Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:57:43 (3785)

[13:57]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta ákvæði í 11. gr. núgildandi laga er komið til vegna þess að menn hafa ákveðið að taka upp stjórnunarkerfi án þess að vera tilbúnir til þess að taka afleiðingunum sem fylgja þeirri stjórnun. Afleiðingin sem menn voru að vandræðast með í lagasetningunni að koma í veg fyrir er hinn frjálsi flutningur aflaheimilda milli byggða, sérstaklega það vandamál sem skapast ef mjög mikið flyst úr einni byggð án þess að annað komi í staðinn. Til þess að mæta þessu vandamáli var þetta ákvæði sett inn í lögin þannig að sveitarfélögin gætu haft viðspyrnu ef þau hefðu bolmagn til þess að neyta forkaupsréttar. En þessu til viðbótar voru líka sett sérstök lög um Hagræðingarsjóð sem áttu að bæta úr ef sveitarfélögin hefðu ekki þessa viðspyrnu og gætu ekki brugðist við. Það var eitt af fyrstu verkum núv. sjútvrh., sem áðan talaði eins og sjútvrh. Vestmannaeyja, að eyðileggja þetta ákvæði í lögunum um Hagræðingarsjóðinn. Það var ekki þarft verk að mínu viti sem hann vann með heilsteyptum stuðningi allra þingmanna Sjálfstfl., líka þeirra sem eru af Vestfjörðum.
    En ég vil benda á ágalla í þessu lagaákvæði sem hv. frummælandi umræðunnar hefur réttilega tekið hér upp og er rétt hjá honum að vekja athygli á að það er enginn vandi fyrir þá sem vilja kaupa aflaheimildir að skrá fyrirtæki sitt í því sveitarfélagi þar sem aflaheimildirnar eru til sölu. Það sem gerist einnig við það er að þeir öðlast forkaupsrétt til annarra veiðiheimilda sem til sölu kunna að verða síðar í sama sveitarfélagi. Því ef sveitarfélag neytir forkaupsréttar þá ber því að bjóða þeim fyrirtækjum aflaheimildirnar til sölu sem eru í viðkomandi sveitarfélagi. Menn öðlast því ekki bara rétt til að taka veiðiheimildir úr byggðarlaginu sem þeir eru að kaupa heimildirnar úr heldur öðlast þeir líka forkaupsrétt til þeirra veiðiheimilda sem kunna að verða til sölu í þessu sama byggðarlagi síðar.