Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:09:10 (3789)

[14:09]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um miðlun upplýsinga um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Flm. auk mín eru hv. þm. Björk Jóhannsdóttir, Guðný Guðbjartsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.
    Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að láta gera fræðslubækling um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð.``
    Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en varð ekki útrædd. Fyrsti flutningsmaður þá var Ragnhildur Eggertsdóttir. Tillagan er nú endurflutt óbreytt.
    Ég ætla hér til fróðleiks að stikla á því allra stærsta í grg. við tillöguna auk annarra upplýsinga sem að gagni mættu koma í þessu mikilvæga máli.
    ,,Algengt er að upp komi vandamál í sambandi við eignalegan og fjárhagslegan rétt fólks við sambúðarslit eða andlát annars aðila í vígðri eða óvígðri sambúð. Við slíkar aðstæður kemur oft í ljós að það sem fólk hélt að væri réttur þess er það alls ekki. Þessar ranghugmyndir eru á lagamáli kallaðar lögvilla og þær eru sennilega til komnar vegna nokkurra lagaákvæða sem til eru um óvígða sambúð og snerta tryggingalög, skattalög og lög um húsaleigusamninga. Í þeim lögum er sambúðarfólki áskilinn réttur til bóta frá Tryggingastofnun hafi sambúð varað í a.m.k. tvö ár eða hafi sambúðarfólk átt barn saman.
    Raunveruleikinn er hins vegar sá að ef fólk í óvígðri sambúð hefur ekki gert skriflega lögformlega samninga sín á milli um eignir eða erfðaskrá getur sá sem skrifaður er fyrir eignunum farið með þær sem sína eign við sambúðarslit og ef um andlát er að ræða ganga eignir hins látna til lögerfingja hans, sem er þá ekki sá sambúðaraðili sem eftir lifir. Fólki sem býr í óvígðri sambúð verður einna helst líkt við tvo aðila sem stofna með sér fyrirtæki, fjárfesta í fasteignum og tækjum og stofna til skulda. Þegar slíta á fyrirtækinu verður hvor um sig að sanna sitt fjárframlag og gera grein fyrir sinni skuldastöðu.
    Munurinn á hjónabandi og óvígðri sambúð er í aðalatriðum þessi: Í óvígðri sambúð eru engar reglur um helmingaskipti eigna og skulda, enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks, enginn réttur til setu í óskiptu búi, engin gagnkvæm framfærsluskylda er fyrir hendi.``
    Ég vil vekja athygli á því að haustið 1991 skrifaði Svala Thorlacius lögfræðingur tvær mjög fróðlegar greinar um ranghugmyndir um óvígða sambúð og einnig ranghugmyndir um skráningu eigna, skilnað og arð. Í þessum greinum koma fram ítarlegar en hér er gert helstu annmarkar á því að leggja óvígða

