Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:56:10 (3837)


[10:56]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það var alger uppspuni sem hv. 3. þm. Suðurl. hóf ræðu sína á að ég hefði talað um breytingu á Áburðarverksmiðju ríkisins úr beinu ríkisfyrirtæki yfir í hlutafélag. Ég minntist ekki einu orði á það. En veit ekki hv. 3. þm. Suðurl. að hann samþykkti samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem kippti fótum undan því skipulagi sem hér hefur ríkt í áburðarsölumálum með þeim árangri sem náðst hefur? Er það rangt að hann viti það ekki? ( ÁJ: Það er rangt hjá þingmanninum.) Nei, það er ekki rangt. ( ÁJ: Alrangt.)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki frammíköll.)
    Þá held ég að hv. þm. viti ekki hvað hann hefur verið að samþykkja því að a.m.k. hafa þau rök verið færð fyrir því að afnema einkarétt Áburðarverksmiðjunnar á áburðarsölu að það sé skylda samkvæmt EES-samningnum. Það er fróðlegt ef hæstv. landbrh. vill lýsa því yfir að það sé rangt og vænti ég að hann geri það í sinni ræðu hér á eftir. (Gripið fram í.)