Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 11:03:04 (3842)


[11:03]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu er beiðni hv. þm. Ragnars Arnalds o.fl. þingmanna um skýrslu um framkvæmd búvörusamningsins sem undirritaður var 11. mars 1991. Skýrslan liggur nú fyrir og er hér til umræðu.
    Ég þarf ekki að rekja í smáatriðum efni samningsins né aðdragandann að því að hann var gerður. Pólitíski þrýstingurinn vissi að því að fella niður útflutningsbætur enda höfðu þær verið veittar í óhófi og án þess að nokkur hliðsjón væri höfð af því að öðrum þræði yrði byggur upp viðundandi markaður. Aðilar vinnumarkaðarins þrýstu á um hagræðingu og lækkað vöruverð og bændur gerðu sér grein fyrir því að aðstæður voru að breytast og kölluðu á uppstokkun og breyttar áherslur. Í þessu ljósi var skipuð sjö manna nefnd landbrn., aðila vinnumarkaðarins og Stéttarsambands bænda í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1990. Sú nefnd skilaði tillögum sínum í ársbyrjun 1991 sem búvörusamningurinn var síðan byggður á. Meginefni samningsins fólst í aðlögun sauðfjár- og mjólkurframleiðslu að innlendum markaðsþörfum, afnámi útflutningsbóta, breyttu fyrirkomulagi við framleiðslustýringu og upptöku beinna greiðslna til bænda í stað niðurgreiðslna á heildsölustigi. Þá voru sett ákveðin markmið um verðlækkun kindakjöts samkvæmt skilgreindum framleiðnikröfum.
    Samningurinn kvað jafnframt á um það hvernig sauðfjárframleiðslan skyldi aðlöguð markaðsaðstæðum á tveimur árum með uppkaupum ríkisins á fullvirðisrétti og flatri skerðingu að því marki sem uppkaupin dygðu ekki til. Um nánari útfærslu á aðlögun mjólkurframleiðslunnar og framleiðnikröfur í þeirri grein var síðan samið í ágúst 1992. Spurt er um hvernig til hafi tekist um framkvæmd samningsins og um að ná markmiðum hans.
    Þegar við nú lítum til baka yfir þau tæp fjögur ár sem liðin eru af samningstímanum er auðvelt að meta árangurinn á sumum sviðum en annað er óljósara eins og fram kemur við lestur skýrslunnar. Með búvörusamningnum skuldbatt ríkissjóður sig til að kaupa fullvirðisrétt allt að 3.700 tonnum og greiða förgunarbætur fyrir allt að 55.000 fjár. Í því efni var miðað við að heildarfullvirðisrétturinn væri allt að 12.000 tonn að meðtöldum þeim framleiðsluheimildum sem ekki voru nýttar til framleiðslu vegna leigusamninga við Framleiðnisjóð eða fjárleysis vegna riðuniðurskurðar. Miðað var við að ríkissjóður keypti fullvirðisrétt þannig að eftir stæðu 8.300 tonn sem var þá nálægt innanlandsneyslu kindakjöts. Ef þessi markmið næðust ekki með kaupum á fullvirðisrétti skyldi koma til niðurfærsla á öllum fullvirðisrétti. Það var von aðila að sem minnst þyrfti til þess að koma.
    Reyndin varð sú að keypt voru út 1.956 tonn en niðurfærður réttur nam samtals 1.706 tonnum. Í raun var stór hluti þeirra 1.956 tonna sem keypt voru út hrein niðurfærsla þar sem margir bændur kusu heldur að selja hluta af rétti sínum til að fá hærri bætur en greiddar voru fyrir niðurfærslu.
