Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:57:36 (3838)


[10:57]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað gerðu samningarnir um hið Evrópska efnahagssvæði það óhjákvæmilegt að innflutningur á áburði yrði leyfður. Þannig stóðu málin fyrir síðustu kosningar þegar hv. þm. Jón Helgason stóð að stuðningi sínum við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og það var ekki einhver uppfinning ríkisstjórnarinnar sem nú situr að bæta því inn í samningana. Því hafa allir þingflokkar fyrir utan Kvennalistann staðið að því að málin yrðu með þeim hætti ef málið er skoðað með réttum hætti.
    Ég legg áherslu á að áður hefur verið nokkur flutningsjöfnun á áburði hér á landi. Auðvitað má deila um það hvernig menn eigi að setja upp verð og annað þvílíkt. Kjarni málsins er sá að stjórn Áburðarverksmiðjunnar er að reyna að rata þann meðalveg sem tryggir að hún sé samkeppnisfær við innfluttan áburð. Auðvitað er alltaf hægt að segja við hvaða höfn sem er: Ef ég næ ekki þessu fram þá kaupi ég erlendan áburð. Það er auðvitað létt verk að segja það. En þetta er sá vandi sem Áburðarverksmiðjunni er á höndum og ég hygg að sú lausn sem hún hefur fundið sé viðunandi enda felur hún í sér verðlækkun á áburði til allra bænda á landinu, líka til sunnlenskra bænda. Það er athyglisvert að þessi árangur skuli nást þrátt fyrir það að ýmis rekstrarkostnaður hafi hækkað á sl. ári. Þannig hækkar t.d. raforka til Áburðarverksmiðjunnar um um það bil 25% frá janúarmánuði 1994 til janúarmánaðar 1995.
    Ég vil svo að síðustu leggja áherslu á að auðvitað er það ekki mál sem verður rakið á Alþingi hvaða samningum Áburðarverksmiðjan hefur náð eða einstakir umboðsaðilar við Áburðarverksmiðjuna og auðvitað hafa umboðsaðilar á Suðurlandi nokkurt svigrúm til þess að bjóða viðskiptavinum sínum að flytja

áburðinn heim að sínum bæjarvegg ef þeim svo sýnist og þeir telja það hagkvæmt, einnig norður.