Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:40:17 (3763)


[11:40]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar núgildandi lög um mannanöfn voru sett þá voru í gildi lög frá árinu 1925 um mannanöfn sem voru mjög gölluð og voru í raun og veru brotin í mér liggur við að segja í einstökum atriðum af yfirvöldum í landinu og hafði verið svo um áratuga skeið. Það höfðu verið gerðar fleiri fleiri tilraunir til þess að breyta lögum um mannanöfn og setja ný lög um mannanöfn í þessari virðulegu stofnun og það hafði aldrei tekist. Frumvörp höfðu verið flutt af ríkisstjórnum og einstökum þingmönnum og það hafði aldrei tekist að taka á þeim málum með heildstæðum hætti þannig að þessi gömlu úreltu lög voru sem sagt í gildi alveg til ársins 1991. Það var vegna þess að þessi lög voru orðin úrelt að skipuð var nefnd með bréfi þáv. menntmrh. árið 1989 um að taka á þessum málum, endurskoða gömlu mannanafnalögin og það var skilað inn frv. sem fór í gegnum Alþingi óbreytt í grundvallaratriðum. Nokkrum atriðum var breytt í meðferð þingsins en þau högguðu ekki þeim grundvallaratriðum sem það frv. byggðist á og seinna þau lög.
    Síðan hefur það gerst að framkvæmd þessara laga hefur ekki verið nægilega góð að mínu mati. Hún hefur ekki verið nægilega sveigjanleg og það hefur þegar verið nefnt eitt nafn hér á þessum fundi og í þessari umræðu sem er dæmi um það að framkvæmd laganna var óþarflega skörp í raun og veru.
    Í 2. gr. gildandi laga er þetta ákvæði, með leyfi forseta:
    ,,Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
    Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn.``
    Það kom hér fram í máli hv. 5. þm. Vesturl. áðan að nafnið Kalman með einu n-i hefði ekki verið talið leyfilegt af mannanafnanefnd og túlkað þannig að með því að nota það nafn væru menn að brjóta gildandi mannanafnalög. Ég er ósammála þessari túlkun og ég þykist geta talað nokkuð eindregið um þessi mál vegna þess að ég flutti það frv. sem ráðherra sem nú eru gild mannanafnalög. Ég tel þetta alveg ótrúlega túlkun, m.a. með hliðsjón af því að í þeim reglum sem eru í gildi um framkvæmd mannanafnalaganna kemur fram að í rauninni ætti þetta nafn að vera heimilt af því að það hefur verið til allt frá manntalinu 1703 og er m.a. til í manntalinu 1910 sem er sérstaklega vitnað til í gildandi starfsreglum mannanafnanefndar. Mér finnst í raun og veru þetta dæmi sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson nefndi sýna að það eru ekki lögin sem þarna eru vandinn í sjálfum sér heldur fyrst og fremst það að menn hafa framkvæmt þau með kannski aðeins skarpari hætti en þurft hefði að gera. Og ég tel að margt sem sagt hefur verið um þessi gildandi mannanafnalög byggist á misskilningi, þar séu menn að gagnrýna framkvæmdina en ekki lögin sjálf því að þau skapi býsna mikla möguleika út af fyrir sig.
    Í því frv. sem hér er verið að flytja er hins vegar mjög mikilvæg stefnubreyting í meðferð mannanafna, notkun mannanafna og þar með í vissu grundvallaratriði íslensks máls því að hér segir að markmið nefndarinnar sem hefur unnið að þessu verkefni að semja þetta frv. hafi m.a. verið það að auka frelsi í nafngiftum frá því sem nú er. Hvað þýðir það? Það þýðir í raun og veru það að nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að það sé nauðsynlegt að losa um þær almennu íslensku málsögulegu grundvallarforsendur sem núgildandi lög byggjast á. Út af fyrir sig kann vel að vera að við séum stödd á þeim punkti í sögu íslenskunnar að nauðsynlegt sé að rýmka þessar reglur með einhverjum hætti en þá eiga menn að segja það.