    Í þessum tölum komu e.t.v. fram mestu vonbrigðin hvað samninginn varðar. Samningsaðilarnir höfðu gert sér vonir um að sá fullvirðisréttur sem var óvirkur vegna leigu til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eða þar sem skorið hafði verið niður við riðuveiki mundi að stórum hluta skila sér í sölu þannig að flöt skerðing yrði lítil. Þetta gekk ekki eftir enda tæplega raunhæfar væntingar, sérstaklega á þeim svæðum þar sem fjárlaust var vegna niðurskurðar en sauðfjárræktin var að öllu eðlilegu meginstoð landbúnaðar. Vegna áframhaldandi samdráttar í neyslu kindakjöts hefur greiðslumark sauðfjárbænda verið skert árlega eins og fram kemur á bls. 6 í skýrslunni. Það sést að greiðslumark þessa árs er að meðaltali 29% lægra en virkur fullvirðisréttur var haustið 1991.
    Vissulega hefur framleiðendum með kvóta fækkað nokkuð eða úr 3.300 í 2.700 á tímabilinu en það eru einkum smáframleiðendur og menn í þéttbýli sem hætt hafa. Þannig að sú skerðing sem taflan sýnir kemur að langmestu leyti fram í smækkun sauðfjárbúanna.
    Með búvörusamningnum voru viðskipti með greiðslumark gefin frjáls. Reyndin hefur þó orðið sú að sáralítil sala hefur átt sér stað á sauðfjárgreiðslumarki eins og fram kemur í töflu á bls. 8 í skýrslunni. Hér kemur vafalítið til sú meginástæða sem einnig á við um litla sölu til ríkisins á sínum tíma að atvinnuástandið hefur verið lakara að undanförnu en áður var og bændur því ófúsari en ella að láta af framleiðslurétti sínum og leita á önnur mið. Framboð á kvóta hefur því verið lítið og verðlag úr öllu hófi.
    Nokkru öðru máli gegnir um mjólkurframleiðsluna. Þar hafa viðskipti verið nokkur þrátt fyrir hátt verðlag enda er jákvæð þróun í stærð kúabúa þrátt fyrir það að framleiðsluheimildir hafi verið skertar nokkuð. Þrátt fyrir þá óhagstæðu þróun sem ríkt hefur í sauðfjárbúskap og ég hef hér rakið var staðið við þá framleiðnikröfu sem skilgreind var fyrstu tvö árin sem var 2% verðlækkun haustið 1991 og 4% lækkun haustið 1992. Sl. haust hafði verð til bænda lækkað um 10% að raungildi frá því sem var fyrir samningsgerðina en það er auðvitað ekki einfalt að sjá fyrir möguleikana á frekari verðlækkunum næstu ár eins og aðstæður eru nú.
    Lækkun kostnaðar við slátrun hefur ekki gengið eftir á sama hátt og veldur þar vissulega miklu hversu bág fjárhagsstaða er hjá flestum sláturhúsum landsins og þungar skuldaklyfjar. Það er svo metið að slátur og heildsölukostnaður hafi lækkað um 3,3% frá haustinu 1991 en vegna þessu hversu sjóðagjöld hafa lækkað hefur raunverð dilkakjöts í heildsölu lækkað um 9--10%.
    Enn má svo geta þess að vegna erfiðrar birgðastöðu hefur verð til bænda verið skert um 5% hvert haust síðan 1992 og þeim fjármunum að miklu leyti varið til verðlækkunar með ýmiss konar tilboðum sem í gangi hafa verið. Ef við nú metum stöðuna í dag þá liggur eftirfarandi fyrir:
    Útgjöld ríkisins vegna búvöruframleiðslu hafa dregist saman um 3,5 milljarða að raungildi á ársgrundvelli frá því sem var að meðaltali á síðasta kjörtímabili en útgjöldin til landbúnaðarmála alls um 4,3 milljarða á sama tíma.
    Í öðru lagi. Virkur framleiðsluréttur í sauðfjárrækt hefur minnkað um 29%, úr rúmum 10 þús. tonnum í 7.200 tonn á þessu ári. Framleiðslan hefur hins vegar ekki minnkað að sama skapi. Margir bændur framleiða umtalsvert magn til útflutnings samkvæmt umsýslusamningum við sláturleyfishafa og á því verði sem fæst. Markaðirnir eru takmarkaðir, verðið of lágt og sauðfjárbændur glíma enn við verulegan birgðavanda.
