Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:21:54 (3790)


[14:21]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég er einn af samflutningsmönnum tillögunnar og þess vegna óþarfi að lýsa beint stuðningi við hana en ég lít á þetta mál sem hluta af stærra máli sem varðar það hvað fólk er lítið frætt um réttarstöðu sína hérna og ekki síst varðandi stöðu fólks í einkalífi. Ég hef verið talsmaður þess og flutt hér á Alþingi tillögu um foreldrafræðslu og reynt að koma því að að fjölskyldufræðsla væri kennd í framhaldsskólum. Ég tel að þessum málum sé verulega ábótavant, fólk veit lítið um sína réttarstöðu varðandi einkamál og þess vegna vil ég ítreka það að það þurfi að reyna að fá þetta réttlætismál í gegn og reyndar að taka víðar til hendinni er varðar fræðslumál af þessu tagi.