Tjáningarfrelsi

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:21:26 (3771)


[12:21]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 387 flyt ég ásamt fjórum öðrum hv. þingmönnum till. til þál. um endurskoðun laga um tjáningarfrelsi. Flm. auk mín eru hv. þm. Ingi Björn Albertsson, Jón Helgason, Kristinn H. Gunnarsson og Kristín Einarsdóttir. Tillagan er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hraða endurskoðun þeirra ákvæða hegningarlaganna sem fjalla um meiðyrði. Þá samþykkir Alþingi að fela ríkisstjórninni að láta semja sérstakt lagafrumvarp um prentfrelsi og um framkvæmd á þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem eiga að tryggja prentfrelsi. Höfð verði hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tryggja eiga prentfrelsi og tjáningarfrelsi í grannlöndum okkar, en þess verði einnig gætt að taka mið af nýrri tækni í fjölmiðlun þannig að ný lög verði í samræmi við þá tækniþróun sem orðið hefur á sviði fjölmiðlunar.
    Ríkisstjórnin geri Alþingi grein fyrir þessari endurskoðun og tillögum sínum í upphafi næsta þings.``
    Í greinargerð er bent á það að ákvæði gildandi laga, almennra hegningarlaga, um meiðyrði eru löngu úrelt. Um það er í raun og veru full samstaða meðal flestra þeirra sem hafa komið að málum af þessu tagi á undanförnum árum að ég segi ekki áratugum. Hér er þess vegna flutt tillaga um að
    a. hraðað verði endurskoðun þeirra ákvæða hegningarlaga sem á einhvern hátt snerta tjáningarfrelsi og geta orðið til þess við óvarlega notkun að hefta málfrelsi,
    b. kannað verði hvort setja eigi sérstök lög um prentfrelsi og tjáningarfrelsi til þess að fylla betur út í þann ramma sem stjórnarskráin kveður á um og
    c. höfð verði hliðsjón af reynslu grannþjóða okkar í þessum efnum.
    Gert er ráð fyrir því að ríkisstjórninni verði falið að vinna að þessum verkefnum og gefa Alþingi skýrslu um gang málsins með haustinu.
    Á undanförnum þingum hafa verið flutt fjöldamörg þingmál sem lúta að þessum málaflokki. Þannig flutti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ásamt hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur frv. til laga fyrir tveimur árum eða svo um það að fella niður 108. gr. hegningarlaganna en sú grein kveður á um sérstaka æruvernd fyrir opinbera starfsmenn. Þessi grein og dómar á grundvelli hennar urðu m.a. kveikjan að máli því sem kennt er við Þorgeir Þorgeirsson og einnig Hall Magnússon blaðamann og eru til marks um það hvað okkar löggjöf og túlkun okkar dómstóla á henni hefur staðnað og trénað og er langt á eftir sinni samtíð. Um dómana yfir Þorgeiri Þorgeirssyni og Halli Magnússyni hefur síðan verið fjallað annars staðar og m.a. hefur það komið í ljós að á vettvangi Mannréttindadómstólsins segir að niðurstaða Hæstaréttar sé brot á mannréttindaákvæðum þeim sem dómstóllinn á að taka tillit til. Það er með öðrum orðum búið að sanna upp á Íslendinga og íslenska dómstóla í þessu sambandi mannréttindabrot og þess vegna ekki seinna vænna að á þessum málum sé tekið.
    Nú hefur það auk þess gerst, hæstv. forseti, að það liggur fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem gert er ráð fyrir veigamiklum breytingum á mannréttindaköflum stjórnarskrárinnar og m.a. kaflanum um tjáningarfrelsi sem nú er aðeins um prentfrelsi. Það verður að segja eins og er að ég geri ráð fyrir því að allir flm. frv. um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar standi í þeirri góðu trú að þeir séu að flytja frv. sem að því er þetta varðar sé til bóta og tryggi og treysti frelsi manna til tjáningar, hvort sem það er í ljósvakamiðlum eða prentmiðlum eða hvað sem það nú er.
    Nú hefur það hins vegar komið á daginn að Verslunarráð Íslands og Rithöfundasamband Íslands hafa, mér liggur við að segja aldrei þessu vant svo sérkennilegt sem það nú kann að hljóma, náð saman í þessu máli og hafa sent frá sér mjög athyglisverðar ályktanir þar sem talið er að tillaga þingflokksformannanna um þetta mál sé ekki nógu góð, að ég ekki segi beinlínis hættuleg, eins og hún lítur út vegna þess að þar er gert ráð fyrir því að heimilað verði við sérstakar aðstæður að takmarka málfrelsi manna eins og þar er nákvæmlega tilgreint.