sambúð að jöfnu við hjónaband enda er kannski ekki hægt að búast við því að það sé æskilegt. Hitt er annað að það er mjög mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir í hverju munurinn er fólginn og hafi möguleika á því þá ef það vill tryggja að einhverju leyti réttarstöðu sína í óvígðri sambúð að gera það eins og hægt er samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda.
    Við munum væntanlega flest eftir því og það er eitt af því sem Svala kemur inn á í fyrri grein sinni að fólk sem bjó í óvígðri sambúð áður fyrr var gjarnan gert upp þannig eða sú sambúð var gjarnan gerð svoleiðis upp að einhvers konar fébætur eða ráðskonulaun voru greidd til þeirra kvenna sem urðu illa úti við sambúðarslit. Sem betur fer eru nú komnar aðrar reglur en eftir sem áður er það allt of algengt að fólk telji sig hafa nákvæmlega sömu stöðu hvort sem það er í vígðri eða óvígðri sambúð.
    Það sem hér er lagt til að gert verði er einfaldlega að láta gera fræðslubækling um réttarstöðu fólks eftir því hvort það er í vígðri eða óvígðri sambúð þannig að öllum megi vera ljóst hvað í þessu felst. Það er auðvitað ákveðið álitamál hvar og hvernig þessi bæklingur getur síðan legið frammi og m.a. er alveg tilvalið að taka á því þegar sambúðarfólk eignast barn, að dreifa upplýsingum til þess þá. Enn fremur er ýmislegt í kerfinu, ýmis réttindi sem fólk sækir sér og má nota þegar það er í óvígðri sambúð og þá er tækifæri til að koma þessum upplýsingum á framfæri. En ég tel mjög brýnt að þessar upplýsingar liggi fyrir á mjög aðgengilegan hátt þannig að hver og einn einstaklingur, hvaða sambúðarform sem hann velur sér, hafi möguleika á því að þekkja sína stöðu því að það er einn grunnur lýðræðisríkis.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja að ein leiðin til þess að gera þetta sé einmitt að útbúa slíkan fræðslubækling með upplýsingum um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Auk þess sem ég hér nefndi þá er hægt að láta þetta liggja frammi hjá prestum, borgardómurum eða sýslumönnum þegar til væntanlegs hjónabands kemur. Það mætti einnig fela Hagstofu eða Tryggingastofnun ríkisins að koma honum til þeirra sem eru í óvígðri sambúð því auðvitað þurfa líka þeir sem ganga í hjónaband að þekkja sinn rétt og muninn á því að ganga í hjónaband annars vegar og vera í skráðri sambúð hins vegar.
    Það er einnig viðrað í þessari grg. að láta slíkan bækling fylgja skattskýrslum þeirra sem telja fram saman því að við það fyrirkomulag búum við eins og sakir standa.
    Það má einnig hugsa sér, og kemur fram í þessari grg., að nota slíkan bækling sem námsefni í samfélagsfræði í efstu bekkjum grunnskóla og/eða í framhaldsskólum. Slíkur bæklingur gæti auk þess komið að góðum notum hjá fjölskylduráðgjöf kirkjunnar. Það er ljóst að til þess að fræðslubæklingur komi að fullum notum þá má hann ekki vera á of fræðilegu máli heldur vera auðveldur og aðgengilegur öllum. Fólki þarf að vera ljóst ef það óskar eftir að tryggja betur réttarstöðu sína í hjónabandi eða óvígðri sambúð að það er ýmislegt hægt að gera til þess að ná því marki.
    Það kemur fram í grein Svölu Thorlacius að þegar þessum hugmyndum var fyrst hreyft, það var um mjög svipað leyti og þessi tillaga var flutt, voru 17.342 einstaklingar skráðir í óvígðri sambúð, þ.e. miðað við tölur 1. des. 1990. Síðan eru ýmsir sem eru ekki skráðir í sambúð af ýmsum ástæðum en þá var talað um að milli 20 og 30 þúsund manns væru í óvígðri sambúð. Það sem kannski skiptir meira máli er það að Svala fullyrðir það í grein sinni að meginþorri þessa hóps, allt að 80--90%, hafi rangar hugmyndir um réttarstöðu sína. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef rétt er og ég held að full ástæða sé til þess að líta á þetta. Tölur hafa tæplega breyst mjög mikið frá því að þetta var tekið saman en í tilefni af ári fjölskyldunnar þá hafa ýmsar nýjar upplýsingar legið fyrir og staðfest það, sem í rauninni flestir hafa vitað, að hér er mikið um að fólk a.m.k. hefji sína sambúð í óvígðri sambúð. Þó að sumir festi síðar þá sambúð með hjúskaparheiti er eftir sem áður áberandi og afgerandi munur á þessu ástandi hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.
    Það hefur einnig komið fram í þeim upplýsingum sem teknar voru saman í tilefni af ári fjölskyldunnar og þeirri skýrslu sem þá var gefin út að Íslendingar eiga hlutfallslega fleiri börn en aðrir Norðurlandabúar og það eru í mjög mörgum tilvikum börn sem fæðast í fjölskyldum eða hjá foreldrum sem eru ekki í vígðri sambúð en eru í sambúð eigi að síður. Þetta þýðir að það er enn brýnna að réttarstaða sé vel skýr og skilgreind og enginn sem velkist í vafa um hver staðan sé.
    Samkvæmt því sem kom fram í þeirri upplýsingaöflun sem fór fram í fyrra á ári fjölskyldunnar þá var á árunum 1986--1990 rúmlega helmingur barna sem fæddust talinn óskilgetinn. Það er að vísu orðalag sem við erum sem betur fer að losa okkur við, það hefur fengið á sig með réttu eða röngu neikvæða merkingu, en það eru börn foreldra sem ekki eru í hjónabandi. Stór hópur þessara barna fæðist í fjölskyldur þar sem foreldrar eru í sambúð. Það kom einnig fram í þessum upplýsingum að hin svokallaða íslenska röð á hlutunum er dálítið sérstök ef borið er saman við nágrannalöndin. Fyrst hefst sambúð u.þ.b. þegar nálgast fæðingu barns og síðan gengur par í hjónaband oft við skírn frumburðar. Þetta er nokkuð sem þýðir það að við erum með siði sem ýta undir að það er mjög stór hópur sem býr við öðruvísi réttarstöðu heldur en væri ef farin væri sú sama leið og í nágrannalöndum er. Það getur slitnað alveg eins upp úr hjónaböndum og óvígðri sambúð en þar getur líka komið til að það er mjög mismunandi réttarstaða nema gengið sé frá ákveðnum grundvallaratriðum.
    Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. Ég tel að þessi tillaga hafi fengið ágæta kynningu þegar hún kom hér fyrst fram en ég harma það að hún skuli ekki hafa fengið afgreiðslu, jafnsjálfsagt réttindamál og hér er á ferðinni. Ég vona að Alþingi sé nú reiðubúið til þess að taka hressilega á málinu og afgreiða þetta sjálfsagða mál og það með þeim hraði sem nauðsynlegur er nú miðað við á hvaða

árstíma við erum á kosningaári.
    Ég vil, hæstv. forseti, biðja um það að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. allshn.