    Í þriðja lagi. Verðlækkun á kindakjöti hefur gengið eftir a.m.k. hvað framleiðendur varðar. Enn er þörf á verulegu átaki til að hagræða í slátrun til að bæta samkeppnisstöðuna hér heima og skapa grundvöll fyrir sókn á markaði erlendis.
    Í fjórða lagi. Framkvæmd búvörustjórnunarinnar er nú ákveðnari en áður var á meðan kvótastýringin var í mótun og ýmsar aðgerðir handahófskenndar.
    Í fimmta lagi. Tekist hefur að aðlaga mjólkurframleiðsluna markaðsaðstæðum og mæta þar umsömdum hagræðingarkröfum en mjólkurverð til framleiðenda hefur lækkað um 9% og smásöluverð á nýmjólk um 15% frá 1991. Þetta er að ýmsu leyti jávætt en eftir stendur að sauðfjárbændur búa í dag almennt við lakari kjör en viðgengist getur til lengdar eins og ég hef reyndar rakið bæði á fundum Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélagsins.
    Áætlað hefur verið að rauntekjur sauðfjárbænda af búskap sínum hafi lækkað um a.m.k. 40% á síðustu árum og í ýmsum tilvikum meir. Á móti kemur að vísu að svo virðist sem þeim hafi tekist þrátt fyrir erfitt atvinnuástand að auka nokkuð tekjur sínar utan bús. Samt sem áður vantar nokkuð á að sauðfjárbændur séu hálfdrættingar á við aðrar stéttir þegar litið er til fjölskyldutekna. Þetta er auðvitað alvarlegasta vandamál landbúnaðarins í dag og það sem þarf að takast á við þegar við hugum að endurskoðun búvörusamningsins sem ég hef þegar átt nokkrar viðræður við bændasamtökin um.
    Það er alveg ljóst í mínum huga að breytingar eru nauðsynlegar sem fela í sér aukinn sveigjanleik í framleiðslustjórninni án þess þó að hefja nýja kollsteypu sem hefði í för með sér glundroða og mikið óöryggi fyrir bændastéttina. Við eigum enn eftir að finna og ná saman um slíka leið. Og auðvitað getur ekki falist í kerfisbreytingu nein sú töfralausn sem færir stéttinni samstundis auknar tekjur. Á hinn bóginn þarf að auka hvatann til frekari aðlögunar í greininni og skapa möguleika fyrir þá sem ekki eiga þar framtíð fyrir sér til að hasla sér völl á öðrum vettvangi eða veita t.d. rosknum bændum afkomutryggingu með því að þeir annað tveggja dragi úr eða láti af framleiðslu en kvótinn haldist þó á jörðinni.
    Ekki þarf að fara um það mörgum orðum hér að staða ríkissjóðs hefur verið mjög þröng allt þetta kjörtímabil. Því hefur vissulega verið gengið fastar fram í sparnaði á sviði landbúnaðarmála en ella hefði verið og ekki hafa gefist sóknarfæri á ýmsum þeim sviðum sem ég hefði kosið. Þær stofnanir sem sinna kennslu, rannsóknum og leiðbeiningum fyrir landbúnaðinn hafa allar orðið að lúta ströngu aðhaldi en það hefur á hinn bóginn a.m.k. á sumum sviðum leitt til markvissari nýtingar á fjármunum og skýrari markmiða. Hvað varðar þær skuldbindingar sem ríkissjóður undirgekkst með búvörusamningnum væri þó ósanngjarnt að halda öðru fram en að við þær hafi verið staðið í öllum veigamestu atriðunum. Þannig er ljóst að staðið hefur verið við allar greiðslur til bænda bæði vegna uppkaupa á fullvirðisrétti og beingreiðslurnar síðan. Reyndar gerði ríkið betur í uppkaupunum en samningurinn kvað á um með því að bjóða hærri greiðslur síðara kaupárið en ákveðið hafði verið en þetta var gert til að freista þess að fá fleiri til að selja fullvirðisrétt sinn og draga þannig úr flatri niðurfærslu. Nokkur ágreiningur kom upp vegna mats á birgðasölu við upphaf samningstímans svo sem frá er greint í skýrslunni og kom ríkisvaldið til móts við gagnrýni bænda sem að hluta til var réttmætt.
