Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:52:35 (3783)


[13:52]
     Ragnar Óskarsson :
    Hæstv. forseti. Það er vissulega full þörf á því að taka mál sem þetta hér upp á Alþingi. Málið er mér enn ein sönnun þess að lög um fiskveiðistjórnun eru meingölluð. Í því dæmi sem hér um ræðir kemur nefnilega í ljós að með hálfgildings brögðum er auðvelt að fara fram hjá forkaupsrétti sveitarfélaganna á fiskiskipum sem til stendur að selja úr einu byggðarlagi í annað. Þannig er komið í veg fyrir að sveitarstjórn geti stuðlað að atvinnuöryggi í sínu sveitarfélagi.
    En málið er auðvitað miklu stærra. Málið snýst um núverandi kvótakerfi í heild sinni. Kvótakerfi sem tekið var upp fyrir svo sem 10 árum, átti að tryggja hvort tveggja í senn að unnt væri að byggja upp fiskstofnana og stuðla að hagræðingu í sjávarútvegi. Nú blasir hins vegar við að þessi markmið hafa mistekist í mörgum meginatriðum. Ýmsir alvarlegir ókostir kerfisins hafa á þessum 10 árum einnig komið í ljós og eru þeir ekki til að auka trú á kvótakerfið í heild sinni. Frjáls sala aflaheimilda hefur t.d. haft það í för með sér að óveiddur fiskur er nú talinn eign sífellt færri og stærri útgerðarmanna. Auðlindin færist þannig á sífellt færri hendur.
    Sala aflaheimilda hefur einnig leitt til þess að sjómenn hafa verið neyddir til þess að taka þátt í kvótabraskinu svonefnda. Þá hefur kvótakerfið illu heilli leitt til þeirrar freistingar að smáfiski er hent í sjóinn. Það eitt og út af fyrir sig er afar alvarlegt mál sem án efa hefur mun neikvæðari áhrif á uppbyggingu fiskstofnanna en hingað til hefur verið talið. Svona mætti áfram telja. Þess vegna er það enginn efi í mínum huga að kvótakerfið í núverandi mynd er algerlega ónothæft. Það nær ekki meginmarkmiðum sínum, það er óréttlátt og því lengur sem það er við lýði, þeim mun meira verður óréttlætið. Það nægir ekki að lagfæra einn og einn þátt þess heldur verður að byggja upp frá grunni og læra af mistökunum. Það er brýn nauðsyn á að hverfa frá núverandi kvótakerfi og taka upp stjórn fiskveiða með öðrum hætti en nú tíðkast. Því fyrr sem þetta er gert, því betra.