Tjáningarfrelsi

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:36:28 (3772)


[12:36]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið lögð fram þáltill. um endurskoðun laga um tjáningarfrelsi eins og hv. 1. flm. hefur gert grein fyrir. Þetta er út af fyrir sig athyglisverð tillaga sem ég vænti að allshn. taki til gaumgæfilegrar athugunar. Reyndar hygg ég að eitthvað af þeirri endurskoðun, sem hérna er mælt fyrir um, sé nú þegar hafin.

    Hins vegar gefur þessi umræða færi á að víkja örlítið að kaflaum eða greininni í frv. til stjórnarskipunarlaga sem hv. flm. þáltill. gerði reyndar einnig að umtalsefni og hefur verið nokkuð í fjölmiðlum að undanförnu. En það er engum blöðum um það að fletta að tjáningarfrelsið er einn hornsteinn lýðræðis í landinu og annars staðar í ríkjum sem kenna sig við lýðræðisskipulag og mjög mikilvægt er að standa vörð ekki bara um prentfrelsi eins og gert er í núgildandi stjórnarskrá, heldur um tjáningarfrelsið í miklu víðtækari merkingu. Það er grundvallaratriði og grundvallarmannréttindi að sjálfsögðu að svo sé gert.
    Hins vegar er það að mér virðist útbreiddur misskilningur um þessar mundir að engar skorður séu í dag lagðar á tjáningarfrelsið á Íslandi. Það eru margvíslegar skorður á tjáningarfrelsinu í íslenskum rétti í dag þó að þær séu ekki skrifaðar í núgildandi stjórnarskrá. Menn þurfa ekki annað en fletta upp í Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson til þess að komast að raun um það hvernig það er og það er reyndar á grundvelli þess að slíkar skorður hafa verið taldar heimilar sem ýmis lagaákvæði, sem við erum væntanlega öll sammála um, eru nú í gildi. Það er skerðing á tjáningarfrelsi að banna áfengis- og tóbaksauglýsingar. Samt hygg ég að við séum flest sammála um að rétt sé að banna slíkar auglýsingar. Það er gert af heilbrigðisástæðum, vegna heilsu manna. Læknum til að mynda væri ekki heimilt í nafni tjáningarfrelsis að gefa út á prenti viðkvæmar upplýsingar úr sjúkraskrám sjúklinga sinna. Það er skerðing á tjáningarfrelsi þeirra en það er að sjálfsögðu bannað til þess að vernda rétt og hagsmuni þeirra einstaklinga sem þar gætu átt hlut að máli. Þetta er annað dæmi um skorður sem eru í dag á tjáningarfrelsi.
    Það er heldur ekki hægt fyrir mann að taka hugverk annars manns, t.d. ritverk, og birta það sem sitt eigið í nafni tjáningarfrelsis. Við því eru sem betur fer og réttilega settar skorður. En það má alveg halda því fram að það séu skorður á tjáningarfrelsi þess manns sem hafði hugsað sér að fremja slíkt athæfi. Um þetta gilda nú þegar reglur eins og allir vita sem hugsa málið.
    Sama er að segja um lög sem gilda og eru ætluð til þess að vernda börn t.d. gegn klámi. Við erum með reglur um kvikmyndaeftirlit. Ekkert okkar vill leyfa hér barnaklám. En auðvitað má halda því fram að með því að hafa í gildi slíkt bann sé verið að setja skorður við tjáningarfrelsi þeirra aðila sem kynnu að vilja sýna slíkt klám. Það er því óhugsað þegar menn halda því fram að engar slíkar skorður séu í dag og í þessu frv. sé verið að setja nýjar skorður sem ekki séu fyrir hendi.
    Það má líka nefna landráð og þegar talað er um allsherjarreglu má nefna að auðvitað er bannað að egna til eða hvetja til afbrota. Ég hygg að það væri refsivert gagnvart hegningarlögum að hvetja beinlínis til afbrota. Það er það sem átt er við þegar talað er um að setja skorður í þágu allsherjarreglu en vitanlega er verið að hefta tjáningarfrelsi manna sem langar til þess að hvetja til afbrota í stórum stíl. En þetta segir sig sjálft þegar fólk hugsar þetta mál.
