Húsnæðisstofnun ríkisins

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 18:21:59 (3827)

[18:21]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferð mjög einfalt frv. sem ég hygg að gæti orðið allgóð sátt um. En þetta frv., sem er að finna á þskj. 332, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, er flutt af öllum þingkonum Kvennalistans. Og frv. er stutt, 1. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á eftir 1. mgr. 79. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Breytist aðstæður kaupenda verulega er heimilt að endurmeta ákvörðun um vexti lána hans hvenær sem er á samningstímanum sæki kaupandi um það.``
    Og 2. gr. er svohljóðandi: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Þegar lög um Húsnæðisstofnun ríkisins voru endurskoðuð ítarlega fyrir fjórum árum var tekin sú ákvörðun að endurskoða vexti á félagslegum íbúðum eftir sex ár með tilliti til tekna og eigna íbúðarkaupanda. Ef hann fór yfir ákveðin tekju- og/eða eignarmörk átti hann að greiða sömu vexti og voru á öðrum húsnæðislánum. Hins vegar var ekkert svigrúm til að lækka vextina aftur ef breytingar urðu á högum íbúðarkaupenda til hins verra á nýjan leik.
    Þegar lög þessi voru endurskoðuð hafði atvinnuleysi lítt stungið sér niður hér á landi og raunveruleiki flestra var sem betur fer að bættur fjárhagur væri alla vega í flestum tilvikum varanlegur. Miðað við þann raunveruleika var þetta ákvæði sett í lögin.
    Nú eru aðstæður breyttar í þjóðfélaginu. Dæmi eru um fólk sem fór yfir tekju- og/eða eignamörk að sex árum liðnum frá húsnæðiskaupunum en er nú atvinnulaust og á fullt í fangi með að standa í skilum með afborganir af húsnæði sínu þótt í félagslega kerfinu sé. Það hefur enn minni möguleika á að greiða fulla vexti af lánum sínum. Því býðst sjaldan önnur úrlausn en greiðsluerfiðleikalán. Sú lausn er skammgóður vermir enda hefur það sýnt sig að helmingur slíkra lána var í vanskilum undir árslok 1994.
    Ýmsir þeirra, sem búa við atvinnuleysi og berjast við að halda húsnæði sínu, gætu ráðið við að greiða vexti þá sem bjóðast í félagslega íbúðakerfinu í takt við raunverulegar tekjur og eignir. Því benda flm. frv. á þessa réttlátu leiðréttingu sem unnt er að gera innan gildandi kerfis án mikilla vandkvæða en til ómældra hagsbóta fyrir þá sem standa höllum fæti vegna tekjurýrnunar og eru með skuldabagga á bakinu vegna íbúðarkaupa.
    Virðulegi forseti. Ég er með örlitlar upplýsingar um það um hve stóran hóp hér er að ræða en hér mun um að ræða alls 233 íbúðir eða 7.7% af þeim íbúðum sem eru í þessu kerfi. Og af þessum 233 aðilum eru 90 í vanskilum eða voru núna rétt fyrir áramótin. Þetta eru nærri því 40% af þeim hópi sem hefur verið metinn upp í hærri vexti. Það hlýtur auðvitað að segja okkur þá sögu að þeir ráða ekki við þá vexti sem voru hækkaðir og til þess eru ýmsar ástæður. Þetta eru hækkanir sem hafa orðið á þremur árum og þetta eru engir gríðarvextir en þarna er hins vegar oft og tíðum um að ræða fólk sem hefur eignast sínar íbúðir í félagslega kerfinu vegna þess að það hefur haft tiltölulega lítið svigrúm. Það hefur e.t.v. tímabundið farið upp í tekju- eða eignamörkum og mér er t.d. kunnugt um eitt tilvik þar sem það var, eins og sá aðili orðaði það, ,,bíldrusla`` sem hækkaði eignamörkin upp í það að það var metið svo að sú fjölskylda stæði undir hækkuðum vöxtum.
    Nú stendur svo á að í því tilviki t.d. er ekkert annað til skiptanna en atvinnuleysisbætur. Þarna eru börn á heimili og þarna er einfaldlega um fólk að ræða sem stefnir hraðbyri í mjög erfiða stöðu. Það er tiltölulega einfalt að leysa þetta mál. Ég er ein þeirra sem tóku þátt í þessari endurskoðun á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins og ég verð að viðurkenna það að ég sá þetta ekki fyrir á þeim tíma og ég tel að það hafi verið fleiri sem ekki sáu það fyrir að þarna yrði e.t.v. um ákveðið misgengi að ræða svo að ég grípi til orðs sem áður hefur verið notað í þessari umræðu sem alltaf hefur verið um möguleika fólks til að afla sér húsnæðis.
    Hér er ekki um háar upphæðir að ræða fyrir ríkissjóð en það er alveg áreiðanlega um að ræða upphæðir sem geta skipt sköpum hjá þessum fjölskyldum. Það velur sér enginn það hlutskipti að geta ekki staðið í skilum og það velur sér enginn það hlutskipti að þurfa að taka greiðsluerfiðleikalán og það hefur því miður verið pottur brotinn í því að fólk hefði möguleika á að standa í skilum með slík lán.
    Ég held að það sé kannski ekki ástæða til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Mér finnst það tiltölulega einfalt. Ég treysti því að með velvilja verði hægt að koma þessu máli í gegn. Ég hef einnig fengið viðbrögð m.a. frá fólki innan kerfisins ef ég má svo orða sem vill gjarnan sjá þessar breytingar verða og það er fólk sem þekkir til og veit að þessi leiðrétting er bæði mjög einföld og skynsamleg og rökin held ég að séu slík að það sé ekki ástæða til annars en taka þetta til greina.
    Ég tek það sérstaklega fram að þarna er einungis verið að tala um að fólk hafi möguleika á því að sækja um að fá breytingar og endurmat á þessari ákvörðun um vaxtahækkun. Ég held að það þurfi ekki nokkur maður að óttast að hér verði um neina misnotkun að ræða, heldur þvert á móti að það verða allir fengir ef þeir hafa slíka lausn í höndunum.
    Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.