Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:54:53 (3764)


[11:54]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Þegar hefur komið fram í þessum umræðum að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða sem hefur margar hliðar og því er eðlilegt að nokkuð skiptar skoðanir séu um það. Það er því augljóst að frv. mun ekki ná fram að ganga á þessu Alþingi. Engu að síður er vert að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja þetta frv. fram nú þannig að hægt sé að fara að ræða þær hugmyndir um breytingar sem þar eru settar fram. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að sú umræða fari sem víðast fram í þjóðfélaginu því að þetta er eins og fram hefur komið málefni sem snertir hvern einstakling.
    Ég ætla ekki að ræða einstök atriði í þessu frv. en vildi þó aðeins koma þeirri skoðun minni á framfæri svipaðri og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að hér þurfi að fara með gát. Mannanafnahefð okkar Íslendinga er auðvitað stór þáttur í tungu okkar og menningararfleifð. Því held ég að það þurfi að gæta þess vel að gera þar ekki skyndilegar breytingar sem kollvarpa þessari hefð. En það er að sjálfsögðu rétt að lagasetning og lagaákvæði eru erfið að byggja eingöngu á þeim og því held ég að mikilvægt sé að skapa umræðu um þetta í þjóðfélaginu og virðingu fyrir þessari hefð okkar. Ég veit ekki hvort lögð er nægileg áhersla á þetta t.d. í skólum. Mér finnst að það þurfi að kenna það og brýna fyrir nemendum hvers virði tunga okkar er og þessi mikilvægi þáttur hennar sem eru íslensk mannanöfn og mannanafnahefð. Því aðeins held ég okkur takist að varðveita þetta í framtíðinni að það njóti stuðnings í þjóðfélaginu en slíkur stuðningur fæst aðeins með því að það sé sannfæring og tilfinning þjóðarinnar hvers virði er að halda þessum arfi okkar.
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni en vildi aðeins leggja áherslu á þetta atriði og að það verði þá haft í huga í sambandi við það sem væntanlega tekst að gera að senda frv. til umsagnar út í þjóðfélagið og þá til sem flestra aðila til þess að það geti stuðlað að slíkri umræðu.