Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:13:59 (3759)


[11:13]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt mál menningarlegs eðlis og persónulegs eðlis fyrir hlutaðeigandi og þróun nafngifta á fólki hérlendis í framtíðinni. Það er mjög góðra gjalda vert að mál þetta skuli komið fyrir þingið. Það er auðvitað mjög til efs að þinginu auðnist að afgreiða það á þeim örstutta tíma sem er til þingloka en það er þá ráðrúm til að skoða það til næsta þings. Ég tók ekki eftir hvort ráðherra lagði sérstaka áherslu á málið eða hafði stefnu í því en ég geri ráð fyrir því að þetta sé mál sem er flutt hér frekar til kynningar. Ég hef ekki haft aðstöðu til að fara yfir málið svo sem vert væri en það er eitt atriði sem ég vil sérstaklega koma á framfæri til athugunar fyrir þingnefnd og það er um stöðu nafna þegar um er að ræða fleiri en eina nafngift, þ.e. eiginnafn eða eiginnöfn og svonefnt millinafn. Ég tel að það sé eðlilegt að það sé svigrúm til þess að gefa einstaklingum fleiri en eitt nafn, það sé ekki óeðlilegt, en mér finnst jafnframt að það sé rétt að sá sem nafn gefur þurfi að kveða á um hvert nafn sé það sem er aðalnafn, þ.e. það sé ekki gert ráð fyrir því að það sé kvöð að nota fleiri en eitt nafn um einstakling. Það getur auðvitað þróast með ýmsum hætti innan fjölskyldu og í kunningjahópi en ég tel að gagnvart þeim sem notar nafn og ávarpar með nafni, þá sé eðlilegt að það sé kveðið á um það að í skráningu og þar með af þeim sem gefur nafn hvert nafn og þá aðeins eitt nafn sé aðalnafnið. Þetta tel ég að varði miklu.
    Ég vek athygli á því að það er mjög sérkennileg þróun í gangi í sambandi við tvínefni í landinu sem er orðin mjög algeng og hefur sótt mjög á að ég held. Ég hef að vísu ekki neina könnun fyrir mér varðandi það en hún er sú, t.d. í fjölmiðlum, að þegar um tvínefni er að ræða á einstaklingi þá notar fjölmiðillinn gjarnan þetta án föðurnafns en ef um einnefni er að ræða fylgir föðurnafnið með. Þannig virðist svo sem tvínefnið sé að fá svona hliðstæða stöðu eins og ættarnöfn höfðu, þ.e. að menn láti láti nægja að taka tvínefnið, sleppi föðurnafninu eða móðurnafninu ef það er það sem gildir en sé hins vegar um einnefni að ræða þá er að jafnaði notað eftirnafnið eða föður- eða móðurnafn, föðurnafn í flestum tilvikum eins og þau mál hafa þróast hjá okkur.
    Þessu vildi ég koma á framfæri vegna þess að ég tel að þetta sé mjög mikilvægt efni í rauninni og það sé óeðlilegt að ætla þeim sem nota nöfn að þurfa að velja þar á milli eða átta sig á því að um fleiri en eina nafngift sé að ræða eða ætlast sé til þess að það séu fleiri en eitt nafn notuð í ávarpi.
    Síðan, virðulegi forseti, ekki meira um þetta. Aðeins í sambandi við ættarnöfnin sem hafa þróast hérna. Þau eru mjög að sækja á í rauninni og mér finnst að þar hafi menn ekki tekið við sér á réttum tíma. Mér finnst þessi ættarnafnaþróun hvimleið eins og hún hefur orðið á þessari öldinni sérstaklega og brjóti í rauninni gegn okkar meginhefðum. Ég er ekki að gera ráð fyrir því að menn reisi rönd við því að það sé almennur vilji fyrir því að breyta slíku, ég tala ekki um þá sem eiga að rýna í ættfræði og hafa gaman af að rekja ættir, þá er það orðið torvelt þegar um þessi ættarnöfn er að ræða. Menn eru í rauninni og voru að brjóta gegn meginhefðum íslenskrar tungu og íslenskrar nafngiftar með þessari upptöku ættarnafna og hefði verið ástæða til þess að fjalla um þá stöðu.
    Ég tel í þriðja lagi, virðulegi forseti, að það sé sjálfsagt að hafa frjálsræði eða hafa ótvíræða heimild fyrir útlending sem fær íslenskan ríkisborgararétt að halda sínu nafni. Það er jafneðlilegt að gera kröfu til þess að afkomendur lúti íslenskum reglum og lögum um nafngiftir. Þetta er sú stefna sem mér skilst að sé verið að taka upp í þessum efnum og ég tel að þarna þurfi að vanda mjög til hvernig á er haldið þannig að það verði í rauninni ekki millinafn eða erlent heiti sem þróist sem aðalheiti. En þarna skiptir mjög miklu máli hvernig á er haldið í þessum efnum.
    Það voru ekki fleiri atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi koma hér að við 1. umr. Ég viðurkenni að ég hef ekki farið yfir fyrirliggjandi frv. í heild sinni eins og vert væri en mun þá koma að atriðum frekar síðar ef mér vinnst tími til þess eða ef málið kemur hér á nýjan leik fyrir þing til 1. umr. við endurflutning sem mér þykir trúlegt að verði um að ræða í þessu tilviki.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það frumkvæði að leggja þetta mál fyrir.