Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 15:40:13 (3801)


[15:40]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. tveimur ræðumönnum fyrir ágætan stuðning við þessa tillögu og góð orð í minn garð og okkar flm. tillögunnar. Ég þyrfti út af fyrir sig ekki, virðulegi forseti --- um leið og ég nefni að ég fæ kannski aðeins meiri tíma en 28 sekúndur sem eru hér í ræðupúlti --- að taka mjög langan tíma til að bæta við málið, en það er vissulega margt sem í huganum er í sambandi við það og nokkur atriði sem tengjast þeim ábendingum sem komu fram hér af hálfu þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni sem ástæða er til að víkja kannski aðeins að.
    Ég vil vekja athygli á því að flutningsmenn sem eru úr öllum þingflokkum eru einnig af flestum hornum landsins eða úr hinum gömlu fjórðungum, ef grannt er skoðað og það ætti að auka skilning á því að hér er um landsmál að ræða en ekki sérstakt kjördæmismál eða að það sé verið að ýta fram þessu máli hér til hagsbóta fyrir eitt sveitarfélag í landinu, svo er ekki. Og það finnst mér vera mjög þýðingarmikill þáttur í þessu máli að það skuli hafa tekist svo breið samstaða hér við endurflutning málsins einmitt hvað þetta snertir og að það eru jafnframt þingmenn hér sem hafa lagt sig eftir þessum málum á alþjóðavettvangi. Í hópi flutningsmanna eru ágætir fulltrúar sem þekkja það vel. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir, sem á sæti í Norðurlandaráði og hefur fylgst með þessum málum þar og á alþjóðlegum ráðstefnum og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, sem er fulltrúi Íslands í sérstakri þingmannanefnd sem sett var á laggirnar eða verið er að reyna að koma á fót í framhaldi af ráðstefnu sem forsætisnefnd Norðurlandaráðs gekkst fyrir og haldin var hér í ágúst 1993. Það eina sem hefur komið í veg fyrir að sú þingmannanefnd --- mig minnir að hugmyndin sé að í henni verði 10 fulltrúar --- er ekki komin á laggirnar er að það hefur verið tregða hjá Bandaríkjaþingi að taka þátt í þessu samstarfi. Það tengist ákveðnum viðhorfum af þeirra hálfu til Norður-Íshafssvæðisins sem er kannski svona af hernaðarlegum toga meira heldur en annað. En þó eru vonir til þess að þessi afstaða sé að breytast þannig að þessi alþjóðaþingmannanefnd um norðurmálefni komist á innan tíðar. Ég ætla a.m.k. að vona að svo verði.
    Ég sé ástæðu til að geta þessa vegna þess að norðurmálefnin eru mjög vaxandi áhugaefni á ýmsum vettvangi, þar á meðal í Norðurlandaráði. Innan Norðurlandaráðs flutti ég ásamt fleirum --- ég var raunar 1. flm. tveggja tillagna fyrir tæpum tveimur árum síðan, tillagna um heimskautasvæðið. Önnur varðaði sjálfbæra þróun á heimskautasvæðinu og umhverfisvernd sem meginsjónarhorn. Hin tillagan varðaði hernaðarmálefni og alveg sérstaklega kjarnorkuna, bæði kjarnorkuvæðingu og meðferð á kjarnorkuúrgangi að því er varðaði norðursvæðið, sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich réttilega vék að í sinni ræðu að er verulegt áhyggjuefni. Um þessar tvær tillögur var fjallað í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs þar sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir á m.a. sæti og einn af flm. og voru sameinaðar efnislega í einni tillögu og samþykktar fyrir ári síðan á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Og sem ein af afurðum þessa tillöguflutnings er skýrsla sem er að koma út núna á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um norðurheimskautssvæðið út frá norrænu sjónarhorni og mun væntanlega verða fyrirliggjandi á þingi Norðurlandaráðs sem hefst í lok þessa mánaðar hér í Reykjavík. Það með öðru sýnir að við Íslendingar getum haft áhrif á þróun þessara mála og erum að reyna að tengjast þeim alþjóðlega séð og á því er mikil þörf og full nauðsyn að svo geti orðið.
