Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 16:59:30 (3810)


[16:59]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að draga þessi efni upp sem deiluefni hér. Ég taldi víst og hafði í raun reiknað með því að menn mundu einnig endurskoða þessa þætti jafnhliða öðru í ljósi þess sem hefur gerst núna á þessum vetri. Ég vil bara nefna að það er ekki mjög hvetjandi fyrir þær stofnanir sem eiga að teljast ábyrgar í þessum efnum að gengið sé alveg þvert á þeirra niðurstöður, þeirra ráðleggingu í sambandi við pólitískar ákvarðanir í þessu efni. Það er ekki hvetjandi. Það er ekki skynsamlegt gagnvart almenningi að halda þannig á máli. Það er ekki bara um það að ræða að það sé útivistarsvæði heldur er spurningin um uppbyggingu fasteigna. Það er jafnframt spurningin um tryggingu fasteigna. Ætla menn að ganga þessa götu áfram að byggja fasteignir á svæðum þar sem snjóflóð hafa sannanlega fallið og raunar valdið stórtjóni eins og í þessu tilviki? Ætla menn að gera það og senda svo bara reikninginn á almannasjóði, viðlagatryggingu? Er þetta gatan sem menn ætla að ganga? Ég spyr. Hvað er það löngu fyrir 15. apríl sem eru mörkin fyrir dvöl á umræddu útivistarsvæði? Hvar eru mörkin? 15. apríl, minnir mig. Var það ekki 10 dögum áður sem þarna hljóp þetta stóra snjóflóð? Það er ekki lengra síðan en í fyrra. Menn eru fljótir að gleyma og menn ætla seint að læra, því miður.
    Ég held að einnig þessar ákvarðanir þurfi endurskoðunar við með fullri virðingu fyrir tilfinningu manna og öllum aðstæðum.