Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:20:36 (3849)


[12:20]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það eru nærri fjögur ár síðan núv. hæstv. landbrh. tók það að sér að móta og stjórna landbúnaðarstefnu núv. ríkisstjórnar. Það hefði því verið ástæða til þess að ætla að hann notaði þetta tækifæri sem hér gefst að ræða um þá skýrslu sem hér er til umræðu til þess að gefa víðtækt yfirlit yfir þessi störf og þær línur sem hann hefði lagt í landbúnaðarmálin fyrir framtíðina.
    En það hefur komið hér fram það fór fyrir fleirum en mér finnast að það ekki rismikil ræða sem hann flutti. Að vísu er þessi skýrsla um afmarkaðan þátt landbúnaðarins, þ.e. framkvæmd búvörusamningsins frá 1991. Sá þáttur er þó mjög mikilvægur og augljóst að framkvæmd hans byggist mjög á almennri stöðu landbúnaðarins og einnig að hann hefur áhrif út fyrir það þrönga svið sem honum er ætlað að fjalla sérstaklega um. Því hefði það verið eðlilegt að ráðherra hefði gert meiri grein fyrir stöðu landbúnaðarins á breiðari grundvelli.
    Það sem mér fannst einkenna ræðu hæstv. landbrh. var afsökunartónn. Ýmislegt hefði mátt fara betur að hans mati og margt bíður framtíðarinnar að leysa. Þetta finnst mér endurspegla það viðhorf hæstv. landbrh. að landbúnaðurinn sé vandamál, vandamál sem verið er að glíma við en ekki annar undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar með þeim mörgu möguleikum sem þar felast ef rétt er á málum haldið.

    Það hafa verið rakin af öðrum hv. ræðumönnum þau atriði sem fram koma í fyrrnefndri skýrslu og ég ætla ekki að endurtaka margt af því. En það er óhætt að fullyrða að búvörusamningurinn sem gerður var 1991 var byggður á bjartsýni af hálfu Stéttarsambands bænda sem gerði þann samning, bjartsýni sem því miður hefur ekki ræst. Sala á kindakjöti hefur fallið meira en menn vonuðust til. Það skiptir þó ekki minna máli sú þróun sem orðið hefur í atvinnulífi þjóðarinnar, þ.e. atvinnuleysið sem hóf innreið sína með valdatöku þessarar ríkisstjórnar. Það var gengið út frá því að bændur mundu nota sér það í miklu ríkari mæli en raunin hefur á orðið að vinnu var víða hægt að fá við önnur verkefni í nágrenni bændabýlanna þannig að það væri hægt að sækja vinnu annað þó að menn héldu áfram búrekstri sínum og byggju á jörðunum. Því miður hafa þessir möguleikar minnkað mjög mikið vegna atvinnuþróunarinnar og víða lokast alveg. Að sjálfsögðu hefur þetta almenna atvinnuástand líka leitt til þess að sumir sem e.t.v. hefðu viljað hætta búskap ef örugga vinnu væri að fá annars staðar að þeir hafa orðið að halda áfram að vera á jörðum sínum og reyna að nýta það sem þar er að hafa.
    En þó að þróunin hafi orðið sú að forsendurnar hafa ekki ræst þá hefur núv. hæstv. ríkisstjórn ekkert gert til þess að bæta bændum þessi áföll þrátt fyrir það, eins og hér kom skýrt fram hjá hæstv. landbrh., að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa samnings hafa lækkað um a.m.k. 3,5 milljarða. Það hefur ekki aðeins verið látið sitja við það að bæta ekki þessi áföll heldur hefur einnig verið skorið víða niður en samningurinn kveður á um, má segja á öllum öðrum sviðum til landbúnaðarins. Það eru rakin nokkur dæmi um það í áliti landbn. við fjárlög yfirstandandi árs sem sent var til fjárln. og þegar hefur verið gerð nokkur grein fyrir.
    Ég vil aðeins minnast á það að í sambandi við Framleiðnisjóð landbúnaðarins þar sem sagt hefur verið að staðið hafi verið við framlög til hans af núv. hæstv. ríkisstjórn, þá var það svo að í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum var ákvæði um það að árið 1992 skyldu renna til Framleiðnisjóðs 4% af verðmæti heildarframleiðslu. Það hafði verið þannig undanfarin ár og var þá á sjöunda hundrað millj. kr. Við þetta ákvæði laganna var ekki staðið við fjárlagagerð fyrir árið 1992 þar sem í þeim fjárlögum voru aðeins 340 millj. til Framleiðnisjóðs.
    Það hefur verið rætt um jarðræktarframlögin og ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim erfiðleikum sem framkvæmd hæstv. landbrh. á jarðræktarframlögunum veldur bændum, þ.e. að það er reiknað með þessum framlögum í verðlagsgrundvelli sem verður af þeim sökum nokkuð lægri þrátt fyrir það að þessi framlög skili sér ekki. Hæstv. ráðherra sagði að staða mjólkurframleiðslunnar væri allviðunandi skildist mér á honum en það þarf ekki annað en að líta til þeirra staðreynda að á síðustu fjórum árum hafa mjög fá fjós verið byggð í landinu, svo fá að það hefur verið reiknað út að það tæki 200 ár að endurnýja öll fjós með slíkum hraða. Sjá allir í hvert óefni stefnir þegar þannig er ástandið en þessi staðreynd segir fyrst og fremst eitt, að afkoma og öryggisleysi bænda í þessari búgrein er svo mikið að þeir treysta sér ekki til þess að leggja út í slíka fjárfestingu.
