Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:47:00 (3833)


[10:47]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hertar reglur á bændur, lækkað kaup til bænda. Svik á fyrirheitum upp á hundruð milljóna í tíð núv. ríkisstjórnar, nýjum möguleikum er ekki svarað á neinn hátt þannig að landbúnaðurinn býr við meiri óvissu en nokkru sinni fyrr.
    Hvað þetta atriði varðar sem hér er rætt utan dagskrár þá er það eitt dæmið enn. Að vísu skil ég Áburðarverksmiðjuna. Hún verður að mæta hinni erlendu samkeppni og verja sinn markað. En ég tel hins vegar hiklaust að Áburðarverksmiðjan verði að hafa allar hafnir inni í dæminu, það verði að koma jöfnunarpunktur á Selfoss eða Þorlákshöfn og eins hér á Vesturland, Akranes til þess að mæta og menn búi við sömu kjör. Ég hvet því hæstv. landbrh. að taka það upp að það verði punktur alveg eins og Höfn í Hornafirði, Seyðisfjörður, Húsavík, Akureyri, Sauðárkrókur, Ísafjörður og Sunnlendingar njóti þess að eiga þó þessa ágætu höfn í Þorlákshöfn. Ég hef í rauninni miklu meiri áhyggjur, hæstv. landbrn., af þeirri stefnu sem hefur verið fylgt í tíð núv. ríkisstjórnar. Samdrátturinn í landbúnaðinum ógnar ekki bara Áburðarverksmiðjunni. Við eigum gríðarlega möguleika og því er ekkert mikilvægara nú en að marka nýja framsýna landbúnaðarstefnu sem tekur mið af þeim gríðarlegu möguleikum sem íslenskur landbúnaður á í breyttum heimi. Þá mun Áburðarverksmiðjan dafna. Þá munu kjör íslenskra bænda batna o.s.frv.