Fjöleignarhús

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 18:18:04 (3825)


[18:18]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er nú svo að það geta verið ýmis fleiri atriði en hér er verið að leggja til breytingu á sem eru álitaefni í þessum efnum og einnig ákvæði sem varða ekki ákvæði dýraverndarlaga. Ég held að það þurfi að ríkja þokkaleg sátt í sambýlishúsum, fjöleignarhúsum, að það reynir auðvitað á það í hópnum sem í hlut á. Ég held að þau tilvik séu nú tæpast mörg þar sem menn af meinbægni vilja standa á móti þessum sjónarmiðum ef ekki eru gildar ástæður fyrir því. En það getur verið fleira en ofnæmi eða heilsufarslegar ástæður, það getur verið spurning um almenn þrif og umgengnisreglur sem er betra að menn hafi þar svona ákveðinn rétt og granninn þurfi að geta varið sig með eðlilegum hætti. Ég minni á að ýmislegt sem mönnum þykir gott er verið að taka á í samfélaginu vegna þess að það veldur óþægindum eða hugsanlega sjúkdómum. Reykingarnar eru þar eitt ágætt dæmi þar sem menn ganga býsna langt í löggjöf.