Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 15:32:58 (3800)


[15:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kem eingöngu hér til að færa fram þakkir fyrir þetta þingmál, fyrst og fremst hv. 1. flm. Hjörleifi Guttormssyni og öðrum hv. flm., hv. þm. úr öllum flokkum sem hafa lagt saman krafta sína í að flytja tillögu þessa um að komið verði á fót stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Mér finnst vel við hæfi sú breyting sem lögð var til frá því að þetta mál var fyrst kynnt í fyrra að stofnuninni verði valið þetta nafn. Það eitt og sér er göfugt verkefni í sjálfu sér að halda á lofti nafni þessa mæta manns.
    Í öðru lagi vil ég taka heils hugar undir það, ég held að það sé enginn vafi á því að við höfum ekki sinnt þessum málum sem skyldi á undanförnum árum og áratugum og kemur þar margt til vafalaust, vanefni sem og hitt að meðferð þessara mála hefur verið óskipulögð innan stjórnkerfisins og engin sérstök samræming verið þar á ferðinni. Ég held að það þurfi út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um nauðsyn þess að við gerum þetta eða rökstyðja það. Það má þó nefna það auðvitað að okkur er bæði rétt og skylt að afla okkur þekkingar á okkar umhverfi og norðursvæðin umhverfis landið eru einu sinni þau sem ráða úrslitum um afkomu þessarar þjóðar og tilvist hennar í landinu.
    Ég held í öðru lagi að það sé manninum nauðsynlegt og eðlilegt á hverjum tíma að leita skilnings á umhverfi sínu, læra að þekkja það og skilja og það sé óaðskiljanlegur hluti af sambúðinni við náttúruna.
    Í þriðja lagi má nefna gildi þess einfaldlega varðandi efnahagslegan grundvöll þjóðarinnar að stunda rannsóknir á lífríkinu og náttúrunni. Það er nú einu sinni svo að við byggjum okkar efnahagslíf að yfirgnæfandi meiri hluta á nýtingu lífrænna auðlinda og auðlinda hafsins einkum og sér í lagi. Enn er það svo að um 80% útflutningstekna, þ.e. af vöruútflutningi, koma frá sjávarútvegi.
    Í fjórða lagi má nefna afleidda hagsmuni okkar sem liggja í því að þekkja þetta umhverfi og gæta réttar okkar á þessum slóðum. Maður kemst ekki hjá því að hugleiða og ekki síst núna síðustu missirin hvort við Íslendingar gætum ekki staðið allmiklu betur að vígi og verið meiri jafnokar nágrannaþjóða eins og Norðmanna hvað varðar réttarstöðu í Norðurhöfum ef við hefðum á undangengnum áratugum sinnt betur rannsóknum á þessum sviðum. Auðvitað kemur það til að nokkru leyti að við erum einfaldlega skemmra á veg komnir og eigum okkur styttri sögu sem sjálfstæð þjóð sem farið hefur með okkar utanríkismál en þeir. Norðmönnum tókst á fyrri hluta þessarar aldar og einkum fyrstu áratugunum að treysta mjög rekstrarstöðu sína á því svæði sem hér um ræðir ekki síst. En enginn vafi er á því að eftir sem áður stendur það óhaggað að það er afar mikilvægt íslensku þjóðinni að þekkja sitt umhverfi og gæta þar réttar síns.
    Ég bind vonir við að sú staðreynd að flm. þessarar tillögu eru hv. þm. úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi verði til þess að tillagan fái hér jákvæða umfjöllun og vonandi afgreiðslu. Það færi vel á því á hinu nýliðna 50 ára afmæli lýðveldisins, en á því ári hófst þessi þingvetur, afgreiddum við m.a. mál af þessu tagi.
    Ég held einnig að það sé óþarfi, hv. alþm. þekkja til málefna Háskólans á Akureyri og þeirra hluta sem þar hafa verið að gerast og í rannsókna- og menntunarumhverfinu norðan heiða og það er tvímælalaust að viðbót af þessu tagi, tilkoma vísindastofnunar af þessu tagi, mundi verða kærkomin liðsauki einmitt í þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað og stendur yfir. Ég er þess vegna sannfærður um það að tilkoma stofnunar af þessu tagi þó að hún yrði í sjálfu sér ekki mikið bákn, a.m.k. ekki í fyrstunni enda ekki til þess ætlast heldur einkum og sér í lagi til þess að halda utan um þessi mál, samræma okkar starfsemi á þessu sviði, gæti orðið mjög til góðs. Þátttaka okkar í þessum málum í alþjóðlegu samstarfi og að eigin frumkvæði mundi aukast og það yrði okkur sjálfum til hagsbóta og málefninu til góðs. Ég bind því vonir við að þó að ekki sé kannski ýkja langur tími til stefnu til afgreiðslu mála þá megi takast góð samstaða um afgreiðslu þessa máls.
    Það hversu langur tími væri svo tekinn í að undirbúa það að stofnunin kæmist á fót er sjálfsagt að ræða og e.t.v. væri hyggilegt, eins og reyndar er nú gert ráð fyrir, samber síðasta málslið tillögreinarinnar, að einhver tími gæfist til undirbúnings og stofnunin mundi hefja starfsemi að 1--2 árum liðnum frá þeim tíma að þingmálið yrði afgreitt. En aðalatriðið er að með þessu er lagt til að marka þessum málum ákveðinn farveg og ganga frá því stjórnskipulega og efnislega hvernig við stæðum að því að framkvæma rannsóknir og taka þátt í þeim verkefnum sem alls staðar í kringum okkur fá nú aukna athygli og aukna

fjármuni af hálfu nágrannaþjóðanna.
    Sem sagt, hæstv. forseti, ég vil endurtaka þakkir mínar að lokum til flm. og vona að málið fái góðan og greiðan framgang.