Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:51:39 (3835)


[10:51]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Þegar við ákváðum að gerast aðilar að EES-samningnum var náttúrlega kveðinn upp dómur yfir Áburðarverksmiðjunni. Það er tímaspursmál hve lengi hún lifir. Hæstv. landbrh. hefur verið að láta sér detta í hug að framleiða þar sink í því húsnæði sem Áburðarverksmiðjan ræður yfir núna og framtíð hennar er mjög óviss, þ.e. framtíð hennar er ekki björt. Mér finnst hins vegar alveg óþarfaupphlaup hjá hv. 3. þm. Suðurl. að fara hér í utandagskrárumræðu út af þessu atriði. Hann segir að mismununina verði að leiðrétta. Ég tel að það sé eðlilegt að flutningsjafna vöru eins og áburð þannig að hann sé á sama verði hvar sem er á landinu með sömu rökum eins og olíu og annað slíkt og ég tel að það sé þakklætisvert hjá Áburðarverksmiðjunni ef hún reynir að vinna í þessum anda.