    Í umræðum um þetta hafa síðan komið fram skiptar skoðanir. Það hafa verið skrifaðar um þetta greinar, m.a. af fjölmörgum virtum lögmönnum, t.d. Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni sem hefur látið mannréttindamál mjög mikið til sín taka. Ég held þess vegna m.a. að það sé óhjákvæmilegt að þessi tillaga sem ég er að tala fyrir verði tekin alvarlega og tekið á henni alveg sérstaklega í þinginu núna í vetur til þess að unnt verði að afgreiða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það er alveg augljóst mál að ef ákvæði stjórnarskrárfrv. um prentfrelsi og tjáningarfrelsi færu óbreytt í gegnum um þetta þing án þess að eitthvað annað gerðist mundi það vekja stórkostlega mikil og hörð viðbrögð og andstöðu úti í þjóðfélaginu. Þess vegna held ég að flm. stjórnarskrárfrv. þyrftu að athuga hvort ekki er nauðsynlegt að breyta hegningarlagaákvæðunum um tjáningarfrelsi og málfrelsi til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem nú er uppi um ákvæði stjórnarskrárfrv.
    Ég tel þess vegna að það hafi verið mjög söguleg yfirlýsing sem hæstv. dómsmrh. gaf hér í morgun um að að hans mati kæmi til greina að fella niður hina sérstöku æruvernd opinberra starfsmanna sem gert er ráð fyrir í 108. gr. hegningarlaganna og ég hvet til þess að hv. allshn., sem fær væntanlega þetta mál til meðferðar, fjalli um það alveg sérstaklega um leið og hún skoðar hegningarlögin að öðru leyti sem hún gerir hvort eð er, að fella niður þessa 108. gr. Líka vegna þess, eins og ég orðaði það í morgun í umræðum um annað dagskrármál, að dómsmrn. hefur unnið heimavinnuna sína í þessu máli. Það hefur verið skipuð nefnd. Að vísu skilaði hún nefndaráliti þar sem ekki var nú mikil samstaða, það verður að viðurkenna. Það voru þrenns konar álit sem komu frá þessari nefnd en engu að síður kom það greinilega fram í álitinu að flestir telja það harla vafasamt að láta þessi mál standa algerlega óbreytt áfram.
    Þess vegna hvet ég til þess í fyrsta lagi að menn komi til móts við þau sjónarmið sem hér eru uppi

og m.a. hafa birst í gagnrýni á frv. þingflokksformannanna með því að fella út 108. gr. Mér liggur við að segja, illræmdu 108. gr. sem er orðin Íslendingum til vansa á alþjóðlegum vettvangi.
    Í öðru lagi er það alveg greinilegt að meiðyrðaákvæði hegningarlaganna eru algerlega fráleit. Ég er þá ekki að tala fyrst og fremst út frá þeirri reynslu sem ég hef t.d. af þeim lögum, að vera dæmdur alloft á ýmsum dómstigum fyrir brot á þeim ákvæðum hegningarlaganna, heldur er ég fyrst og fremst að tala um það sem hefur færst í vöxt í seinni tíð, að menn séu að stefna út af alls konar umfjöllun um sjálfa sig út og suður og tjakka inn á því tugi þúsunda kr. eða jafnvel hundruð þúsunda í einstökum dómsmálum. Það er náttúrlega alveg ótrúlegt þegar menn hundelta prentfrelsið með þeim hætti sem hefur birst stundum á undanförnum missirum þannig að þeir sem leyfa sér að hafa uppi almenna gagnrýni sem jafnvel eru orðréttar tilvitnanir í skýrslur Ríkisendurskoðunar eru dæmdir í sektir og tilvitnanirnar í skýrslur Ríkisendurskoðunar eru dæmdar dauðar og ómerkar af dómstólum Íslands. Það er auðvitað alveg fráleitt að vera með svona lagaákvæði. Ég hélt að það væri hámarkið sem undirritaður lenti í einu sinni þegar tilvitnun í ljóð eftir Þorstein Erlingsson voru dæmd dauð og ómerk, ekki bara í undirrétti heldur í Hæstarétti í meiðyrðamáli sem var höfðað gegn mér. Það voru ljóðlínur, tilvitnun í frægt kvæði eftir Þorstein Erlingsson um Jörund hundadagakonung sem Hæstiréttur gerði sér lítið fyrir og dæmdi dauðar og ómerkar. En þegar farið er að dæma dautt og ómerkt það sem opinber stofnun eins og Ríkisendurskoðun sendir frá sér og að sekta menn fyrir að segja það utan þessa ræðustóls þá er það skerðing á málfrelsi, tjáningarfrelsi, prentfrelsi í landinu. Það gengur ekki. Mér finnst að við sem hér erum, sem njótum rýmra málfrelsis og tjáningarfrelsis en allir aðrir landsmenn, eigum auðvitað að sjá sóma okkar í að breyta svona lagaákvæðum. Þess vegna er þessi tillaga flutt að hraðað verði þeirri endurskoðun ákvæða hegningarlaganna sem fjallar um meiðyrði.
