Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:53:05 (3836)


[10:53]
     Árni Johnsen :

    Virðulegi forseti. Það var með ólíkindum að heyra hv. þm. Jón Helgason, fyrrv. landbrh., tala um það að Áburðarverksmiðjan gæti ekki sýnt sanngirni í verðlagningunni og reyna að færa rök fyrir því, hreint ótrúlegt vegna þess að þau lög sem hafa verið samþykkt um Áburðarverksmiðjuna, um breytingu á Áburðarverksmiðjunni yfir í hlutafélag, segja ekkert um það að stjórn verksmiðjunnar geti ekki sýnt sanngirni í verðlagningu á vörunni. Ekkert annað. Það er ótrúlegt að þingmaður Sunnlendinga skuli tala svona. En eins og flestum er kunnugt var Áburðarverksmiðju ríkisins breytt í hlutafélag sumarið 1994, gert vegna EES-samninga og þar sem ekki var í rauninni rúm til þess að einokunarverslun væri með áburð og ekki í anda samningsins.
    Hér áður fyrr var stunduð víðtæk byggðastefna eða styrkjastefna í gegnum áburðarflutningsjöfnun út á land. Einu bændur þessa lands, sem fengu borgað fyrir þessa styrkjaleið voru bændur sem bjuggu ekki nálægt höfnum, þ.e. eins og ég vék að í fyrri ræðu minni, í Kjós, á Kjalarnesi, Borgarfirði, Árnessýslu og Rangárvallasýslu þar sem Þorlákshöfn er ekki talin höfn í skilningi Áburðarverksmiðjunnar. Það er hugsað um þetta mál á þeim nótum að þeir bændur sem lengst eiga að sækja að höfnum eða allt að 180 km eigi að fá jöfnunarstyrk. Þess vegna var líka furðulegt að heyra hv. þm. Pál Pétursson tala um það að þessi málflutningur byggðist ekki á því að það ætti að jafna áburðarverð, sem hann mælti með, því að þessi umræða er eingöngu til þess að stuðla að jöfnun og sanngirni í þessum efnum.
    Það er alveg augljóst líka að lækkun Áburðarverksmiðjunnar á verði, 3,5%, er hækkun til þeirra bænda sem ég hef nefnt hér sérstaklega í ákveðnum héruðum landsins. Það er hækkun. Það kemur mér ekkert á óvart að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson komi af fjöllum eins og svo oft í mörgum málum en um þetta snýst málið. Menn geta skoðað þessar einföldu tölur og lagt þær á borðið ef Áburðarverksmiðjan ætlar að semja við dreifingaraðila og bændur, auðvitað ætlar hún að gera það.
    Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að ef landbrh. beitir sér ekki í þessu efni til leiðréttingar, og ég vona að hann hlutist til um það, þá verður að hvetja sunnlenska bændur til þess að flytja inn áburð beint erlendis frá á hagstæðara verði og það er ekki til góða fyrir Áburðarverksmiðjuna á Íslandi eða íslenskan iðnað yfirleitt.