Ég held að það sé alveg ljóst að ef þetta frv. verður samþykkt eins og það lítur út væru menn að stíga fyrsta skrefið í þessari stofnun í þá átt að losa um þær hefðir sem íslensk mannanöfn hafa byggst á mér liggur við að segja um aldir. Það getur vel verið að það sé bara viðurkenning á einhverjum veruleika eins og fólk er einlægt að tala um að það eigi að hneigja sig fyrir einhverjum veruleika alla tíð sem megi svo aldrei gera tilraun til að breyta þó við séum nú reyndar á Alþingi til að reyna að breyta stundum veruleikanum en ekki til að hneigja okkur alltaf fyrir honum. En ég held að menn þurfi að horfast í augu við þetta. Eru menn tilbúnir til að losa um þær almennu grundvallarreglur sem íslensk mannanöfn hafa byggst á? Út af fyrir sig er ég alveg til viðtals um að skoða þá hluti vegna þess að hinn þátturinn er ekki í mínum huga fyrst og fremst sá að koma til móts við kröfur um eitthvað sem heitir aukið frelsi sem er yfirleitt mjög óskilgreint tal, ég leyfi mér að segja hjal, með leyfi forseta, heldur er það kannski frekar hitt að reglur um mannanöfn mega ekki stangast á við það sem kalla mætti grundvallarmannréttindi.
    Þá er ég kominn að því sem snýr að reglum og kröfum sem gerðar eru til þess fólks sem verður íslenskir ríkisborgarar og það er hlutur sem mér finnst að eigi að skoða sérstaklega og kemur einhvern veginn aldrei til umræðu í tengslum við lög um íslensk mannanöfn sem þó er alveg meginmál hvort það stenst almenn mannréttindaákvæði að svifta fólk, sem verður íslenskir ríkisborgarar, nafninu sínu. Hvað þætti okkur um það sem heitum þessum glæsilegu íslensku nöfnum, Svavar, Ingi Björn, Ragnar, Guðný, Jóhann að verða kölluð Abdul Kansas ef við yrðum arabískir ríkisborgarar og yrði bannað að bera okkar nöfn? Þessi þáttur er alveg kapítuli út af fyrir sig og á auðvitað að ræða með opnum huga frá almennu mannréttindasjónarmiði en ekki fyrst og fremst út frá því hvort menn eiga að koma til móts við einhvern annan ytri veruleika eða þá það að menn séu að koma til móts við einhvert svona frelsistal eða hjal.
    Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á þessu grundvallaratriði, þ.e. vilja menn losa um þær kröfur íslenskrar málsögu og málshefðar sem birtast í gildandi mannanafnalögum? Í öðru lagi bendi ég á það að hér er opnað fyrir að millinöfn komi við sögu. Það var mjög umdeilt mál þegar við tókum þetta til umræðu síðast þegar lögunum var breytt. En hér er gert ráð fyrir því að heimila millinöfn. Það er alveg augljóst mál að það að heimila millinöfn með beinum lagaákvæðum mun ýta undir líkurnar á því að ættarnafnahefðin taki við af eiginnafnahefðinni. Millinöfnin eru gjarnan þannig að þau einkenna fjölskyldur, fólki þykir vænt um nöfnin eins og eðlilegt er og það verður smátt og smátt til þess að löggjafinn eða hver sem er getur ekki staðist kröfur um að þessi hefð verði með einum eða öðrum hætti viðurkennd við hliðina á íslensku mannanafnahefðinni sem aftur þýðir þá að hún muni víkja. Þá er ég ekki að tala um eitthvert eins eða tveggja eða þriggja ára tímabil heldur kannski hálfa öld eða heila.