    Staðið hefur verið við framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og Lífeyrissjóðs bænda en hvað Jarðasjóðinn varðar vantar verulega á að hann hafi í reynd fengið þau framlög sem samningurinn kvað á um. Framlög til hans á fjárlögum 1992 og 1993 voru ákveðin samkvæmt samningnum 75 millj. kr. hvort ár og skyldi fjárins aflað með sölu jarðeigna. Þær sölur skiluðu sjóðnum einungis 21 millj. kr. þessi tvö ár. Hins vegar reyndist lítil sem engin ásókn í að selja sjóðnum jarðir á þessum árum þannig að varla reyndi á fjárþörfina.
    Ég vil í þessu samhengi, hæstv. forseti, aðeins skjóta því inn vegna þess að ég tel nauðsynlegt að það liggi fyrir skjalfest í gögnum þingsins að þau ummæli sem voru höfð eftir mér á nefndaráliti meiri hluta fjárln. í sambandi við jarðræktarframlög voru ekki undir mig borin og voru ekki mín orð.
    Gagnrýni hefur komið fram á það að ríkisvaldið hafi ekki efnt þau ákvæði í Viðauka II með búvörusamningnum sem varðar fjáröflun til Byggðastofnunar til að greiða fyrir annarri atvinnuuppbyggingu á þeim stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárrækt. Það er vissulega rétt að stofnunin hefur ekki fengið sérgreint fjármagn í samræmi við þetta ákvæði. Hitt er ljóst að ákvæðið fól ekki í sér skuldbindingu um annað en lánsfé og menn geta velt því fyrir sér að hve miklu gagni það hefði komið á umræddum sauðfjársvæðum. Með fyrri fjárveitingum á fjárlögum yfirstandandi árs hafa Byggðastofnun á hinn bóginn verið tryggðar 90 millj. kr. sem framlög til fyrrgreindra verkefna. Um bókun 6 með samningnum sem oft er vitnað til og gaf væntingar um 2 milljarða kr. til landgræðslu og skógræktar fram að aldamótum skal ég ekki að hafa mörg orð. Orðalag þeirrar bókunar eitt og sér sýnir að samningsaðilunum hefur tæplega verið alvara eða þeir sjálfir trúað því að þetta væri raunhæft. Ég harma það hins vegar að hafa ekki getað tekið betur á í þessum málaflokkum en raun ber vitni en bendi jafnframt á að heildarframlög til landgræðslu og skógræktar hafa orðið hærri á þessu kjörtímabili en árin þar á undan þrátt fyrir þá örugleika sem við höfum þurft að glíma við í ríkisfjármálum.
    Það er vissulega ástæða til í nýjum búvörusamningi að huga að þessum málaflokki og einnig rannsókna- og þróunarstarfinu af meiri festu og með skýrari markmið en gert var í þeim samningi sem hér er til umræðu.
    Ég skal svo, herra forseti, ekki hafa þessi orð miklu lengri. Ég vil leggja áherslu á að í nýjum búvörusamningi hljótum við að leggja til grundvallar með hvaða hætti við getum komið til móts við sauðfjárbændur. Ég vil leggja áherslu á þann þátt málsins hvernig við getum og til hvaða aðgerða við getum gripið til þess að treysta markaðssókn íslenskra landbúnaðarvara á erlendum mörkuðum og hér innan lands eins og ég hef raunar gert ítarlega grein fyrir á öðrum vettvangi. Í þriðja lagi vil ég leggja áherslu á mikilvægi þess að fastar verði tekið á skipulagi rannsókna- og þróunarstarfs og skólastarfi í landbúnaðinum sem ég hygg að verði auðveldara en áður eftir að bændasamtökin hafa skipulagt sig með nýjum hætti og sameinast.