Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:50:11 (3782)


[13:50]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Jú, það er einmitt kvótanum að kenna og það er nákvæmlega upphaf málsins að það er verið að færa veiðiheimildir milli byggðarlaga en ekki skip. Það hefði ekki verið neitt vandamál að sjá til þess að forkaupsréttur á skipum yrði virtur. En vandamálið er það að menn tengja þetta kvótanum og það er verið að flytja veiðiheimildirnar á milli byggðarlaganna. Auðvitað er þetta kerfi allt saman á sömu bókina lært að það er verið að taka lífsbjörgina frá þeim byggðarlögum sem eru til vegna fiskimiðanna sem eru í nágrenni þeirra og hafa byggst upp í gegnum tíðina vegna þessara fiskimiða. Svo koma menn allt í einu með kerfi þar sem er hægt að kaupa þessi réttindi fram og til baka um landið og þannig er komið aftan að fólkinu sem hefur byggt upp sína lífsafkomu, hús og eignir á þessum stöðum sem eru til vegna byggðarlaganna. Og hér erum við auðvitað að tala um þetta grunnvandamál sem fylgir kvótakerfinu. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Stefán Guðmundsson sem samdi þetta lagaákvæði sem hér er verið að vitna í síðan að koma á eftir og segja að af því að þeir hafi verið svo seinir á sér í Vestmannaeyjum, þá hafi mátt vel skilja þetta. ( StG: Hvernig var þetta áður en kvótalögin komu, voru ekki seld skip?)
    ( Forseti (GHelg) : Forseti hlýtur að biðja þingmenn um að leyfa ræðumanni að halda áfram máli sínu.)
    Hæstv. forseti. Mér er ánægja að svara því. Auðvitað voru skip seld áður. Skipin voru notuð til að veiða fisk. En núna er jafnvel verið að kaupa kvóta á milli byggðarlaga sem aldrei er veiddur í þeim byggðarlögum heldur eru menn látnir veiða þennan kvóta annars staðar og það er allt annað en áður var. Þetta eru hlutir, hæstv. forseti, sem Alþingi þarf að skammast sín fyrir að hafa komið á og það þarf að taka þessi lög til endurskoðunar og breyta þeim í grundvallaratriðum þannig að byggðirnar allt í kringum landið sem eru til vegna fiskimiðanna fái að njóta þess sem þær eru grundvallaðar á. Þetta kerfi hefur kollvarpað því sem fólkið byggir afkomu sína á og þetta er bara einn atburður af mörgum sem við höfum horft

upp á í langan tíma sem er að gerast núna.