Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 16:18:21 (3805)


[16:18]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað lýsa yfir ánægju minni með að þessu máli skuli vera hreyft hér á Alþingi og raunar búið að leggja fram þetta frv. í desember sl. Hins vegar hafa þeir

atburðir sem gerst hafa hér á landi og sérstaklega á Vestfjörðum hinar síðustu vikur orðið til þess að ýta enn frekar við því að þetta mál verði afgreitt nú.
    Það eru í raun aðeins tvær lagagreinar sem með þessum brtt. er verið að leggja til að verði breytt. Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um það. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, að ég tel að það þurfi að skoða þetta heildarskipulag því ég tel að það séu of mörg ráðuneyti og þar af leiðandi of margir ráðherrar, sem fara með þessi mál. Hann nefndi áðan að það væru þrjú ráðuneyti sem færu með þetta. Ég held jafnvel, eftir því sem mér sýnist á þessari skoðun, að þá séu þau fjögur því að ofanflóðasjóður er hjá Viðlagatryggingu Íslands og viðlagatrygging heyrir undir heilbr.- og trmrh. Þannig að hugsanlega eru þau þá jafnvel fjögur. Hins vegar heyrir þessi lagasetningin sem við erum hér að ræða undir hæstv. félmrh.
    Það er búið að segja svo margt og mikið í þessari umræðu. Þetta er í annað sinn sem þetta er tekið hér til umræðu, það tókst ekki að ljúka þessu á miðvikudaginn. Hér hefur margt verið sagt um þetta og talað bæði um að auka þurfi eftirlit, gera nýtt hættumat og auka fræðslu. Þetta er auðvitað allt saman rétt, en ég vil í framhaldi af því varpa fram þeirri hugmynd hvort þegar hættumat hefur verið sett á blað og úrskurðað þá séu það ekki aðeins sveitarstjórnir sem viti um það hættumat heldur sé gefið út kort um þetta, hvort það mundi ekki heyra hugsanlega undir Landmælingar ríkisins að gera kort um þá staði sem hættulegir verða þá taldir. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt í sambandi við allt eftirlit og fræðslu til fólks að gera fólki það ljóst hvar hættumörkin eru. Þó við getum aldrei dregið neinar ákveðnar línur þá er það þó betra að hafa það skýrt á korti fyrir framan sig hvar hættan er, þó, eins og ég segi, hugsanlega sé aldrei hægt að draga neinar skarpar línur um það, það hefur reynslan kennt okkur.
    Í 2. gr. 4. lið er talað um að það megi greiða allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Síðan kemur setning sem ég vildi fá aðeins betri skýringar á og hún er svo, með leyfi forseta:
    ,,Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.``
    Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hún skilur þessa grein. Er þetta kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum til þess að búa til varnir fyrir ofan eða á þeim stað sem fasteignirnar eru eða er þetta til þess að rýma það hættusvæði sem þessar fasteignir eru hugsanlega á? Eða með öðrum orðum er hér átt við það, getur það falist í þessari grein að hægt sé að kaupa upp fasteignir vegna þess að þær séu liður í varnaraðgerðum?
    Hér hefur verið hækkað nokkuð það hlutfall sem ofanflóðasjóði verður heimilað að greiða af kostnaði við þetta allt saman og raunar nokkuð bætt við þau ákvæði sem ofanflóðasjóður má greiða. Ég býst nú við að þetta verði skoðað mjög vel í nefndinni þannig að ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það. Hugsanlega er eitthvað fleira sem hér mætti taka fram um það hvað heimilt er að greiða kostnað af úr ofanflóðasjóði. Ég vil líka beina því til nefndarinnar að hún skoði þetta rækilega einnig með tilliti til skriðufalla. Við erum hér á hinu háa Alþingi mjög upptekin af því að ræða um snjóflóð af því að við höfum nýverið upplifað þau. Núna er sú árstíð þegar helst er hætta á þeim og einmitt það verðurfar nú, en við skulum ekki gleyma því að þetta þarf einnig að eiga við skriðuföll og hugsanlega þarf þá að skoða þessa grein einnig betur út frá því.
    Það væri auðvitað hægt að segja margt og mikið en mér finnst miðað við allar aðstæður og það sem hér hefur gerst á undanförnum vikum að þá sé búið að segja svo margt um það að það sé ekki miklu við að bæta. Ég held að öll þjóðin sé meðvituð um að það þarf að taka á þessum málum, þessum snjóflóðamálum og hættumati í framhaldi af því og hvað við eigum að gera. Það er alveg ljóst að við höfum hugsað allt of lítið um þessi mál. Þau lög sem til eru í dag eru frá árinu 1985 og þess vegna ekki nema tæp tíu ár síðan að lög voru sett hér á Alþingi um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Verður það að teljast nokkuð undarlegt í ljósi þess í hvernig landi við búum.
    Það má einnig minna á að við höfum miðað hættumat og hugsanlega leyfðar byggingar með því að skoða 50 ár aftur í tímann. Hafi ekki fallið nein snjóflóð eða skriður á viðkomandi svæði síðustu 50 ár þá hefur verið leyft að byggja þar, en í Noregi miða þeir við 1.000 ár. Þannig að við erum a.m.k. ekki í takt við það sem Norðmenn gera í þessum málum.
    Að lokum vil ég, virðulegur forseti, aðeins nefna það að þrátt fyrir að við reynum að finna varnir og byggja varnir þar sem það er hugsanlega tilgangur með því, og erum þar með að segja að við getum verið öruggari fyrir þessum náttúruhamförum sem eiga sér stað fyrirvaralaust, án þess að hægt sé að gera ráð fyrir þeim, þá megum við samt ekki leiðast út í þá umræðu að á þeim stöðum þar sem slíkar hamfarir hafa átt sér stað sé ekki búandi. Ég vil bara benda í því sambandi og reyna að láta fólk hugsa svolítið út fyrir Ísland. Við höfum undanfarna daga hlustað á fréttir af vatnavöxtum í Hollandi og á meginlandi Evrópu. Þar hafa í kringum 300 þúsund manns þurft að yfirgefa heimili sín vegna vatnavaxta og það er meira heldur en allir íbúar á Íslandi. Ég hygg að engum detti samt í hug að segja að það sé ekki búandi í Hollandi.
    Hvað varðar það að við höfum hugsanlega leyft byggingar á því sem við í dag erum að uppgötva að sé hættusvæði þá hefur þetta einnig gerst hjá öðrum þjóðum því að í Hollandi eru menn nú að tala um það að þeir skilji ekkert í því að það skuli hafa verið leyfðar byggingar svo nálægt þeim svæðum þar sem

gætu orðið vatnavextir. Þannig að þó að við séum mest upptekin af því sem hefur gerst hjá okkur og er sannarlega ástæða til og ég vona svo sannarlega að við þurfum ekki að upplifa það aftur, þá er það nú einu sinni svo að við búum í landi þar sem náttúruhamfarir af ýmsum toga hafa verið í gegnum aldirnar og ef við ætlum að búa í þessu landi þá verðum við að sætta okkur við að það geti komið. En við þurfum að vinna miklu betur að því hættumati sem hér hefur verið rætt. Það er úrelt eins og það er í dag. Það hefur ekki verið unnið nægilega mikið í þessum málum. Til þess þarf að taka verulega á þessu máli og ég treysti því að það verði gert.