppruna. Þannig er gert ráð fyrir það þeir sem fá íslenskan ríkisborgararétt með lögum geti haldið nafni sínu alveg óbreyttu kjósi þeir svo og að niðjar þeirra hafi sama nafnrétt og aðrir, t.d. til að halda ættarnafni eða nota það sem millinafn. Nöfn eru ákaflega persónulegt mál og skoðanir manna á því hvaða reglur ber að setja um nafngiftir eru mjög skiptar sem vonlegt er. Í frv. er leitast við að sætta ólík sjónarmið um þetta efni og stefnt að löggjöf sem er frjálslynd og svari kalli tímans en virði um leið sérstöðu Íslendinga og rótgrónar nafnahefðir þeirra.
    Það er von mín að Alþingi geti afgreitt þetta mál í góðri sátt og ég legg því til, frú forseti, að frv. verði lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.