Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:49:23 (3834)


[10:49]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það var dálítið furðulegt að heyra hv. 3. þm. Suðurl. koma hér upp og kvarta yfir afleiðingum af þeim samþykktum sem hann er búinn að gera. Það var núv. ríkisstjórn sem breytti skipulagi á áburðarverslun hér á landi, skipulagi sem samkvæmt upplýsingum hæstv. landbrh. hefur leitt til þess að á síðustu 10 árum hefur áburðarverð lækkað svo að það er aðeins 57% af því sem það var þá. En við breytt skipulag núverandi ríkisstjórnar neyðist Áburðarverksmiðjan til þess að fara að hugsa um markaðinn, berjast fyrir markaðnum í samkeppni við innflutning þar sem innfluttur áburður er á sama verði á öllum höfnum. Þá eru því miður þau sjónarmið sem verða ofan á og þau sanngirnissjónarmið sem hv. 3. þm. Suðurl. nefndi og hefur verið fylgt hingað til að ekki er lengur möguleiki að halda þeim uppi. En vissulega má segja að það sé hagur allra bænda að Áburðarverksmiðjan haldi hlut sínum og ekki komi aðrir inn á markaðinn hér því að ef þannig færi og það yrði farið að flytja inn áburð í stórum stíl raskast rekstrargrundvöllur hennar að sjálfsögðu og framleiðslukostnaðurinn færi upp úr öllu valdi. En fyrst og fremst, það sem gerst hefur hér er bein afleiðing af samþykktum hv. 3. þm. Suðurl. og annarra stjórnarliða.