    Í þessu sambandi vil ég aðeins víkja að furðulegri yfirlýsingu hæstv. landbrh. hér áðan þar sem hann sagði fullyrðingu sem kemur fram í framhaldsnefndaráliti við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994 frá meiri hluta fjárln. hreinan uppspuna. En í þessu áliti segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meiri hluti fjárln. hefur ákveðið í samráði við landbrh. og fjmrh. að leggja til 40 millj. kr. framlag vegna áburðarhúsa og vatnsveitna sem byggð voru á árunum 1992 og 1993 enda uppfylli jarðabætur þessi skilyrði jarðræktarlaga um greiðslur framlags. Jafnframt vilja sömu aðilar láta það koma skýrt fram að ekki verði um frekari fjárveitingar að ræða til framkvæmda samkvæmt jarðræktarlögum.``
    Þessi setning var mikið til umræðu hér við afgreiðslu fjáraukalaganna og ekki datt hæstv. landbrh. í hug að andmæla þessu þá. Ef þetta eru ósannindi af hverju var hæstv. landbrh. að draga það að leiðrétta þetta þangað til að búið væri að afgreiða fjáraukalögin? Var það til þess að reyna að róa sitt lið að samþykkja þetta eða hver var tilgangurinn?
    En það sem mér að sjálfsögðu finnst alvarlegast er að meiri hluti fjárln. skuli koma og leggja fram í sínu nál. algjöran uppspuna. Ég vildi nú vonast til þess að einhver af þessum hv. þm. sem þar skrifuðu undir, en það eru þeir Sigbjörn Gunnarsson, form. og frsm., Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson, Árni Johnsen og Árni M. Mathiesen, geri grein fyrir þessum vinnubrögðum sínum hér. Það er algjörlega ólíðandi annað en á þessu fáist skýring og það komi skýrt fram hver það er sem er að segja ósatt. Hver er að blekkja hvern? En vissulega er það táknrænt fyrir áhuga núv. stjórnarflokka á landbúnaðarmálum að hæstv. landbrh. er eini fulltrúi stjórnarflokkanna við þessa umræðu. Aðrir hlaupa í felur og þora ekki að láta sjá sig. Hvorki formaður hv. landbn. eða varaformaður láta sjá sig við þessa umræðu. Það sýnir áhuga þeirra á þessum málum eða kannski hafa þeir ekki þrek til að koma hér og vera við þessa dapurlegu umræðu.
    Því miður er nú tími minn senn á þrotum að þessu sinni en ég vildi að sjálfsögðu aðeins víkja að nokkrum þeim atriðum sem hæstv. landbrh. sagði að biði framtíðarinnar að leysa. Hæstv. ráðherra vék að því að hann hefði í lok mánaðarins gefið út reglugerð um verðjöfnun við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni. Ég spurði ítrekað eftir þessari reglugerð fyrir áramótin og reyndar hefur það verið gert áður og þá lýsti hæstv. ráðherra því yfir að hún yrði gefin út í öndverðum þessum mánuði og það stóðst, hún var gefin út 27. jan. En þó að ég vilji ekki gera lítið úr þeim ávinningi sem kann að felast í þessum reglum og vissulega ber að þakka það sem gert er þá held ég að flestir hafi orðið fyrir vonbrigðum með það hversu takmarkað efni þessarar reglugerðar er. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra að því af hverju reglugerðin var ekki víðtækari. Hvaða lagaheimildir eða lagaákvæði komu í veg fyrir að hægt væri að hafa reglugerðina víðtækari?
    Tími minn er senn á þrotum svo ég hef ekki tækifæri til að ræða fleira sem snertir framtíðina en ég vildi aðeins vekja athygli á orðum hæstv. forsrh. sem sagði við umræðu um lánsfjárlög fyrir áramótin, með leyfi forseta: ,,Hagsmunir atvinnulífsins og skilyrði hafa ekki verið betri í langan tíma í landinu þrátt fyrir að ýmsar ytri aðstæður hafi til skamms tíma gengið okkur í óhag. Samkeppnisstaða atvinnulífsins hefur batnað mjög mikið á þessum tíma.``
    Er þessi trú hæstv. ríkisstjórnar á stöðu, hinni framúrskarandi góðu stöðu íslenskra atvinnuvega, ástæðan fyrir því að ekki hefur verið gert neitt til að styrkja stöðu sauðfjárræktarinnar? Er það af því að hæstv. ríkisstjórn lifir í þeirri trú að þetta sé allt í góðu lagi eða er hæstv. ríkisstjórn búin að afskrifa algjörlega að landbúnaðurinn og ýmsar greinar hans teljist til atvinnulífs þjóðarinnar?