Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:39:46 (3852)


[12:39]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það liggur alveg beint við ef við tölum um þróun í landbúnaði og hvernig einstakir ráðherrar hafa staðið sig sem landbrh. að taka tímabilið frá 1971, eftir að Ingólfur Jónsson frá Hellu hætti, sjá hvað síðan hefur gerst og lesa þunga áfellisdóma sem Sigurður Líndal prófessor og aðrir hafa kveðið upp úr um það hvernig staðið var að framkvæmdinni þar sem bent er á það að valsað hafi verið með framleiðslurétt bænda án þess að lagabókstafur væri fyrir hendi og þar sem við getum rakið dæmi um sorgleg slys sem hentu í einstökum tilvikum. (Gripið fram í.) Og það væri líka fróðlegt --- hv. þm. Stefán Guðmundsson á nú að láta hv. þm. Pál Pétursson tala um landbúnaðarmál en halda sér að öðru. (Gripið fram í.) Ég verð líka að segja að það væri gaman að reyna að rifja upp hver var heildarframleiðslan í landinu á dilkakjöti á árum hv. þm. Og hvernig stendur á því að þegar þessi ríkisstjórn tók við var algjör sátt um það, líka hjá framsóknarmönnum og kannski fyrst og fremst og helst hjá þeim, að við skyldum leggja niður útflutningsbæturnar? Hvernig stóð á því? Vegna þess að það hefur verið haldið illa á málum

landbúnaðarins, vegna þess að við sitjum uppi með vandamál frá þessum tíma og það er þess vegna sem byggðavandinn er svo mikill í dag. Það er þess vegna sem sauðfjárbændur eru svo hart leiknir og hafa svo þröngan kost að það hefur verið haldið illa á þeirra málum og þeir illa undir þá erfiðleika og þann samdrátt búnir sem við stöndum nú frammi fyrir.