Fjöleignarhús

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 18:15:48 (3824)


[18:15]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. 4. þm. Austurl. getum verið sammála um það að okkur beri að vernda rétt allra, hvort sem þeir eru sammála okkur eður ei. Þar af leiðandi fer ég fram á að hann virði þær ábendingar sem ég hef komið með í framsögu minni þar sem það er alveg ljóst að samkvæmt orðanna hljóðan nú getur íbúi án þess að greina nokkuð frá nokkrum ástæðum komið í veg fyrir að íbúi í sama stigagangi, e.t.v. stórum stigagangi, sem heldur kött og hleypir honum aldrei út fyrir íbúðina, fái að hafa sinn kött í friði. Það eru til sem betur fer önnur lög, m.a. um dýravernd, reglur um hundahald sem hefur svolítið komið til umræðu, sem á margan hátt vernda rétt þeirra sem telja sig verða fyrir óþægindum eða hafa áhyggjur af velferð dýranna. Eins og ég gat um er það því miður ekki úr lausu lofti gripið að hafa áhyggjur af þessu. Það er fólk sem er mjög vel kunnugt þessum málum sem hefur komið með ábendingar um þetta og þar eru dýralæknar framarlega í flokki og ég hef fulla ástæðu til þess að taka mark á orðum þeirra.
    En ég held að bæði ég og aðrir sem samþykktum þessa brtt. höfum haft hagsmuni þeirra sem eru astma- eða ofnæmissjúkir sérstaklega í huga og ekki gætt að okkur sem skyldi.