Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 12:41:41 (3853)


[12:41]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að hæstv. landbrh. vill fara langt aftur í tímann og talar um Ingólf Jónsson, fyrrv. hæstv. landbrh., sem kom útflutningsbótunum á og sagði við bændur: Þið skuluð framleiða og framleiða og framleiða. Þið skuluð auka framleiðsluna. Það skiptir engu máli hver tilkostnaðurinn verður því það á bara að auka framleiðsluna.
    Það eru afleiðingar af þessari stefnu sem við höfum verið að glíma við í meira en tvo áratugi og reyndar lengur.
    En að öðru leyti fékk ég lítil svör frá hæstv. ráðherra við því sem ég var að spyrja um, um þau atriði sem þar höfðu komið fram.
    Eins og ég sagði var grundvöllur að aðlögun lagður með lögunum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Á þeim lögum var byggt. En síðan, eins og ég sagði, var samningurinn 1991 byggður á bjartsýni um það hvernig þróunin yrði en því miður, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þegar þær forsendur brugðust þá greip núv. hæstv. ríkisstjórn ekkert til þess að hlaupa þar undir bagga heldur þvert á móti var skorinn niður stuðningur á öllum sviðum.