    Svo verður auðvitað að tryggja það, virðulegi forseti, að í endurskoðuninni verði staðið þannig að hlutum að tekið verði mið af nýrri tækni í fjölmiðlun. Við erum auðvitað ekki bara að tala um prentað mál heldur verða menn að skoða þar fleiri þætti og gera sér grein fyrir því að í fjölmiðla- og samskipta- og boðskiptaþróun nútímasamfélags er oft óskaplega erfitt að skrifa niður í lögbókina í einstökum atriðum hlutina t.d. um það hvernig menn eiga að talast við. Eru ekki 300 milljónir notenda á Internetkerfinu í heiminum um þessar mundir? Nær íslenska hegningarlöggjöfin yfir Internet? Við erum mörg svo gæfusöm að eiga aðgang að Internetinu, veraldarvefnum, sem er eitt merkasta upplýsingafyrirbrigði sem til er. Talað er um að með sömu þróun verði 1,5 milljarðar manna í heiminum tengdir við þennan veraldarvef með einum eða öðrum hætti árið 2005--2010. Ætlum við þá að vera með ákvæði í hegningarlögum á Íslandi sem taka á þeim málum þannig að einhverjir menn geti stefnt fyrir það sem stendur á veraldarvefnum? Þetta gengur ekki. Við erum stödd hér árið 1995 en ekki 1874 en þá voru þessi ákvæði meira og minna skrifuð og hugsuð. Ég held að við endurskoðun allra þessara lagaákvæða þurfi menn að taka mið af nýrri tækniþróun, byltingu í nýrri tækni og horfa til þess veruleika að eftir því sem samskiptaleiðunum fjölgar, eftir því verða möguleikarnir fyrir stjórnvöld til að banna fólki að tala saman svona en ekki hinseginn minni. Það er auðvitað kosturinn við upplýsinga- og boðskiptabyltinguna í heiminum núna að möguleikar stjórnvalda eða einhverra slíkra aðila til að hlutast til um það sem fólk er að bauka sín á milli verða stöðugt minni og minni. Þess vegna segi ég það að ég held að það sé mjög mikilvægt að á þessum málum verði tekið ef menn vilja ekki trénast og staðna enn frekar. Þá er ég að hvetja til þess að það verði ekki bara tekið á því að breyta hegningarlögunum því að hér segir líka að það eigi að setja ný lög um tjáningarfrelsið. Þau eru ekki til. Það eru engin lög til á Íslandi um tjáningarfrelsi. Það eru tiltekin ákvæði til í stjórnarskránni. Þau fjalla um prentfrelsi fyrst og fremst. Síðan eru menn að hugsa um að breyta því núna í frv. þingflokksformannanna en það eru engin sjálfstæð lög til um tjáningarfrelsi í landinu. Þannig er það t.d. heldur ekki í Danmörku sem er með nákvæmlega sömu lagahefð og við í þessum málum þó að dómstólahefðin þar sé ekki eins rosaleg og hér á landi. Aftur á móti er það þannig í Svíþjóð að þar hafa menn sett nýleg lög um tjáningarfrelsi sem ég tel að væri hægt að hafa til hliðsjónar og þar eru menn m.a. að reyna að skrifa inn í lög frelsi manna til þess að hafa samskipti og boðskipti með margs konar nýrri tækni sem var ekki til þegar lögin voru skrifuð sem við styðjumst við í landinu.
    Ég held þess vegna, hæstv. forseti, að það sé þannig að ef við ætlum okkur að afgreiða mannréttindafrv. sem hér liggur fyrir verði að taka líka á þessu máli sem lýtur að tjáningarfrelsinu almennt og þess vegna vona ég að málið verði samþykkt eins og þetta lítur út hér. Þetta er tillaga sem flutt er af þingmönnum úr öllum þingflokkum nema einum og ég hvet til þess að það verði skoðað með mikilli vinsemd.
    Ég legg svo til, hæstv. forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. allshn.