Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:42:10 (3778)


[13:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja að það er vonum seinna að ýmsir eiginleikar og afleiðingar kvótakerfisins renni upp fyrir þeim framsóknarmönnum, hv. málshefjanda Guðna Ágústssyni og fleiri. Staðreyndin er sú að frjálst framsal aflaheimilda felur í sér það ástand, þær hættur og það öryggisleysi fyrir byggðarlögin sem hér er tilefni til umræðna. Það er ósköp einfaldlega þannig að það er ekki bæði hægt að sleppa og halda. Það er ekki bæði hægt að segja: Við ætlum að auka hagræðingu í sjávarútvegi með frjálsu framsali aflaheimilda og tilfærslu þeirra á milli aðila en hins vegar stoppa svo þann tilflutning af með einhverri girðingu. Menn verða að gera þessa hluti upp við sig og ekki síst þeir sem hafa stutt þetta kerfi í bráðum 12 ár eins og framsóknarmenn hafa gert.
    Ég hef alltaf haldið því fram að forkaupsréttur væri afar takmörkuð lausn í þessum efnum, af tvennum ástæðum sérstaklega. Annars vegar vegna þess að það mundi reynast auðvelt að fara í kringum hann eins og dæmin sanna og hins vegar vegna þess að þau sveitarfélög sem mest þurfa á því að halda að halda veiðiheimildum í sínum heimabyggðum eru yfirleitt orðin svo illa sett að þau geta það ekki og það hefur reynslan líka sýnt. Dæmin af Patreksfirði, Bíldudal, Bolungarvík og víðar sanna það. Hitt er svo annað mál að ef Alþingi setur reglur þá eiga þær ekki að vera þannig gatasigti að það sé hægt að fara í gegnum þær og ef forkaupsréttur er við lýði á annað borð þá á hann að vera fortakslaus og taka jafnframt til skipa sem veiðiheimilda og það á ekki að vera hægt að fara fram hjá honum með þessum hætti ef það er vilji Alþingis að hafa þessi réttindi í höndum heimabyggðanna að tryggja veiðiheimildirnar hjá sér. Að lokum vekur þetta auðvitað ekki síst athygli á því að það er þörf á því að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og ég minni í því sambandi á frv. okkar alþýðubandalagsmanna sem liggur fyrir þinginu um það efni.