    Það sem hefur gerst með tillögunni hér í 11. gr. frv. til stjórnarskipunarlaga frá okkur þingflokksformönnum er það að í stað þess að hafa á reiki hvaða atriði gæti verið um að tefla, í stað þess að hafa eitthvert grátt svæði þarna sem gætu risið deilur um, er þetta tekið skýrt fram í 2. mgr. 11. gr. til þess að ekki þurfi að deila um þessa þætti í framtíðinni. Þetta er í samræmi við það sem til að mynda er að finna í mannréttindasáttmála Evrópu. Þar eru þessi atriði tekin upp raunar fleiri en hérna. Þar er um víðtækar undanþágur að ræða og beinlínis gert ráð fyrir því að í öllum lýðfrjálsum ríkjum geti menn sett svona reglur og skorður. Þetta er því ekkert óeðlilegt og þetta tíðkast að sjálfsögðu í öllum siðuðum þjóðfélögum að menn geti hvorki stolið annarra manna hugverkum í nafni tjáningarfrelsis, hvatt til barnakláms eða afbrota, framið lándráð eða eitthvað þaðan af verra. Það er þetta sem málið snýst um. Þess vegna tel ég að ef menn velta málinu fyrir sér sé í raun og veru verið að þrengja skorðurnar sem eru í gildi í dag og útvíkka þar með tjáningarfrelsið og gera það rýmra.
    Þá hefur verið sagt af sumum að það sé rétt að bæta inn í þetta að ekki megi setja aðrar skorður við tjáningarfrelsi en þær sem samrýmast í lýðfrjálsu ríki, eða eru eðlilegar í lýðræðislegu ríki, en auðvitað þarf ekki að taka fram að við erum að tala um lýðræðisríkið Ísland, við erum að tala um hið lýðfrjálsa land Ísland. Þessi kafli í stjórnarskránni, VII. kafli stjórnarskrárinnar, svokallaður mannréttindakafli, er auðvitað ekki sjálfstætt plagg út af fyrir sig. Hann er kafli í allri stjórnarskránni og kaflarnir á undan útlista það nákvæmlega hvernig lýðræðið í landinu virkar og hvernig kosningar fara fram til Alþingis og hvernig Alþingi starfar, með verkaskipingu milli löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds sem eru forsendurnar fyrir því að ríki geti talist lýðræðisríki og lýðfrjálst ríki. Þess vegna þarf ekki að taka það fram í þessari grein að þetta eigi bara við um lýðfrjálst ríki vegna þess að það kemur fram í stjórnarskránni sjálfri að Ísland er þannig ríki og það vitum við auðvitað. Þess vegna erum við að tala um þetta þar sem við höfum frelsi til þess í okkar lýðræðisríki. En þó að þessi tilvísun til lýðfrjálsra ríkja eigi heima í mannréttindasáttmála Evrópu er rétt að hafa það í huga að mannréttindasáttmálinn er í og með handbók og leiðarvísir fyrir ríki sem búa ekki við slíkt skipulag og eru ekki lýðfrjáls ríki heldur þurfa á því að halda að sérstaklega sé beint til þeirra leiðbeiningum um það hvernig hlutum skuli fyrir komið í lýðfrjálsum ríkjum.
    Ég vildi nota tækifærið og koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, í tilefni af því sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði hér og í tilefni af þeirri tillögu sem hann hefur flutt um þessi atriði. Ég held að við hljótum að vera sammála um að þær skorður sem ég hef t.d. rakið séu eðlilegar og óhjákvæmilegar í samfélagi okkar. Ella verða menn að svara þeirri spurningu hvort þeir vilja leyfa t.d. ótakmarkað barnaklám, ótakmarkaðar áfengis- og tóbaksauglýsingar, ótakmarkaðan hugverkaþjófnað í nafni tjáningarfrelsis og ótakmarkaðan yfirgang gagnvart réttindum annarra og mannorði ef því er að skipta og það viljum við að sjálfsögðu ekki.
    Út af öðru atriði sem hv. þm. nefndi, þ.e. 108. gr. almennu hegningarlaganna sem hann vék máli sínu að og hefur oft nefnt, m.a. þegar 1. umr. fór fram um frv. þingflokksformannanna, verð ég að segja það sama og hæstv. dómsmrh. að ég sé ekki að nein sérstök þörf sé á því að vernda opinbera embættismenn sérstaklega umfram aðra eins og sú grein gerir ráð fyrir.