    Það er líka þannig að hugmyndir um að styrkja millinafnið eru með þeim hætti að þær auka líkurnar á því að kenninöfn kvenna víki fyrir kenninöfnum karla eins og menn sjá þegar þeir hugleiða málið. Að öllu samanlögðu tel ég að þetta sé bæði vafasamt út frá því sjónarmiði að þetta geti vikið almennu mannanafnahefðinni til hliðar en ég tel það líka vera óskynsamlegt út frá því sjónarmiði að auðvitað þarf að gæta þess að þeim rétti kvenna í okkar tilviki til að halda nöfnum sínum við hjúskap verði hvergi stofnað í hættu. Hins vegar ef opnað yrði fyrir millinafnahefðina til áratuga þá sjá allir hvert það stefnir mér liggur við að segja þessum skemmtilegasta þætti íslenskrar mannanafnahefðar, þ.e. að fólk heldur sínum nöfnum hvað sem tautar og raular að því er varðar hjúskaparstöðu, bæði karlar og konur.
    Ég tel að hvorugt þessara atriða sé augljóst mál og að það eigi að afgreiða þetta frv. eins og þar er lagt til. Hins vegar er rétt sem segir í frv. að það þarf að endurskoða starfsreglur reglulega eins og þær sem getið er um á bls. 12 í greinargerð frv. Það er sjálfsagt mál. Ég skil vel hæstv. dómsmrh. að hann skuli hafa orðið að taka á þessu máli með því að skipa nefnd til að endurskoða þetta vegna þess að það var alveg greinilegt að í framkvæmdinni voru menn búnir að mála sig alveg út í horn í þessu máli þannig að það varð auðvitað að taka einhvern veginn á því. Ég tel sjálfsagt mál að Alþingi ræði þetta en ég tel að það sé ekki einboðið að þær leiðir séu farnar sem hér eru lagðar til.
    Síðan varðandi einstök atriði sem ég ætla ekki að ræða hér en ég vil segja að ég get tekið undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. varðandi heimild til að kenna sig bæði til nafns föður og móður. Mér finnst alveg sjálfsagt mál að opna fyrir það með beinum lagaákvæðum. Og það undirstrikar bara íslensku mannanafnahefðina að þetta sé opið og hægt að gera þetta á hvorn veginn sem er eða báða.
    Í annan stað varðandi einstök atriði ætla ég að benda á að í 2. mgr. 5. gr. þar er gert ráð fyrir því eins og segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Stúlku skal gefa kvennmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.`` Það segir á bls. 13:
    ,,Þannig er t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær.`` Það er sem sagt verið að segja það að það sé ekki hægt að gefa stúlku nafnið Sturla, það mundu menn ekki telja gilda íslensku. En það má ekki gefa stúlku nafnið Blær samkvæmt þessu. Það er erfitt mál. Það er stúlka í þessu landi, Blær Guðmundsdóttir, myndarleg stúlka. Á að svifta hana því nafni eða hvernig hugsa menn þetta? Ég tel að hér sé dæmi um það að menn séu of einstrengingslegir. Á sama tíma og menn segja: Það á að opna þetta til þess að hægt sé að laga íslenska mannanafnahefð að erlendum nöfnum af ýmsu tagi enda taki þau innlendum eignarfallsendingum, ætla menn að setja strangar reglur um nöfn af þessu tagi. Það finnst mér vera misskilningur. Þetta finnst mér dæmi um það að menn séu ekki að öllu leyti sjálfum sér samkvæmir varðandi samningu frv.

    Ég held hins vegar að það sé af hinu góða að hv. Alþingi fær þetta mál til meðferðar og ég held að það sé rétt að ég ljúki máli mínu með því að gera að mínum orðum eina málsgrein á bls. 18 í greinargerð frv. sem fjallar um IV. kafla þess en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Það væri menningarslys ef Íslendingar glötuðu þeim merkilega arfi sem kenninafnasiður þeirra er. Þeir hafa þá skyldu við sjálfa sig, afkomendur sína og umheiminn að reyna eftir fremsta megni að varðveita þennan arf.``
    Ég held að það sé allt í lagi að rifja þetta upp í þessari umræðu, hæstv. forseti.