Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:37:32 (3851)


[12:37]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. svaraði litlu af þeim spurningum sem ég bar fram til hans. Það sem ég var fyrst og fremst að gagnrýna var þessi yfirlýsing sem hæstv. ráðherra gaf um að ekki ætti að greiða meira til jarðræktarframlaga í framtíðinni sem hann að vísu sagði að væri rangt og ég vildi fá skýringu á því hver það væri þá sem segði ósatt. Þegar ég var landbrh. var árlega veitt til jarðræktarframlaga 300--400 millj. kr. en vissulega er það rétt hjá hæstv. ráðherra að framkvæmdir voru þá það miklar að þessi upphæð nægði ekki alltaf til að greiða þannig að það þurfti að geyma milli ára.
    Mér finnst hæstv. ráðherra vera fljótur að gleyma ef hann man ekki eftir setningu laganna um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara sem hann samþykkti á Alþingi eins og aðrir sem studdu þáv. ríkisstjórn og reyndar fleiri. Lögin voru samþykkt mótatkvæðalaust. Að sjálfsögðu var aðlögun framleiðslunnar byggð á þeim lögum og margvíslegar ráðstafanir gerðar. A.m.k. töluðu bændur þá um harkalega aðlögun að mörkuðunum og þá var í fyrsta skipti raunverulega tekið á til þess að aðlaga framleiðsluna markaðsaðstæðum. Ég held að það hefði verið affarasælla að reyna að ganga hægar fram en gert hefur verið.