    Ég vék í máli mínu að tengslum við rannsóknastofnanir sem fyrir eru á Akureyri og að þar sé vænlegt umhverfi fyrir slíka stofnun nú þegar og eigi eftir að vaxa og dafna að því er vonir okkar standa til. Ég tel út af fyrir sig að þetta mál þurfi ekki að tengja uppbyggingu Háskólans á Akureyri sérstaklega, þ.e. að það eigi á engan hátt að draga úr okkur að þörfin er á að styrkja Háskólann á Akureyri með sérstökum hætti, eins og hér var að vikið og að þar þurfi ákveðnir þættir að hafa forgang. Stofnunin er ekki hluti, eins og tillagan er fram sett, af Háskólanum á Akureyri heldur fyrst og fremst vísað til þess að sú stofnun geti verið eðlilegur stuðningsaðili við stofnun Vilhjálms Stefánssonar og sú stofnun notið góðs af Háskólanum á Akureyri sem og öðrum vísindastofnunum þar norðan heiða. Ég nefni þetta hér vegna þeirra ábendinga og skýringa sem komu fram að hálfu hv. þm. Tómasar Inga Olrich í hans ræðu áðan varðandi ákveðin forgansefni háskólans nyrðra.
    Það má með engum hætti draga úr okkur að hrinda þessari hugmynd hér, þessari tillögu, í framkvæmd, enda veit ég að sá er ekki hugurinn sem að baki býr hjá hv. flm. Hann er auðvitað að horfa á þetta út frá víðtæku sjónarhorni og einnig þeirra takmarkana sem alltaf tengjast fjárveitingum. En við skulum hafa í huga að þetta er landsstofnun, þetta er nauðsynjamál á íslenskan mælikvarða í heild og auk þess á víðari mælikvarða alþjóðlegs samstarfs.
    Ég leyfði mér auðvitað við endurflutning málsins að hafa frekara samstarf við menn norðan heiða, þar á meðal forstöðumenn Háskólans á Akureyri. Ég átti ágætt samstarf við fráfarandi rektor skólans, Harald Bessason, við undirbúning málsins áður en það kom fyrst fram hér og átti fundi þar nyrðra með ýmsum aðilum, þar á meðal fulltrúum bæjarstjórnar Akureyrar. Eftir að tillagan var flutt þá barst mér úr fórum fyrrv. rektors Háskólans á Akureyri upplýsandi efni um það að hugmyndir höfðu verið á kreiki áður,

sem mér var ekki kunnugt um, sem voru ekki alveg ósvipaðs eðlis en meira tengdar háskólanum sem slíkum. Að þeim áttu einnig hlut góðir vísindamenn hér sunnan heiða, menn eins og Þór Jakobsson veðurfræðingur og Jóhann Axelsson, svo dæmi séu tekin. Þannig að það má sjá að hugmyndin á víðar rætur og ætti það að verða mönnum hvatning. Ég hafði einnig samráð við núv. rektor Háskólans á Akureyri sem tók þar við starfi á sl. ári og fékk frá honum hvatningu um að flytja málið sem næst með litlum breytingum, en gaf mér þó gagnlegar ábendingar þar að lútandi og taldi einmitt í bréfi sem ég sendi honum að einn helsti kostur þessarar tillögu væri sá að þar er gert ráð fyrir stofnun sem stundi þverfaglegar rannsóknir á norðurslóðum og tengi saman aðila sem vinna að slíkum rannóknum og að þverfaglegt eðli, eins og hann segir í bréfi til mín ,, . . .  er einkenni þeirra norðurstofnana sem náð hafa hvað lengst í öðrum löndum.`` Og fleira gagnlegt kom þar fram.
    Ég sá það einnig við undirbúning málsins þar sem Morgunblaðið átti viðtal við rektor háskólans, raunar áður en hann tók til starfa, þar sem Þorsteinn Gunnarsson segir, með leyfi forseta, þetta er tilvitnun í viðtal í Morgunblaðinu 18. maí 1994:
    ,,En mér er engin launung á því að ég vil efla rannsóknir innan Háskólans og einnig alþjóðlegt samstarf hans.`` Og það vísar auðvitað til þess að sá alþjóðlegi þáttur sem tengist þessari hugmynd hér mun auðvitað einnig gagnast öðrum vísindastofnunum þar nyrðra, þar á meðal setri Náttúrufræðistofnunar Íslands sem þar er starfandi og sem við sumir, flutningsmenn þessa máls, áttum nokkurn hluta að að undirbúið var á sínum tíma ásamt góðri þátttöku þáv. sveitarstjórnarmanns norður á Akureyri, Tómasar Inga Olrich, sem ég minnist með hlýhug og ánægju heimsókna þegar það mál var í deiglunni. Mál sem átti kannski ekki alveg rakta leið í gegnum kerfið, ef svo má segja, en var í eðli sínu gott mál og þess vegna tókst að vinna því það fylgi hér á Alþingi sem þurfti til ákvörðunar.
    Svo ætla ég að vona, virðulegur forseti, að verði einnig með það mál sem hér er flutt og vænti þess að hv. umhvn. taki það til velviljaðrar skoðunar hvort ekki sé hægt að ná samstöðu um afgreiðslu málsins fyrir þinglok og skil ég þá eftir á fimmtu mínútu af mínum tíma þó margt sé órætt. Takk fyrir, virðulegur forseti.